Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2007, Síða 38

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2007, Síða 38
hreinlega á skjön við heimspekina að baki sem byggist á reynslu og tilvist (Boykin og Schoenhofer, 1991; Clark, 1998; Sandelowski 1993). Þessi umræða öll er hjúkrunarfræðingum í dag mjög kunn. Flestir hjúkrunarfræðingar eru sér jafnframt meðvitaðir um að þessi afstaða er gagnstæð því sem vísindahyggjan (e. positivism) byggist á en það er að leita hins tæra sannleika með hinni vísindalegu aðferð. Þar er leitast við að finna þekkingarmola sem í samhengi byggja upp heildarmynd okkar af heiminum. Heimsýnin, sem byggt erá, er sú að sannleikann sé að finna, hann sé óumbreytanlegur og að rannsakandinn sé hlutlaus. Fjöldi fræðimanna í hjúkrun benti á að aðferðir vísindahyggjunnar hentuðu ekki hjúkrun því sú hugmyndafræði hafnaði mikilvægi þess að manneskjan væri huglæg, félagsleg, andleg og túlkandi vera. í leit sinni að hinum algilda sannleika og lögmálum, sem séu óháð menningu og aðstæðum, feli vísindahyggjan í sér smættaða mynd af manneskjunni. Óskýr aðgreining milli aðferðar og kenningar að baki aðferðinni í rannsóknum hjúkrunarfræðinga var talsvert gagnrýnd um og upp úr miðjum tíunda áratugnum, ef til vill í Ijósi þess að rannsakendur, sem nýttu megindlegar aðferðir í sínum rannsóknum, könnuðust ekki við að hafna hinni heildrænu sýn hjúkrunar. Ýmsir fræðimenn lýstu þeirri afstöðu að hjúkrunarrannsóknir þyrftu fleiri en eina aðferð til að ná að spegla hina margþættu, flóknu og hagnýtu hjúkrunarþekkingu (Benner o.fl., 1996; Foss og Ellefsen, 2002). Hugtakið „triangulation" var talsvert rætt innan hjúkrunarstéttarinnar. Með hugtakinu er átt við að hægt sé að rannsaka sama fyrirbærið með mismunandi aðferðum. Sá varnagli var hins vegar sleginn að heimssýnin, sem stýrði rannsókninni, þyrfti að vera Ijós. Er eigindlega aðferðin sú sem stýrir rannsókninni og hin megindlega aðferð notuð til að bæta við og gera greininguna fyllri eða öfugt? í mínum eigin rannsóknum á fyrirtíðaspennu kvenna notaði ég eigindlegar og megindlegar aðferðir til að skýra það sem ég vildi sagt hafa. Það var reyndar algert nýnæmi á þeim tíma að skoða túlkun kvenna sjálfra á því hvaða merkingu þær leggja í hugtakið fyrirtíðaspenna. Þó að ekki verði farið frekar út í niðurstöður þeirra rannsókna hér þá verður að geta þess að þær niðurstöður og sá skilningur, sem fékkst með rannsóknunum, hefði ekki fengist án þess að beita bæði eigindlegum og megindlegum aðferðum. (Heimildir um rannsóknirnar er að finna á http://www. hi.is/~herdis/index.html.) Þekking í hjúkrunarstarfinu f dag er umræðan að færast frá aðferðum yfir í hver sé besta þekking sem við þurfum að búa yfir til að geta starfað sem fagmenn, þó vissulega séu aðferðir hluti af þeirri umræðu. Gagnreynd þekking og að starf skuli grundvallað á henni er umfjöllunarefni nútímans. Flestir heilbrigðisstarfsmenn þekkja vinnuna sem nú á sér stað í gerð klínískra leiðbeininga. Á vef landlæknisembættisins eru taldir upp á fimmta tug slíkra leiðbeiningalista og nokkrir eru í vinnslu. Uppgangi gagnreyndrar þekkingar hafa fylgt nýjar áherslur í fræðilegri umræðu innan heilbrigðisvísinda um það hvað sé raunveruleg þekking sem við getum byggt ákvarðanir okkar á og hver sé besta aðferðin við að afla hennar. Tilgangurinn er að lágmarka mistök í starfi og helst að komast hjá því að byggja meðferð á persónubundnu mati. Meðferð byggð á persónubundnu mati og reynslu (e. rich clinical judgement) hefur verið gagnrýnd gífurlega í fræðilegri umræðu um heilbrigði kvenna en á því sviði var umræðan um fordóma og lítt fræðileg vinnubrögð áberandi þegar kemur að læknisfræðilegri meðferð. Það ætti því að vera fagnaðarefni að kerfið sé að taka sig á, semja gagnsæjar leiðbeiningar, aðgengilegar öllum, sem sýna hvernig við tökum ákvarðanir. Ég hef iðulega bent konum, sem hafa komið að máli við mig vegna notkunar tíðahvarfahormóna, á að skoða leiðbeiningarnar á vef landlæknis og finnst mjög til bóta að geta það. Innan hjúkrunar hefur orðið þó nokkur umræða um hvað telst sannreynd þekking og byggist á hefðum okkar um hvernig við lítum á manneskjuna og þekkinguna í heild. Annars vegar er gagnrýnt að skilgreining á hvað geti talist sannreynd þekking sé ekki nægilega víð, hún leggi of mikla áherslu á pósitívíska vísindalega þekkingu og dragi úr gildi klínísks mats og einstaklingsbundinnar reynsluþekkingar. Hún eigi við í raunvísindum en síður í mannvísindum. Til sé þekking (e. ways of knowing) sem sé í grundvallaratriðum frábrugðin þekkingu sem byggist á hinni vísindalegu aðferð og sé ekki hægt að sannreyna með vísindalegum rannsóknum. Þarna er um að ræða það sem kallað hefur verið t.d. ‘siðfræðileg þekking’, ‘persónuleg þekking’, ‘krítísk ígrundun’ og ‘innsæisþekking’. Krítísk ígrundun, þegar henni er rétt beitt, ætti að standa samhliða tvíblindum slembuðum rannsóknum þegar kemur að sönnunargildi, svo vitnað sé í nýja grein úr Nursing Þhilosophy (Avis og Freshwater, 2006). Jafnframt er bent á að þar sem niðurstöður vísindalegar þekkingar geti verið aðstæðubundnar þá geti forsendur vel unninna rannsókna verið rangar, niðurstöður ranglega túlkaðar og útkoman í versta falli skaðleg. Þekkt dæmi eru þátttaka og útilokun kvenna úr vísindarannsóknum og nýleg dæmi eru um útilokun kynþátta (Taylor, 2005). Hitt sjónarmiðið er að fyrir því séu mjög góð rök að takmarka gagnreynda þekkingu við niðurstöður vísindalegra rannsókna. í rannsóknum séu notaðar þekktar leiðir við öflun þekkingar, leiðir sem hafa verið þróaðar á löngum tíma og njóta viðurkenningar. Leitast sé við að draga úr villum (e. error) eða að minnsta kosti að lágmarka þær. Að greina og útrýma villum sé kjarni hinnar vísindalegu aðferðar og þekking byggð á henni hafi staðist það próf að reyna að lágmarka villuna. Þó verði vissulega að hafa í huga gagnrýni sem fram hefur komið, sérstaklega þá er lýtur að forsendum og túlkun niðurstaðna. Tímarit hjúkrunarfræðinga - 4. tbl. 83. árg. 2007

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.