Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 8

Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 8
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða 34. árg. - 2. tbl. 2009  mikilvægt að spyrja nemendurna hvernig þeim líði við lestur bókmennta og fá þá til að tjá sig um þær tilfinningar sem vakna við lesturinn. Þeir verði þá einnig læsari á sínar eigin tilfinningar. Lestur er tvímælalaust afar mikilvægur. Hann örvar til að mynda ímyndunaraflið og sköpunargáfuna, hvetur til gagnrýninnar hugsunar og samfélagsrýni, veitir mannþekkingu og er þroskandi. Flestir nemendur skilja textann á endanum en oft þarf að gefa þeim tíma og leiða þá inn í efnið. En það má alls ekki gefast upp. „Glíman við ólæsið er stærsta og mikilvægasta verkefni bókmenntakennarans.“ Guðlaug Richter er með BA-próf í íslensku auk þess sem hún hefur samið barnabækur og lagt stund á þýðingar. Hún hefur lengi verið í stjórn IBBY á Íslandi og var um árabil ritstjóri tímaritsins „Börn og menning“ en er nú formaður félagsins. Guðlaug byggði erindi sitt á könnun sem var gerð á vegum Samtaka um Barnabókastofu síðastliðið sumar. Markmiðið með þessari könnun var að safna saman upplýsingum um það helsta sem verið er að gera á sviði lestrarhvatningar á Íslandi. Í erindi sínu kom Guðlaug meðal annars með rök fyrir stofnun sérstakrar Barnabókastofu og setti fram punkta um það hver gætu orðið helstu verkefni hennar. Minnkandi bóklestur barna er stöðugt áhyggjuefni og brýnasta verkefni slíkrar Barnabókastofu yrði að leggja sitt af mörkum í þágu lestrarhvatningar. Guðlaug vitnaði í ýmsar rannsóknir í fyrirlestri sínum þar sem margar áhugaverðar niðurstöður koma í ljós. Þær benda flestar til þess að bóklestur ungmenna hafi verið á stöðugri niðurleið og sé í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Til að mynda, samkvæmt einni könnuninni, lesa 55% 15 ára ungmenna ekki í frístundum sínum. Guðlaug nefnir sérstaklega sem dæmi um árangursríka lestrarhvatningu átakið „Lestrarmenning í Reykjanesbæ“ sem stóð á árunum 2003 til 2006. Á þessu tímabili, meðan átakið stóð yfir, tóku börnin merkjanlegum framförum í lestri, en hrakaði því miður fljótlega að átakinu loknu. Einnig fjallaði Guðlaug um lestrarátök sem eru í gangi í nágrannalöndunum, svo sem í Danmörku og Noregi. Að mati Guðlaugar eru skólar, skólabókasöfn, heimili, almenningssöfn og jafnvel fjölmiðlar helstu áhrifavaldar á lestur barna og ungmenna. Einna mikilvægust er lestrarhvatning í skólum. Þar er hin svokallaða „yndislestrarstund“ talin sérlega gagnleg; svo og Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk sem vekur áhuga barna á lestri. Einnig telja margir kennarar að hinar einstaklega vinsælu höfundaheimsóknir „Skáld í skólum“ hafi lestrarhvetjandi áhrif á nemendur. Snemma beygist krókurinn. Svo virðist sem aldrei sé hægt að byrja of snemma að halda bókum að börnum. Því fyrr sem farið er að lesa fyrir börn þeim mun betra og er mikilvægur undirbúningur fyrir grunnskólann. Þessi undirbúningur ætti helst að fara fram á öllum vígstöðvum, hvort sem um er að ræða heimili, dagforeldra eða leikskóla. Á óvart kom að ekki virðist vera gerð krafa um bókaeign dagforeldra. Engar rannsóknir eru til um það hve þáttur heimilanna er mikilvægur. En, því miður virðist sem sífellt sé minna lesið fyrir börn nú til dags. Foreldrar eru mikilvægasta fyrirmyndin og því má ekki gleyma að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Þáttur almenningsbókasafna er sömuleiðis mikilvægur. Þau eru mörg í góðu samstarfi við leikskóla viðkomandi bæjarfélags og með það að höfuðmarkmiði að auka lestur barna. Helstu verkfæri almenningsbókasafnanna til lestrarhvatningar barna eru: ókeypis bókasafnsskírteini, sumarlestur, ritsmiðjur, Bókaverðlaun barnanna og Ljóðasamkeppni barna sem haldin er annað hvert ár. Að auki eru ýmis almenningsbókasöfn í tímabundinni samvinnu við heilsugæslustöðvar síns bæjarfélags. Guðlaug nefnir hvað hún telur að betur megi fara. Henni finnst hver vinna í sínu horni, oft án þess að hafa minnstu hugmynd um það sem aðrir eru að gera. Ekki sé heldur nægilega mikil samvinna á milli hlutaðeigandi. Einnig finnst henni bera mikið á almennu skeytingarleysi.

x

Fregnir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fregnir
https://timarit.is/publication/283

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.