Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 20
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða
34. árg. - 2. tbl. 2009 20
Í október 2008 tók gildi nýr ISSN-staðall, ISO-3297: 2007, ISSN-L. Þá var liðið rúmlega ár frá útgáfu
staðalsins en beðið hafði verið eftir því að ISSN alþjóðaskrifstofunni tækist að gera ISSN-L númerið
aðgengilegt á vef sínum. Eins og aðrir ISO-staðlar er ISSN-staðallinn endurskoðaður á fimm ára fresti
og kom þessi 4. útgáfa hans út 1. september 2007 eftir nokkurra ára undirbúningsvinnu. Sú vinna
var leidd af ISSN alþjóðaskrifstofunni í París en að henni komu einnig fjölmargir hagsmunaaðilar
og notendur ISSN númera, svo sem útgefendur, tímaritabirgjar og dreifingaraðilar, fulltrúar frá DOI,
OpenURL og úr bókasafnsheiminum, auk annarra.
Við endurskoðun staðalsins var haft að leiðarljósi að koma til móts við tvær grundvallarþarfir notenda
ISSN númera í rafrænu umhverfi, annars vegar þeirra sem kaupa, selja og panta tímarit og hafa þörf
hafa fyrir að auðkenna hvert útgáfuform fyrir sig og hins vegar þeirra sem hafa þörf yfir að nálgast
innihald verksins, óháð útgáfuformi. ISSN númerið þyrfti þannig að geta auðkennt annars vegar titil
tímaritsins, eða verkið, óháð útgáfuformi og hins vegar mismunandi útgáfuform þess.
Niðurstaðan var sú að fyrsta ISSN númerið, sem úthlutað er fyrir hvern titil tímarits, hefur fengið nýtt
skilgreint hlutverk, ISSN-L, eða „linking ISSN“. Þetta gildir afturvirkt fyrir hvert einasta ISSN númer
sem úthlutað hefur verið frá upphafi óháð því hvort tímaritið kemur eða hefur komið út á einu eða
fleiri útgáfuformum. ISSN-L hefur það hlutverk að tengja saman mismunandi útgáfuform tímarits og
auðvelda þannig leit að efni óháð útgáfuformi. Eftir sem áður skal úthluta sérstöku ISSN númeri fyrir
hvert útgáfuform tímarits hvort sem það er gefið út prentað, rafrænt eða á geisladiski.
ISSN-L númerið mun koma að sérstöku gagni við leit að tímaritum á netinu og það er hægt að nota til
að mynda OpenURL-, URN- og DOI-tengla. Um meðferð ISSN-L gilda sérstakar reglur. Útgefendur
mega prenta eða birta það á ritunum að því tilskildu að það sé skýrt aðgreint frá eiginlegum ISSN
númerum þeirra. Gert er ráð fyrir að hægt verði að skrá ISSN-L í deilisvið $l í sviði 022 fyrir ISSN
númerið í MARC21 sniði og skal alltaf fara með það sem sérstakt aðgreint númer.
ISSN-L er ekki nýtt ISSN númer eða númer sem hægt er að sækja um að fá úthlutað. Það er skilgreint
sem slíkt á sjálfvirkan hátt í kerfi ISSN alþjóðaskrifstofunnar, ISSN-register, um leið og fyrsta ISSN
númeri fyrir hvern titil er úthlutað eða skráð. Fyrsta skrefið sem taka þurfti til að gera ISSN-L númerið
aðgengilegt var að skilgreina það afturvirkt í öllum færslum í ISSN-kerfinu en í því eru nú hátt í 15
milljón tímaritsfærslur. ISSN-L er alltaf sama númer og ISSN númer einnar útgáfu hvers titils, það er
að segja það númer sem úthlutað var fyrst og þar af leiðandi lægra í númeraröðinni. Dæmi:
Tímarit sem gefið er út á einu útgáfuformi:
ISSN-L 1748-7188
Rafræn útgáfa: Algorithms for molecular biology = ISSN 1748-7188
Tímarit sem gefið er út á tveimur útgáfuformum:
ISSN-L 0264-2875
Prentuð útgáfa: Dance research = ISSN 0264-2875
Rafræn útgáfa: Dance research (Online) = ISSN 1750-0095
ISSN-L: nýr ISSN staðall