Víkurfréttir


Víkurfréttir - 04.05.2017, Blaðsíða 18

Víkurfréttir - 04.05.2017, Blaðsíða 18
18 fimmtudagur 4. maí 2017VÍKURFRÉTTIR Skólamaðurinn Hjálmar Árnason fer fyrir Keili. Hann hefur starfað hjá Keili frá upphafi, reyndar degi tvö, en Runólfur Ágústsson, sem leiddi Keili fyrstu skrefin réði Hjálmar til skólans. Þegar Runólfur hætti og snéri sér að öðrum verkefnum þá tók Hjálmar við keflinu. Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, settist niður með Hjálmari í skólahúsi Keilis á Ásbrú. Fyrsta spurningin var ekki lítil. Hvað hefur gerst á þessum tíu árum frá stofnun Keilis. „Þegar stórt er spurt. Þessi 10 ár hafa verið alveg ótrúlega fljót að líða. Okkur finnst við bara vera nýbyrjuð en samt hefur alveg ótrúlega margt gerst, finnst okkur. Sem að ef til vill sést af því að Keilir er svona að velta um það bil einum milljarði og hér koma svona um 150 hausar að vinnunni með einum eða öðrum hætti, auðvitað ekkert allir í fullri vinnu. Bara erlendir flugnemendur okkar, sem koma hingað og dvelja í svona tvö ár, þeir eru að færa inn í samfélagið hér á Suðurnesjum kannski svona hálfan milljarð á ári. Ekkert allt til okkar, þeir eru að leigja húsnæði og bíla, þeir borða, þeir djamma og svo framvegis. Það sem kannski skiptir mestu máli, það eru tæplega 3000 nemendur sem við erum búin að útskrifa á þessum 10 árum og það er svona það sem við erum virkilega ánægð með og eiginlega bara stolt af. Börnin okkar sem við erum virkilega stolt af og við reynum að fylgjast með þeim og erum afar glöð að sjá hvernig ungunum hefur vegnað þegar þeir fljúga úr Keilishreiðrinu.“ Þetta er svona bland í poka ef fæ að nota það orð yfir skólasamfélagið hjá ykkur. Þið eruð að sinna mjög mörgu. „Já og til þess var nú leikurinn gerður. Annars vegar að hækka menntastigið á Suðurnesjum, við munum hvernig ástandið var hér fyrir 10 árum, þegar Kaninn fór. En líka til að efla tengslin við atvinnulífið og það er svona uppleggið og við erum ennþá á vaktinni að leita að nýjum tækifærum. Við erum öðruvísi heldur en líklega allir aðrir skólar, við erum hvorki né. Við erum bæði framhaldsskóli en við erum líka með námsbrautir hér á háskólastigi. Hér er hægt að læra til BS gráðu í tæknifræði og atvinnulífið æpir á tæknimenntað fólk. Það er hægt að nefna hér frábæra aðstöðu, frábæra kennara og þau verkefni sem hafa komið frá tæknifræðinemendum okkar. Þau eru náttúrulega alveg stórkostleg. Þau hafa leitt til stofnana fyrirtækja. Við sjáum bara Fidu, með GeoSilica og það eru margar Fidurnar, getum við sagt. Nú, við höfum lagt upp með það módel að við leitum eftir samstarfi við þá sem eru bestir á hverju sviði. Ævintýraleiðsögnin, þar keyrum við á leyfi frá Thompson River University í Kanada, sem er fremsti háskóli heima á því sviði. Flugvirkjanámið, það byggir á leyfi frá AST, sem er elsti flugvirkjaskóli í Evrópu og þannig má áfram telja. Nýjasta afurðin er líklega fótaaðgerðaskólinn, sá eini á landinu. Honum var lokað og við bara keyptum hann og fluttum hann hingað. Núna er hann kominn af stað. Þannig höfum við stöðugt verið og erum á verði yfir því hvar tækifærin eru til þess að mennta fólk.