Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.01.2017, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.01.2017, Blaðsíða 17
29.1. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17 Lagasmíðar dulbúinn sálfræðitími Á þessum tíma byrjaði hún líka að semja tón- list. „Ég fékk gítar í jólagjöf árið 2010 en ég hafði aldrei spilað á gítar áður,“ segir Soffía Björg og lærði með því að notfæra sér git- argrip.is, YouTube og fleira. Hún segir þrjóskuna í sér hafa hjálpað mikið til. „Og svo um leið og ég var komin með vald á hljómaskiptingu byrjaði ég bara að semja og lögin einhvern veginn flæddu útúr mér. Þetta var geymt þarna, lokað og læst en þegar mað- ur fékk verkfæri, þetta hljóðfæri, þá opnuðust margar tjáningarleiðir. Mér fannst ekkert gaman að tala áður en þarna er hægt að setja þetta í aðra sögu, í orð sem fólk hugsaði að sneri ekki beint að mér. Í staðinn er fólk farið að hlusta á melódíur. Þetta er svolítið dulbú- inn sálfræðitími.“ Alltaf verið hestastelpa En lærðirðu á eitthvert annað hljóðfæri sem barn? „Ég lærði á píanó þegar ég var krakki, en mér fannst það mjög leiðinlegt þannig að ég hætti því og sé mikið eftir því núna. Ég get ekki sest fyrir framan píanó og spilað eftir nótum en ég get skrifað nótur. Ég lærði tón- fræði í Söngskólanum en ég fattaði hana aldrei fyrr en ég fékk gítarinn. Þá skildi ég fræðin á bak við þetta betur.“ Blaðamaður hefur heyrt að systurnar séu söngelskar og veltir fyrir sér hvort hún hafi þá mikið verið að syngja sem barn. „Nei, ekki neitt,“ svarar hún. „Við erum fimm systur og ég get sagt án þess að móðga þessa elstu að við getum fjórar sungið en hún fékk allt annað. Þetta er mjög söngelsk og músíkölsk fjöl- skylda. Það er tónlist í báðar ættir,“ segir Soffía Björg og útskýrir að hún hafi verið frekar til baka sem barn og verið að spá í aðra hluti en tónlist. „Ég fór að huga að söngnum um átján ára aldur. Ég hugsa að ef mér hefði verið ýtt út í tónlistina sem barn þá hefði ég gjörsamlega lokað á þetta. Ég hef aldrei viljað láta neyða mig í eitthvað sem ég vil ekki. Helst geri ég bara þveröfugt við það.“ Hún var meira að spá í náttúruna og dýrin þegar hún var barn. „Við vorum með kýr þeg- ar ég var lítil en ég held ég hafi verið sex ára þegar pabbi hætti með þær. En það hafa alltaf verið hestar á bænum og ég hef alltaf verið mjög mikið í kringum hesta,“ segir hún og bætir við að á tímabili hafi fátt annað komist að hjá henni og vinkonum hennar. Hún hefur prófað að keppa en segir hestamennskuna ekki hafa snúist um það hjá sér. „Ég bara naut þess að vera úti og þótti svo vænt um dýrin. Tengingin við dýrin og náttúruna skiptir mig afskaplega miklu máli. Að vera krakki þarna í sveitinni var alveg frábært,“ segir Soffía Björg sem fer ennþá á bak. Vinnur uppi á jökli Síðasta árið hefur hún unnið samhliða tónlist- arferlinum í vinnu sem sannarlega eflir teng- inguna við náttúruna. Hún er leiðsögumaður hjá Into the Glacier og fer með hópa inn í manngerðu ísgöngin í Langjökli. Bræður hennar höfðu unnið við að keyra ferðmenn í stórum fjallabílum og hvöttu hana til að sækja um starfið. Sögðu meira að segja að hún yrði alveg kjörin í það. Soffía Björg var ekki eins sannfærð. „Í fyrsta lagi hafði ég aldrei farið upp á jökul fyrir þennan tíma. Í öðru lagi þótti mér ekkert rosalega gaman að tala fyrir fram- an fólk.“ Hún segir fyrstu ferðina hafa verið stress- andi og hún muni ekkert hvað hún sagði í upp- hafi ferðarinnar. „En svo bara kom þetta. Þetta er svo magnað, ótti sem þú ert búin að byggja upp með þér í mörg ár fer á fimm mín- útum. Ég trúði þessu ekki sjálf,“ segir hún en núna finnst henni ekkert mál að fara þrjár ferðir á dag með ferðamenn, tvo tíma í senn, inn í jökul. Veislustjóri á þorrablóti „Núna finnst mér bara ágætlega gaman að tala fyrir framan fólk. Og núna síðustu helgi gerði ég eitt sem ég bjóst aldrei við að gera. Ég var veislustjóri á þorrablóti í sveitinni, í mínum hreppi. Þetta er lítið blót, við erum um 90 manns. Þetta gekk bara vel,“ segir hún. „Það hefur verið takmark hjá mér síðasta árið að vera alltaf að víkka þennan kassa sem maður er í. Maður gleymir svo oft að horfa á stóra samhengið. Maður hefur bara ákveðinn tíma hér og ég nenni ekki að eyða honum í að vera ekki að njóta mín heldur vil taka mér pláss og hafa gaman. Ég er að vinna í því þessa dagana, njóta lífsins og prófa allskonar.