Morgunblaðið - 31.05.2017, Page 30
30 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. MAÍ 2017
SVIÐSLJÓS
Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Þess var minnst í flugsafninu í
Seattle í Bandaríkjunum nú í vor að
9. apríl voru 50 ár frá fyrsta flugi Bo-
eing 737-þotunnar, sem segja má að
hafi verið og sé enn einn þarfasti
þjónn seinni tíma flugsamganga.
Frumgerð þotunnar er þar varðveitt.
Boeing brúkaði hana sem tilraunavél
til ársins 1973 en seldi hana svo
bandarísku geimferðastofnuninni
NASA. Breytti hún þotunni í fljúg-
andi tilraunastöð til frekari flug-
rannsókna. Snerust þær m.a. um ör-
yggi, skilvirkni og afköst. Um borð í
henni voru margar hugmyndir og
tækninýjungar til flugs prófaðar við
raunverulegar aðstæður. Má því
segja að þotan hafi verið mikill frum-
kvöðull í flugsamgöngum.
Síðasta tilraunaflug NASA átti sér
stað 27. júní 1997 og ákvað stofnunin
þá að gefa flugsafninu í Seattle þot-
una. Áfram var hún þó í flugskýli í
Moses Lake í Washington-ríki næstu
fjögur árin. Flugvélasmiðir á eft-
irlaunum sem starfað höfðu við smíði
737-flugvélanna hjá Boeing vörðu
þar frítíma sínum í að klassa hana
upp. Var henni loks flogið til
Boeing-vallar og afhent flugsafninu
haustið 2001. Er hún eitt helsta stáss
safnsins. Í heild var henni flogið í um
4.000 stundir, sem telst lítið því al-
gengt er að farþegaþotum sé flogið í
60-65 þúsund stundir áður en þær
eru teknar úr umferð.
Frumgerð Boeing 737-þotunnar
var ýtt út úr smiðju í september 1966
og í nokkra daga fyrir fyrsta flugið
var hún prófuð á flugbrautinni löngu
við Boeing-verksmiðjurnar í Eve-
rett. Eftir háhraðabrun á brautunum
daginn áður var allt klárt til fyrsta
flugs sunnudaginn 9. apríl 1967.
Vildi ekki lenda
Í jómfrúarfluginu frá Boeing Field
í Seattle voru flugmenn þeir Brien
Wygle og Lew Wallick. Voru þeir á
lofti í hálfa þriðju klukkustund áður
en þotunni var lent á Paine Field í
Everett í Washington-ríki. „Ég þoli
ekki að þurfa að hætta . . . þessi flug-
vél er dásemd að fljúga,“ sagði
Wygle flugstjóri í talstöðina er hann
bjó sig undir að ljúka fyrsta fluginu.
Þegar Boeing tilkynnti áform sín
um smíði 737-þotunnar hljóðuðu þau
upp á smíði 50-60 sæta þotu til brúks
á styttri flugleiðum. Framleiddi fyr-
irtækið þá þegar tvær fjölhreyfla
þotur, hina fjögurra hreyfla 707-þotu
og þriggja hreyfla 727-þotu. Sú síð-
arnefnda var fyrsta þotan sem Ís-
lendingar eignuðust. Flugfélag Ís-
lands keypti og rak slíkar flugvélar,
fékk þá fyrstu afhenta 23. júní 1967.
Í samanburði við fyrri þotur var 737-
flugvélin dvergur og því uppnefnd
„Baby Boeing“. Hún átti að bæta
hinar tvær upp á flugvélamarkaði.
Teygðu á skrokknum
Dvergurinn stækkaði þó óðum.
Þýska flugfélagið Lufthansa var
fyrsta félagið til að panta flugvélina
og óskaði eftir því að hún yrði lengd
svo hún gæti borið 100 farþega. Í
kjölfarið sigldi bandaríska flug-
félagið United, pantaði 40 eintök en
vildi stækka vélina enn frekar. Ein-
um metra var bætt við búkinn og þar
með var orðið til módelið 737-200.
Aðeins þrjátíu eintök af 737-100
flugvélinni voru afhent flugfélögum.
Fékk Lufthansa það fyrsta 28. des-
ember 1967 en daginn eftir tók Unit-
ed við fyrstu 737-200 þotunni. Fór sú
fyrrnefnda í fyrsta farþegaflug sitt
10. febrúar 1968. Af 17 frumkaup-
endum þotunnar eru aðeins tveir
starfandi enn, Lufthansa og United.
