Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 25
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða
34. árg. - 2. tbl. 2009 2
Prjónaklúbbur í Bókasafni Kópavogs
Í Bókasafni Kópavogs er nú starfandi prjóna- og hannyrðaklúbbur.
Hann hóf göngu sína sl. vor, en starfsemin lá niðri í sumar. Nú
með haustinu var svo hafist handa á ný. Þeir sem vilja vera með
hittast í Listvangi á 3. hæð safnsins á miðvikudögum um kl.
16:30 og geta dvalið fram undir kl. 19:00. Það er enginn skráður
félagi, heldur koma þeir sem koma vilja hverju sinni og stoppa
eftir hentugleikum. Mæting hefur verið góð, en hverju sinni
koma um 10-15 þátttakendur. Þarna er hægt að fá ráðleggingar,
skoða hver hjá öðrum, spjalla saman og fá sér kaffisopa. Nóg
er af handavinnublöðum og -bókum til að líta í og fá lánað. Nýlega var fengin garnkynning frá
Garnbúðinni á Akranesi og gerði það mikla lukku. Elísa Friðjónsdóttir heldur utan um starfsemina og
hún kann ótal ráð þeim til handa sem verða strand í handavinnunni. Allir eru velkomnir í prjóna- og
hannyrðaklúbbinn og það kostar ekki neitt að vera með.
Bókasafnsbangsinn Leó
Þá er bókasafnsbangsinn 2009 kominn í hús á Akureyri. Í ár heitir hann Leó og er nokkru minni en sá
sem var í fyrra. Hann lenti nefnilega í kreppunni greyið.
Hins vegar er hann í prjónaðri peysu og með prjónahúfu á höfðinu svo ekki ætti honum að verða
kalt.
Hann kostar 2.000 krónur auk sendingarkostnaðar og þau söfn sem eru félagar í PR hópi norrænna
bókasafna http://www.prforeningen.org/id2.html fá 10% afslátt á kaupverðinu.
Bangsinn er því enn ódýrari en bók þrátt fyrir lágt gengi krónunnar og upplagt
að eiga nokkra á lager til að nota í gjafir handa gestum og fyrirlesurum eða
sem verðlaun í samkeppnum, því bangsar heilla fólk á öllum aldri, endast
mun betur en blómvöndur, auk þess að vera ódýrari en kilja.
Þeir sem vilja panta bangsa eru beðnir að fylla út eyðublaðið sem má finna
hér: http://www.prforeningen.org/id35.html
Einnig er ÚTSALA á bangsanum frá í fyrra, en hann fæst á 1.000,- stk. auk
sendingarkostnaðar svo lengi sem birgðir endast. Hann má panta á sömu
vefsíðu.
f.h. PR hóps norrænna bókasafna
Hólmkell Hreinsson
Nýtt skráningarráð Gegnis
var nýlega skipað. Þóra Sigurbjörnsdóttir er formaður. Aðrir í ráðinu eru: Anna Sveinsdóttir
Náttúrufræðistofnun, Gunnhildur Loftsdóttir Bókasafni Seltjarnarness og Sigrún J, Marelsdóttir
Landsbókasafni - Háskólabókasafni. Áheyrnarfulltrúar eru: Sigrún Hauksdóttir Landskerfi, Hildur
Gunnlaugsdóttir Landsbókasafni - Háskólabókasafni og Sveinbjörg Sveinsdóttir framkvæmdastjóri
Landskerfis.