Fréttatíminn - 09.09.2016, Side 22
22 | FRÉTTATÍMINN | Föstudagur 9. september 2016
Meginhlutverk stjórn-málamanna er að gæta hagsmuna almennings. Um þetta eru líklega
allir sammála. Þegar kemur að því
að skilgreina hverjir hagsmunir al-
mennings eru verður fólk ósam-
mála. Það liggur ekki alltaf ljóst fyrir
hverjir eru hagsmunir almennings?
Eða, hverjir eru hagsmunir Íslands?
svo notað sé kunnuglegt orðfæri.
Ein leið til að skilgreina hagsmuni
almennings er að líta á almenning
sem eiganda sameiginlegra sjóða,
sameignarlands og sameiginlegra
réttinda. Gæslumenn almannahags-
muna gæta þá að því að einstak-
lingar eða lítill hópur fólks nái ekki
undir sig sameiginlegum gæðum.
Séð frá þessum sjónarhóli hafa ís-
lenskir stjórnmálamenn staðið sig
hörmulega. Umræða um almanna-
hag á Íslandi getur orðið svo öfug-
snúin að stundum mætti halda að
því væri almennt trúað á Íslandi að
almannahagur næði mestum blóma
ef allir sérhagsmunaaðilar fengju
mest af sínum óskum fullnægt. Það
virðist vera þjóðtrú Íslendinga að al-
mannahagur spretti af hag sérhags-
munaaðila; að ekki sé hægt að efla
almannahag nema fóðra sérhags-
munaaðilana fyrst.
Þetta sést af mörgu. Í sjávarútvegi
birtist þetta með því að stjórnmála-
menn halda því fram, án þess að
missa andlitið, að það sé almanna-
hagur að útgerðarmönnum sé gef-
inn kvótinn. Eða svo gott sem. Sam-
kvæmt markaðsvirði er kvótinn við
Íslandsstrendur um 1010 milljarða
virði. Hann er skilgreindur sem eign
þjóðarinnar. Gæslumenn þessara
eigna leigja kvótann hins vegar
út á 4,8 milljarða á ári. Með þeirri
leigu tæki það eigandann 210 ár að
fá verðmæti eignar sinnar greidda
með leigunni.
Það leigir náttúrlega ekki nokkur
maður út eign sína með þeim kjör-
um. Nema íslenska þjóðin. Hún kýs
stjórnmálamenn til ábyrgðarstarfa
sem fara svona illa með eignir þjóð-
ar sinnar.
Og rökin eru þau að þjóðin græði
á því að gefa eigur sínar frá sér því
hún muni hagnast svo mikið af því
að fáeinir útgerðarmenn auðgist af
því að fá eigurnar nánast ókeypis.
Undarleg rök? Vissulega, en þau eru
samt meginstraumsrök íslenskra
stjórnmála.
Þjóðin á fallvötnin og líka Lands-
virkjun. Gæslumenn þessara verð-
mæta eru stjórnmálamenn sem
þjóðin kýs. Þeir hafa farið þannig
með þessar eigur að stóriðjuver-
um, einkum erlendum, hefur verið
seld orkan nánast á kostnaðarverði
þannig að arðurinn af auðlindunum
rennur ekki til þjóðarinnar heldur
til stórfyrirtækja. Hvers vegna? Því
er haldið fram almenningur muni
hagnast óbeint af því að arðurinn
af orkunni renni til fárra fyrirtækja.
Og þaðan til útlanda.
Íslenskum stjórnvöldum hef-
ur mistekist að gæta að almanna-
hag með sama hætti og stjórnvöld
annarra landa hafa gert, með því að
girða fyrir það að stóriðjuver komist
hjá skattgreiðslum með því að gjald-
færa vaxtagreiðslur til sjálfs sín.
Ég man ekki til að hafa heyrt
rökin fyrir þessari ráðstöfun; hvern-
ig íslenskur almenningur hagnast af
því að fyrirtæki borgi ekki skatta.
En samt er það venjan.
Því er líka haldið fram að almenn-
ingur hagnist af því að styðja ís-
lenskan landbúnað án þess að það
hugtak sé kannski alveg skýrt. Er ís-
lenskur landbúnaður fjölskyldubýli
í afskekktum dal? Eða er íslenskur
landbúnaður stóriðja sem framleið-
ir verksmiðjumat? Eða er íslenskur
landbúnaður verksmiðjuræktun á
kjúkling og svíni?
Gæslumenn almannahags koma
til almennings og segjast vera að
styðja fjölskylduna í dalnum en
þegar betur er að gáð fá verksmiðju-
verin mesta peningana. Fjölskyldan
í dalnum hefur varla í sig og á af bú-
rekstri sínum.
Kannski er helst verkefni íslenskra
stjórnmála að skilgreina almanna-
hag út frá okkur sem eigendum sam-
eiginlegra sjóða, sameignarlands,
miðanna í kringum landið og sam-
eiginlegra réttinda. Það hefur sjálf-
stætt gildi og er mikilvægt að meta
mál út frá þessum sjónarhóli. Ef við
gætum ekki að sameiginlegum hag
okkar allra munum við byggja upp
samfélag sem einkennist af ójafn-
vægi og óréttlæti.
Samfélag sem er líkt því sem við
sitjum uppi með.
Samfélagið mun ekki breytast
nema við hugsum öðruvísi um það.
Við gætum til dæmis tekið upp þá
reglu að þeir stjórnmálamenn sem
vilja leigja útgerðarmönnum kvót-
ann fyrir 4,8 milljarða króna, í stað
80 milljarða króna, hvað þeir vilja
leggja niður af starfsemi ríkisins
sem er 75 milljarða króna virði. Eða
þeir sem vilja gefa álveri 5 milljarðar
króna afslátt frá sköttum skilgreini
hvar þeir vilji ná í þessa 5 milljarða
króna í staðinn.
Vandinn við almannahag á Ís-
landi hefur verið fjarvera hans úr
umræðunni. Við þurfum að láta
samfélagsumræðuna hverfast um
almannahag.
Gunnar Smári
ALMENNINGUR
AFGANGSSTÆRÐ
Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík. Sími: 531 3300. ritstjórn@frettatiminn.is
Útgefandi: Gunnar Smári Egilsson. Ritstjórar: Gunnar Smári Egilsson og Þóra Tómasdóttir.
Fréttastjóri: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. Ritstjórnarfulltrúi: Höskuldur Daði Magnússon. Dreifing: Póstdreifing. Framkvæmdastjóri
og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson. Fréttatíminn er gefinn út af Morgundegi ehf. og er prentaður í 83.000 eintökum í Landsprenti.
lóaboratoríum lóa hjálmtýsdóttir