Ráðunautafundur - 15.02.1997, Page 109
101
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1997
Nytjaskógrækt á bújörðum og skógræktarstörf bænda
Jón Loftsson
°g
Þröstur Eysteinsson
Skógrœkt ríkisins
INNGANGUR
Skógrækt ríkisins hefur alla tíð haft veruleg samskipti við bændur og ekki alltaf á jákvæðum
nótum. Einkum urðu árekstrar þar sem hefðbundin landnýting stangaðist á við það markmið
Skógræktarinnar að vernda birkiskóga. Slíkir árekstrar eru nú að mestu úr sögunni, en í
staðinn komið mikið og gott samstarf við bændur um ræktun nýrra skóga.
Samstarf Skógræktar ríkisins við bændur er núna þrenns konar: Nytjaskógrækt á bú-
jörðum, þar sem bændur í ákveðnum landshlutum rækta skóg á sínum jörðum til timburfram-
leiðslu, Skjólbeltarækt í Skeiðahreppi og Eyjafirði og Skógræktarstörf bænda þar sem
bændur vinna verk á vegum Skógræktarinnar, oftast í löndum Skógræktar ríkisins. Markmið
Skógræktarinnar með þessu samstarfi er að rækta meiri skóg, sem bindur koltvísýring, bætir
umhverfisskilyrði og ásýnd lands til sveita og verður tekjulind í framtíðinni. Markmið stjórn-
valda er sennilega ekki síður það að styrkja bændur með því að borga þeim fyrir að gróður-
setja tré.
UPPHAF NYTJASKÓGRÆKTAR Á BÚJÖRÐUM
Upphaf skipulegrar ríkisstyrktrar nytjaskógræktar á bújörðum var 1970 í Fljótsdal. Fram til
1984 gátu ekki aðrir en bændur á innanverðu Fljótsdalshéraði fengið styrk til nytjaskógræktar,
en eftir það bættust önnur svæði við hvert af öðru; Eyjafjörður innan Hörgár, uppsveitir Ár-
nessýslu, Reykjadalur í S-Þing., Svínadalur og Skorradalur í Borgarfirði, innanverð Blöndu-
hlíð og Norðurárdalur í Skagafirði, ofanverðir Rangárvellir og Síða. Þetta er nokkurn vegin í
þeirri röð sem skógræktarskilyrði eru talin best. Eftir 1990 varð nytjaskógrækt á Fljótsdals-
héraði að sérstöku verkefni, Héraðsskógum, með sérstakri stjórn og framkvæmdarstjóra utan
Skógræktar ríkisins. Bændur þar, sem voru í nytjaskógrækt, gengu inn í Héraðsskóga og við
það losnaði peningur til að auka við nytjaskógrækt annars staðar.