Ráðunautafundur - 15.02.1997, Síða 48
40
hleypa því í fjalllendi, svo framarlega sem gróður leyfir. Þetta mun væntanlega auka afurðir,
en auk þess bæta beitilandið þegar til lengri tíma er litið. Ef fjalllendi er ekki fyrir hendi,
þannig að beita verður fénu áfram á láglendi, þarf að setja féð á óbitið land og helst að endur-
taka það í byrjun ágúst til að koma í veg fyrir sníkjudýrasmit, t.d. vegna hnísla. Best væri að
beita lambfénu aldrei tvö ár í röð á sama landið, en það er því miður varla gerlegt ef menn búa
eingöngu með sauðfé. í blönduðum búskap er oft hægt að friða land tímabundið fyrir sauðfé.
Það hefur sýnt sig að með því að beita lambfé og hrossum eða geldneytum saman á mýr-
lendi má fá auknar afurðir af fénu (6. mynd). Hér er eflaust um samspil mismunandi plöntu-
vals og minna sníkjudýrasmits að ræða. Eflaust væri enn betra að beita stórgripunum á landið
annað árið og fénu hitt árið, eða beita stórgripunum á láglendi snemma sumars sem ætlunin er
að beita fé á seinni hluta sumars svo gróðurinn spretti síður úr sér. Þó verður alltaf að láta
nokkrar vikur líða frá því stórgripunum er beitt á landið og þar til féð er sett á það til að
gróðurinn fái tíma til að spretta. Hver bóndi verður þó að vega og meta hvaða beitarkerfi
hentar honum best því landgæði og búskaparhættir eru hvergi þeir sömu.
Ekki er hagkvæmt að bera á land til beitar á þeim tíma sem vöxtur lambanna er mestur,
því þá eykur áburðargjöfin lítið sem ekkert framleiðsluna eftir ána. Ef um landþrengsli er að
ræða, eða talið nauðsynlegt að bera á úthaga til sumarbeitar af einhverjum öðrum orsökum, er
mikilvægt að velja landið vel. Þannig getur fengist frá 5 til 11 föld aukning í beitarþoli og í
kjötframleiðslu á hektara við áburðargjöf við sama fallþunga. Rýrt land, t.d. rýrt graslendi,
gefur mesta aukningu, en betra land, s.s. framræst mýrlendi, gefur minni svörun.
HAUSTBEIT
Þegar líður að lokum ágústmánaðar hefur yfirleitt dregið svo úr vexti lambanna, hvort sem þau
ganga á hálendi eða láglendi, að rétt er að beita þeim á betra land. Á þessum tíma er nyt ánna
orðin lítil og sumar ærnar, t.d. á mýrlendi, geldar. Þar sem aðstæður leyfa getur verið hag-
kvæmt á þessum tíma, eða strax um miðjan ágúst, að nota ræktað land og áburð til að bata
lömbin til þess að auka bæði þunga og gæði fallanna. Best er þá að venja lömbin undan, slátra
stærstu lömbunum og setja hin á gott beitiland, t.d. áborna há, eins og víða hefur verið gert um
árabil. Nokkur atriði ber þó sérstaklega að hafa í huga. Má þar nefna að mikilvægt er að sauð-
fé hafi ekki gengið á beitilandinu fyrr á árinu og landið sé því laust við sníkjudýrasmit. Þá er
líka mikilvægt að hafa lömbin á landinu í að minnsta kosti 4-5 vikur fyrir slátrun til að
bötunin greiði örugglega aukin kostnað vegna haustbeitarinnar og gott betur, því auk þess
getur beitin dregið úr uppskeru landsins næsta ár. Ef beitt er á há er mikilvægt að hún sé
áborin til að árangur náist.