Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 38
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða
34. árg. - 2. tbl. 2009 3
rannsóknir tengdar listgreinum. Mér var hugsað til daglegs opnunartíma Bóka- og heimildasafns
Þjóðminjasafnsins með nokkru stolti!
Nú var komið að því að fara heim á hótel og snurfusa sig fyrir hátíðarkvöldverð í hinu sögufræga
Riddarahúsi (Riddarhuset) í Gamla stan. Þar tók á móti okkur þau Antoinette Ramsay-Herthelius og
Göran Alm, yfirmenn Bernadotte bókasafnsins, hins konunglega. Göran Alm flutti okkur kostulega
skemmtilega frásögn um Riddarhuset og sænska kónga og tilurð Svíaríkis sem ég er ekki alveg viss
um að allir sagnfræðingar taki undir! Síðan var etið í fagurlega skreyttum veislusal Riddarhússins og
var vín og matur unaðsgott og hef ég aldrei smakkað jafn gott lambakjöt í Svíþjóð (hlýtur að hafa verið
frá Gotlandi...). Undir borðum söng svo Kristina Martling, mezzosópran við Konunglegu óperuna við
píanóundirleik eiginmanns síns, Göran Martling, tónlistarmanns við Konunglega dramatíska leikhúsið
(bróðir Lisu Martling Palmgren). Unaðslegur endir á þéttum degi fróðleiks og skemmtunar.
Laugardagur 13. júní - Drottningholm
Engin grið voru gefin um morguninn því nú mættu allir niður á Stadshuskajen til að taka gufubátinn
til Drottningholmshallar, staðarins sem fyrstur var sænskra staða til að komast á heimsminjaskrá
UNESCO. Veðrið var þokkalegt en nokkrir regndropar féllu þó af og til. Samt var bjart og stillt þegar
báturinn skreið eftir klukkustundar siglingu inn að litlu höfninni við Drottningholm og geri ég ekki
ráð fyrir að eins fögur innsigling finnist víða í veröldinni.
Þar tók á móti okkur aftur fyrrnefndur Göran Alm sem mun vera Svía fróðastur um hallir og kóngaslekti
langt aftur í aldir. Var nú förinni fyrst heitið í hið sögufræga leikhús í Drottningholm sem byggt var sem
slíkt árið 1766 að ósk Louisu Ulriku drottningu eftir
að fyrra leikhúsið, sem einnig var byggt að hennar
ósk á þessum stað 1754, brann til grunna. Leikhúsið
teiknaði arkitektinn Adelcrantz sem einnig teiknaði
Kínverska listihúsið í garði Drottningholm.
Leiðsögumaður okkar um leikhúsið, klæddur í 18.
aldar hirðbúning, var Svíi af kínverskum ættum
sem kunni afbragðsskil á leikhússögunni og sögu
staðarins. Það var undarleg tilfinning að ganga
þarna um sali, vitandi það að þarna hafði aðallinn
horft á verk Moliére og Shakespeare og þarna hafði
kóngafólk og allt helsta aðalsfólk Evrópu setið
(eða staðið!) leiksýningar í ótrúlega framsæknu og
tæknilegu leikhúsi sem enn þann dag í dag er notað
til leiksýninga og er eftirsótt sem slíkt. Ekki var frítt við að veggir og loft andvörpuðu nokkrum
leyndarmálum aðalsins að okkur ...
Næst var það svo sjálf Drottningholmshöll sem var
skoðuð undir nákvæmri og ítarlegri leiðsögn Göran
Alm. Íburður rokkóksins var hér yfirþyrmandi
en fagur, og kom undirritaðri satt að segja á óvart
hversu mikilfengleg höllin er og vafalaust ein sú
glæstasta á Norðurlöndum. En þar sem undirrituð
þrífst afskaplega illa í hópleiðsögnum (með fullri
virðingu fyrir Göran Alm) læddist hún því oft
í burtu þegar skilningarvitin hættu að taka við
fróðleiknum og ákvað með sjálfri sér að koma aftur
á eigin vegum seinna.
Um hádegisbil var síðan hádegisverður snæddur í