Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 9

Fregnir - 01.10.2009, Blaðsíða 9
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða 34. árg. - 2. tbl. 2009 9 Niðurstaða Guðlaugar er sú að mjög mikilvægt sé og þarft að stofna sérstaka miðstöð lestrarhvatningar. Sú miðstöð myndi halda úti vef með lestrarhvatningu fyrir allt landið. Hún sæi um að halda úti tengslaneti, efla samband milli skóla og bókasafna, beina auknum áróðri að foreldrum og safna upplýsingum um lestrarhvatningu frá nágrannalöndunum. Helsta verkefni þessarar miðstöðvar yrði að vera áróðursmaskína. Börn þurfa að skynja að það þyki flott að lesa. Ingibjörg Baldursdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur sem vinnur á skólasafni Flataskóla í Garðabæ. Hún hefur verið í stjórn Upplýsingar og situr í stjórn Félags fagfólks á skólasöfnum. Í erindi hennar, „Lestrarkveikjum“ kom það fram að Ingibjörg telur eitt af mikilvægustu störfum bókasafnsfræðinga í skólabókasöfnum vera að vekja og viðhalda áhuga barna á lestri. Hún fjallaði um nokkrar leiðir sem farnar hafa verið í Flataskóla. Eitt það fyrsta sem hún nefndi er útlit bókanna. Bókakápan er það fyrsta sem krakkarnir reka augun í og skiptir því mjög miklu máli. Þarna geta starfsmenn bókasafna einmitt haft áhrif því innihald bóka fer ekki eftir kápunni. Leturstærð og línubil hefur einnig sitt að segja um val barna á bókum. Í Flataskóla eru lestrarstundir í flestum árgöngum. Bekkjarsafn af bókum er haft inni í bekkjunum en eldri nemendur velja sér sjálfir bækur. Að mati Ingibjargar skiptir gríðarlega miklu máli að kennarinn lesi líka eitthvað sem honum finnst skemmtilegt sjálfum. Hann sitji ekki bara við skrifborðið að vinna og fara yfir verkefni heldur lesi sjálfum sér til ánægju og yndisauka. Og sé þar fyrirmynd nemenda sinna. Einnig eru lestrarátök í 4. til 7. bekk á haustin. Þeim finnst mikilvægt að hefja veturinn á átaki til þess að komast í lesgírinn. Með þessu átaki er markmiðið ekki að lesa og lesa heldur að börnin velji sér bækur sem þau gefi sér tíma til að njóta að lesa. Eftir lestur bókanna fá þau síðan efnisspurningar sem þau svara, skrifa útdrátt um bókina og gefa einkunn. Þetta hefur gefist vel. Lestraráhugi virðist halda áfram lengi eftir að lestrarátaki er lokið. Þá er birtur listi yfir vinsælustu bækurnar sem börnin geta skoðað að átakinu loknu. Til reynslu var hafið sérstakt lestrarátak fyrir yngstu nemendurna, „Lesum saman, verum saman“, en fyrirmynd að verkefninu var fengin frá Snælandsskóla. Þar var lögð áhersla á að foreldrar gæfu sér tíma til að lesa fyrir og með barninu. Foreldrar og börn völdu bók í sameiningu og héldu svo lestrardagbók þar sem þau skráðu hugrenningar sínar og hvernig lesturinn gekk. Í lok átaksins var bókasafnið með síðdegisopnun, mynduð var notaleg kaffihúsastemning, tjaldi var slegið upp þar sem börn gátu setið á púðum og lesið við skin vasaljósa. Kennarar og bókaverðir fóru að veita því athygli að 7. bekkurinn fór allt í einu að lesa mun minna en áður. Var því farið af stað með lestrarmaraþon inni á safni. Þar var markmiðið að lesa sem mest, eina kvöldstund. Gist var á bókasafninu, allir kepptust við að lesa sem mest því von var á höfundi bókarinnar einhvern tímann síðla kvölds. Rithöfundurinn las svo fyrir þau í rökkrinu og spjallaði við krakkana. Einnig hefur verið gerð tilraun með að fá nemendur í 7. bekk til að koma inn á skólasafnið og kynna skemmtilegar bækur fyrir yngri nemendurna. Þessu hefur verið mjög vel tekið og bækurnar renna út. Að lokum sagði Ingibjörg að þegar líði að vori væri mikilvægt að fara inn í alla bekki og hvetja nemendur til að taka þátt í sumarlestri almenningsbókasafna.

x

Fregnir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fregnir
https://timarit.is/publication/283

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.