Fyrrnefnda félagið lagði sinni síð-
ustu Boeing 737-þotu 31. október
2016.
Helstu notendur Boeing 737 í dag
eru bandarísku flugfélögin South-
west Airlines, United Airlines og
American Airlines. Í Evrópu ber
Ryanair höfuð og herðar yfir önnur
félög hvað fjölda flugvéla varðar.
Fyrstnefnda félagið, Southwest, er
til dæmis með rúmlega 700 Boeing
737 í þjónustu sinni. Flugleiðir áttu
og ráku á sínum tíma átta eintök af
flugvélinni, af módelunum 737-300
og 737-400, á árabilinu 1989 til 2004.
Þegar Boeing afhendir á næstunni
fyrstu eintökin af nýjustu útgáfu
flugvélarinnar, MAX-8, verða liðin
rúmlega 50 ár frá því raðsmíði 737-
flugvélanna hófst. Engin flugvél sem
notuð hefur verið í atvinnuskyni hef-
ur verið eins lengi í framleiðslu og
borið jafn góðan árangur.
Alls hefur Boeing smíðað rúmlega
níu þúsund 737-þotur á þessum 50
árum, eða 30 af 100-gerðinni, 1.114 af
200-gerðinni, 1.113 af 300-gerðinni,
486 af 400-afbrigðinu, 389 af 500-
gerðinni, 69 af 600-gerðinni, 1.156 af
700-gerðinni 4.469 af 800-tegundinni
og loks 475 af 900-módelinu.
Þessu til viðbótar voru 3.703 þotur
í pöntun af MAX-gerðunum 31. mars
síðastliðinn. Er því ljóst að 737-
tegundarmerkið á eftir að lifa lengi
enn. Hafa nú verið smíðaðar fleiri
737-þotur en Douglas DC-3 flug-
vélar, sem var mest framleidda flug-
vél heims þar til Boeing 737 tók fram
úr.
Boeing varð hundrað ára í júlí í
fyrra og flaggskipið 737 kom fyrst
fyrir sjónir almennings í janúar
1967. Afköst við smíði þess hafa ekki
verið í takt við eftirspurn eftir þot-
unni. Helsta orsökin er sú að upp-
færslur vegna 737 MAX og 737 Next
Generation hafa tafið fyrir en nú sér
fyrir endann á því, þar sem Boeing
hefur ákveðið að auka framleiðslu-
afköstin og smíða 47 eintök á mánuði
í ár og 52 stykki 737-þotur á mánuði
frá og með 2018. Það gera um 620
eintök á ári, en engin flugvél hefur
verið smíðuð í svo miklu magni á ári.
Veitir ekki af, því að Boeing hefur nú
á pöntunarbókum sínum á fimmta
þúsund ósmíðaðra 737-flugvéla.
Um 14.000 vélar hafa selst
Boeing 737-þotufjölskyldan hefur
reynst hagkvæm og traust. Alls hafa
266 flugfélög og fyrirtæki keypt á
fjórtánda þúsund eintaka af þot-
unum frá upphafi. Til samanburðar
framleiddi McDonnell Douglas sam-
tals 2.438 flugvélar af gerðinni DC-9
og arftökum hennar á fjörutíu árum.
Ásamt Douglas voru British Aircraft
Corporation (BAC 111) og Fokker
(F28) á undan Boeing með þotur fyr-
ir stuttar flugleiðir. Var það ein
ástæða þess að efast var um framtíð
737 innan Boeing. Hvor framleiðandi
um sig afhenti þó aðeins um 40 þot-
ur.
Vera má að A320-þotufjölskylda
Airbus eigi eftir að taka fram úr 737-
þotunni en einhver bið verður á því,
þar sem stöðugt er unnið að því að
bæta hana svo hún haldi velli. Segir
Boeing til dæmis að nýjustu módelin
eins og 737 MAX bjóði upp á spar-
neytnari hreyfla, lofthreyfifræði
hennar sé skilvirkari og rýmra sé um
farþega í henni. Þá taki ýmis tækni-
búnaður hennar öllu öðru fram sem
áður hefur sést í flugvélinni.