“ En hefur Háskólabrúin verið stærsta verkefnið? „Við byrjuðum með hana og af þessum 3000 nemendum okkar þá er um það bil helmingurinn sem er útskrifaður af Háskólabrú, um 1500 nemendur sem eru útskrifaðir núna af Háskólabrú og um 85% þeirra fer síðan í frekara nám. Það sést kannski á tölum hvaða áhrif það hefur haft. Okkur var upplagt í byrjun að reyna að hækka menntastigið á Suðurnesjum. Í byrjun árs 2007 voru 12,9% 25 ára og eldri íbúar Reykjanesbæjar með háskólamenntun. Landsmeðaltalið var þá 28%, þannig við vorum langt undir því. Í dag, 10 árum síðar, eru 28% íbúa Reykjanesbæjar, 25 ára og eldri með háskólamenntun. Auðvitað eru fleiri en við sem að því koma en ég er alveg viss um það að skólasamfélagið hér á Ásbrú á sinn þátt í því. Það er bara mjög ánægjulegt því við trúum því að menntun sé ákveðin leið til uppbyggingar á góðu samfélagi.“ Þessi brú, hverjir eru að sækja hana? Er það ungt fólk eða er þetta jafnvel stálpað fólk sem hrökklaðist úr námi og er að fara í gang aftur? „Meðalaldurinn hefur verið svona nálægt 30 árum. Elsti nemandinn er tæplega sjötugur. Þetta er fólk sem hefur, af ýmsum ástæðum, hætt í framhaldsskóla. Ekki fundið sig, farið í vinnu, stofnað fjölskyldu eða hvað sem er. En hefur alið með sér þennan draum að geta farið í frekara nám. Þau koma hingað og þurfa að vera búin með eitthvað í framhaldsskóla en klára á einu ári ef þau eru í fullu námi hérna.“ Komast þá inn í háskólanám? „Eftir það komast þau inn í háskólanám og hefur gengið þar mjög vel. Við höfum fylgst með þeim, meira að segja fyrstu nemendur okkar af háskólabrúnni eru sumir komnir með doktorsgráður. Sumir þeirra eru komnir í starfsliðið hjá okkur og plumma sig vel. Útskrift er alltaf mjög skemmtileg og ég hef náttúrulega verið viðstaddur margar útskriftir sem gamall skólameistari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en tilfinningarnar við útskrift af háskólabrú eru sterkari en eiginlega orð fá lýst. Það er svo mikil gleði, það er svo mikil saga á bak við hvern, það eru svo miklir sigrar og það er nú það sem gerir þetta starf ótrúlega skemmtilegt. Þetta er svona að vinna svona með fólki, gefa fólki tækifæri og gleðjast með fólki.“ Hér er fólk að læra til atvinnuflugs? „Við lögðum upp með það að flug, sem er orðinn gríðarlega stór partur af okkar atvinnulífi, en hefur ekki verið hluti af skólakerfinu, jafn fáránlegt og það er, og það er kannski ein ástæðan fyrir því að það eru svo margir sem gefast upp í framhaldsskóla. Hann er svo þröngur og miðar bara svona við lækni, lögfræðing og prest í raun og veru. Við vildum búa til svona eina regnhlíf, flugakademíu, yfir flugið og höfum boðið hér upp á nám, bara allt sem snertir flugið. Flugvirkjar, flugfreyjur, flugrekstrarfræði, flugmenn og svo framvegis. Við byrjuðum smátt. Við eigum núna tíu flugvélar. Við eigum þegar einn flughermi og flughermir númer tvö er á leiðinni til landsins og stærri plön í viðræðum við ónefnd flugfélög eru á döfinni. Þannig að Flugakademía Keilis er að láta vel til sín taka. Hún er til dæmis næst stærsti flugskóli í Danmörku og það byggir á því að það er svo mikið af dönskum og sænskum flugnemendum sem koma. Markaðsstjórar okkar þar eru fyrrverandi nemendur okkar. Þeir eru núna flugmenn, annar hjá RyanAir og hinn hjá SAS. Þeir eru að markaðssetja okkur á Norðurlöndunum og með svona