“ Hvað hefur það gefið þér að vera komin aft- ur með bækistöðvar í Einarsnesi? „Það hefur gefið mér hellings músík, heila plötu. Ég sem flesta mína tónlist þar. Þar er líka friður, þó þetta sé stórt heimili. Ég er oft með þessa setningu í huganum: „Ég þarf út- sýni til að anda.“ Ef mér finnst ég vera inni- lokuð í einhverjum aðstæðum langar mig bara að sleppa úr þeim aðstæðum, ég verð eins og króað dýr í búri, ég vil ekki þá tilfinningu. Þess vegna vinn ég líka uppi á jökli. Þar ertu með þvílíkt útsýni þegar veðrið er gott. Ég mæli með þessu fyrir alla. Að prófa eitthvað nýtt, sæktu um vinnu sem þér hefði aldrei dottið í hug að þú myndir vinna,“ segir Soffía sem sækir kraft í náttúruna. „Náttúran gefur mér ró og hún gefur mér aukinn kraft. Ég er rólynd manneskja. Þegar ég var í Reykjavík að vinna var margt í gangi og margt sem tosaði í mann en mig vantaði þessa tengingu. Athygli mín var mikið á víð og dreif. Óstöðugleikinn var mikill og leigan ótrygg; ég man ekki hvað ég bjó á mörgum stöðum. Maður fékk ekki að halda heimilinu sínu. Það er afskaplega leiðinlegt og fyrir utan það var leigan há. Ég gafst upp á því öllu og ákvað að flytja heim,“ segir Soffía Björg sem hugsaði með sér hvort þetta væri ósigur og þýddi að hún væri búin að gefast upp. „En svo þegar ég var búin að vera hérna í einhvern tíma velti ég fyrir mér hvað ég hefði verið að pæla. Þetta er besti staðurinn til að vera á,“ segir Soffía Björg sem er búin að koma sér vel fyrir í Einarsnesi. Með athvarf í sólskála „Ég er með vinnu- og æfingaaðstöðu inni í sól- stofu. Þetta er sólskáli sem var smíðaður fyrir mömmu mína og allar hennar plöntur og jurt- ir. Svo gerðu mamma og pabbi garðskála úti svo hún er flutt með sína starfsemi þangað. Ég er með alla magnarana mína þarna inni, bæk- urnar mínar og tölvuna,“ segir hún en bræður hennar Þórarinn og Guðmundur eru búnir að stofna hljómsveit og leggja undir sig bílskúr- inn fyrir æfingar. Pabbi hennar er líka farinn að semja tónlist og átti lag sem komst í úrslit jólalagakeppni Rásar 2 fyrir síðustu jól, sem Kristín Birna systir hennar söng. „Karítas yngsta systir mín er plötusnúður, hún spilar á öllum knæpum bæjarins og geng- ur vel. Hún er líka með fantagóða rödd. Sigríð- ur systir er myndlistarkona en hún er líka með rosalega fína rödd,“ segir hún en það ætti því ekki að koma á óvart að hún hafi fengið systur sínar til liðs við sig einum tónleikum. Systkin- in héldu ennfremur jólatónleika saman í Borgarneskirkju árið 2015 til að gefa eitthvað til bæjarfélagsins og sveitarinnar og „til að lyfta upp stemningunni í skammdeginu“. Soffía Björg kann vel við að spila í kirkju, segir þetta vera rými sem henni líði vel í. Hún spilaði í kirkju nýverið á tónlistarhátíðinni Eurosonic í Hollandi og hefur líka spilað í mörgum kirkjum í hljómsveitinni sem hún var áður í, Brother Grass. Sólstofan er björt og hentar Soffíu Björgu vel. „Ég er með æðislegt útsýni, útsýni yfir Hvítána og yfir víkina heima, Hafnarfjallið, Skessuhornið og svo sé ég Borgarnesið,“ segir hún og bætir við að vinkonur hennar fái dræmar undirtektir við spurningunni: „Hve- nær ætlarðu svo að flytja aftur í bæinn?“ Eftir að platan kemur út tekur spila- mennskan við. „Það er ekki búið að auglýsa neitt þannig að ég get ekki gefið það upp en það eru nokkur festivöl bókuð, bæði hérlendis og erlendis. Stefnan er að spila víða og kynna þessa plötu. Mig langar að fá túrareynslu og prófa allskonar. Það er ekki takmark hjá mér að spila á einhverjum ákveðnum stað, heldur að fá að vinna við þetta, eitthvað sem maður hefur ástríðu fyrir. Ég ætla mér bara að gera það.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg ’Ég fór að huga að söngnumum átján ára aldur. Ég hugsaað ef mér hefði verið ýtt út í tónlistina sem barn þá hefði ég gjörsamlega lokað á þetta. Ég hef aldrei viljað láta neyða mig í eitthvað sem ég vil ekki. Helst geri ég bara þveröfugt við það.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.