Íhuguðu oft að hætta smíðinni
Þrátt fyrir velgengnina var oft
óvissa um framtíð 737-þotunnar. Að
minnsta kosti einu sinni á áratug
íhuguðu stjórnendur Boeing og
hætta framleiðslunni. En hún lifði af.
Hristi ekki bara af sér sveiflur á
markaði, heldur villtar sviptingar á
vinsældum hennar innan stjórnar
Boeing. Aðeins þremur mánuðum
eftir að verkfræðingar Boeing
kynntu hugmyndir sínar að 737-
þotunni innan stjórnar fyrirtækisins
skoðaði hún alvarlega að falla frá
smíðinni vegna þróunarkostnaðar,
sem áætlaður var 150 milljónir doll-
ara.
Þegar ákveða þurfti svo hvort
smíðinni yrði hleypt af stokkum var
Lufthansa enn hikandi um kaup á
flugvélinni og aðeins United líklegt
til kaupa hana til lengri tíma.
Stjórnarformaðurinn Bill Allen hafði
nær engan áhuga á þotunni. Sam-
þykkti stjórnin þó að lokum rök-
semdir yfirverkfræðingsins Ed
Wells, sem spáði því m.a. að ákvörð-
un um að smíða þotuna myndi leiða
til pöntunar frá United.
Út í óvissu
„Fyrir hálfri öld rerum við út í
óvissuna, vonuðum að nógu margar
flugvélar seldust til að verkefnið
kæmi í það minnsta út á sléttu,“
sagði Wygle tilraunaflugstjóri þegar
50 ára afmælis 737-þotunnar var
minnst í Seattle 9. apríl. Hann var og
aðstoðarflugmaður í fyrsta flugi 747-
þotunnar. Langlífi 737-þotunnar
þykir undravert. „Hún tók flugheim-
inn með áhlaupi í byrjun og hefur
verið betrumbætt allar götur síðan.
Hún mætti mikilli þörf,“ sagði
Wygle.
Yfirverkfræðingurinn Bob Bogash
sagði 737-þotuna hafa valdið þátta-
skilum í farþegaflugi. Þotur hefðu
allt í einu farið að fljúga inn á litla
flugvelli út um allan heim. „Þeim var
flogið til afskekktra staða, til dæmis
af malarbrautum í norðanverðu Kan-
ada. Mörg flugfélaganna höfðu aldr-
ei áður eignast spánnýjar flugvélar
áður og höfðu ekki átt þotur,“ sagði
hann við athöfnina.
737-þotan bylti flugsamgöngum
innan Bandaríkjanna og gerði
skyndilega margfalt fleirum kleift að
fljúga en áður. Eftir lendingu var
hún fljótt klár til næstu ferðar og
möguleikinn á að athafna sig á litlum
flugvöllum réði úrslitum.
Sú allra nýjasta 737 MAX-8 er nýjasta útgáfa 737-þotunnar og tekur öllum fyrri útgáfum fram
að skilvirkni, tækni og hljóðbærni. Hér er ein slík í flugtaki frá flugvelli Boeing í Renton.
Sú fyrsta Myndin er tekin í flugvélasmiðju Boeing í Seattle árið 1966 þar sem fyrsta Boeing
737-þotan var að fá á sig mynd. Um 266 flugfélög hafa keypt um 14.000 eintök af þotunum.
Fimmtugur frumkvöðull flýgur
enn hátt og víða um háloftin
Engin flugvél hefur verið smíðuð jafn oft og Boeing-737 Hefur hrist af sér sveiflur og sviptingar
Fyrsta flug Boeing 737-100 9. apríl 1967 flugu Brien Wygle og Lew Wallick henni í hálfa þriðju klukkustund frá
Boeing Field í Seattle áður en þeir lentu henni skammt frá á Paine Field-flugvellinum í Everett. Hún var hönnuð til
að bæta upp stærri þoturnar, 727 og 707. Fyrsta 737-100 þotan var afhent þýska flugfélaginu Lufthansa 28. desem-
ber 1967 og hóf hún farþegaflug 10. febrúar 1968. Bandaríska flugfélagið United fylgdi fast í kjölfarið.
Íslenskar Icelandair hefur pantað 16 þotur af gerðunum Boeing 737 MAX-8
og MAX-9. Svona sjá teiknarar Boeing þær í einkennislitum flugfélagsins.