líka flottum árangri. En við erum alltaf að leita að nýjum tækifærum. Við erum komin með leyfi fyrir stúdentsbrautum og við trúum því að við munum fara af stað, hugsanlega næsta haust, með stúdentsbrautir fyrir 16 ára og eldri. En öðruvísi stúdentsbrautir heldur en allir aðrir hafa verið að gera. Það sem við erum að leggja áherslu á, náttúrulega við erum að nota okkur vendinámið, við höfum verið leiðandi í að innleiða hér nýja kennsluhætti, svokallað flipp eða vendinám. Við höfum haldið hér tvær alþjóðlegar ráðstefnur. Yfir 1000 íslenskir kennarar eru búnir að koma til okkar og svo framvegis og við ætlum að nýta okkur þá reynslu. Við ætlum bara að byrja klukkan níu á morgnanna en valið á þessum brautum, við erum að svara kalli atvinnulífsins eftir fólki í leikjagerðarbransanum, eins og CCP og svo framvegis. Á þessum stúdentsbrautum erum við að vinna náið með CCP, forstjóri CCP verður í fagráði okkar á þessari nýju stúdentsbraut og samtök leikjagerðarfyrirtækja, þau styðja okkur „full force“ í þessu. Við höldum að þetta muni höfða mjög til ungs fólks. Við ætlum ekki að kenna sex, sjö greinar á dag, heldur eina, tvær, taka þetta í lotum og vera sem sagt allt öðruvísi. Reyna að ýta undir skapandi hugsun og svara kalli atvinnulífs og unga fólksins. Það er bara það sem er hlutverk Keilis. Við erum að þjóna líka fyrirtækjunum. Við erum að hjálpa stærri fyrirtækjum á landsvísu með endurmenntunarnámskeið og byggjum það á þessari fjarnámskennslu sem við höfum verið með og svo framvegis.“ Gamla fyrirlestra- kerfið er dautt Útskýrðu fyrir mér í stuttu máli vendinámið. „Vendinámið er bara einfaldlega þannig að í stað þess að kennarinn mali og sé sá virki í tímanum og svæfi nemendur, sem að gerist, maður þekkir það bara á eigin skinni, ég er farinn að dotta eftir tíu mínútur, þá tekur kennarinn efnið upp og heimavinna nemandans er að hlusta á kennarann, hvort sem það er Power Point eða MENNTUN ER ÁKVEÐIN LEIÐ TIL UPPBYGGINGAR Á GÓÐU SAMFÉLAGI H H H H H KEILIR 10 ÁRA Í DAG H H H H H HJÁLMAR ÁRNASON FRAMKVÆMDASTJÓRI KEILIS Í VIÐTALI Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Námið í Keili skiptist í fjögur sérhæfð meginsvið, en innan hvers sviðs er fjölbreytt námsframboð. Sviðin fjögur eru Háskólabrú, sem miðar að því að undirbúa nemendur fyrir háskólanám, Flugakademía, sem býður upp á ýmis konar flugtengt nám, Íþróttaakademía, sem veitir ÍAK þjálfararéttindi og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku, og tæknifræði, sem skiptist í iðntæknifræði og mekatróník hátæknifræði. Keilir var stofnaður á þessum degi, 4. maí, árið 2007 og hefur aðsetur á Ásbrú í Reykjanesbæ á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins. Frá upphafi hefur skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir er hlutafélag og eru meðal eigenda Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, orku- og fjármálafyrirtæki, sveitarfélög, almenningssamtök, flugfélag og verkalýðsfélög. Hjá Keili er mikið lagt upp úr nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum, bæði í fjarnámi og staðnámi. Einnig að nemendum sé skapað traust og gott námsumhverfi. FRÁ FYRSTU SKÓLASETNINU KEILIS FYRIR TÆPUM ÁRATUG SÍÐAN.

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.