Feykir


Feykir - 29.11.2012, Blaðsíða 17

Feykir - 29.11.2012, Blaðsíða 17
2012 1 7 taka 4. stig á klassískan gítar, þegar ég var 14 ára. Eftir það þurfti ég að fara suður til Reykjavíkur til að halda áfram og fór í einkakennslu hjá Páli Eyjólfssyni hjá Tónskóla Sigursveins og lauk þar við 5. stigið,“ segir Ásgeir. Aðspurður um hvernig það hafi gengið fyrir sig svarar hann að auðvitað hafi þetta verið mikið mál fyrir foreldra hans að keyra honum til Reykjavíkur þetta árið en þeim hafi verið mikið í mun um að styðja við hann í tónlistinni. „Árið eftir tók ég 6. og 7. stigið en þá var ég fluttur til Reykjavíkur í framhaldsskóla,“ útskýrir hann. Ásgeir segir það vera hollt fyrir alla krakka að fá hljóðfæri upp í hendurnar og æfa sig. „Ég finn það bæði útfrá minni reynslu og þegar ég hef verið að kenna litlum krökkum að það er gott fyrir þá að venjast hljóðfærunum, þá eru þeir fljótari að ná þessu ef þeir fara aftur í þetta síðar. Krakkarnir hafa kannski mismikla þolin- mæði og einbeitingu í fyrstu en þegar áhuginn kemur síðar, sem hann gerir pottþétt, þá hafa þau grunninn og geta byggt á því. Þess vegna tel ég hollt fyrir krakka að byrja sem fyrst,“ segir Ásgeir. Samið lög frá 10 ára aldri Ásgeir lýsir tímabilinu frá því að tónlistarframi hans fór á flug fram til þessa sem rosalega skrítnu tímabili, enda hefur allt gengið mjög hratt og vel fyrir sig. „Þetta hefur verið rosalega skrítið allt saman. Ég veit ekki hvort ég sé með einhverja brenglaða mynd af þessu, að geta farið inn í tónlistarheim og farið beint upp án þess að hafa í raun nokkuð fyrir því, ekkert ströggl og vesen. Ég veit ekki hvort það sé galli að maður sé góðu vanur,“ segir Ásgeir brosandi. Hann bætir við að þetta hefði ekki gengið svona vel nema vegna þess að hann er með gott fólk í kringum sig og nefnir þá helst umboðsmenn sína, hjónin Maríu Rut Reynisdóttur og Guðmund Kristinn Jónsson, eða Kidda eins og hann er oftast kallaður. Þess má geta að Kiddi er í hljómsveitinni Hjálmum, ásamt Þorsteini bróður Ásgeirs, og er upptökustjóri í Hljóðrita. Ásgeir segir atburðarrásina hafa farið af stað á fullkomn- um tíma, eins og það hefði verið skipulagt að tónlistin myndi taka við. „Ég var akkúrat að klára skólann í vor, þar sem ég útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, og gat því gefið mér tíma í þetta og einbeitt mér að tónlistinni,“ segir Ásgeir. „Ég hafði aldrei séð fyrir mér að ég myndi gefa eitthvað út þar sem ég væri í aðalhlutverki, mér bara datt það aldrei í hug, hvað þá heila plötu,“ útskýrir hann og rifjar upp þegar hann sendi Kidda nokkur demo sem Ásgeir hafði tekið upp heima hjá sér. „Ég sendi honum nokkur lög sem ég hafði samið á einhverri bull ensku en textinn var bara svona til að prófa lögin,“ útskýrir hann. Kidda líkaði það sem hann heyrði og daginn eftir hringdi hann í Ásgeir og bauð honum að koma og taka upp í stúdíói. Ásgeir fékk pabba sinn, íslenskukennarann og hagyrðinginn, til að að semja texta við lag sem Ásgeir hafði samið og úr varð Sumargestur, sem varð fyrsti smellurinn hans Ásgeirs Trausta. „Ég spilaði lagið í sjónvarpsþættinum Hljóm- skálanum en Kiddi er einn af stjórnendum þáttarins, eftir það fór þetta að rúlla,“ segir hann. Sumargestur fór í útvarpsspilun fljótlega eftir að Ásgeir kom fram í Hljómskálanum og þá tóku þeir upp fleiri lög. „Þetta vatt eiginlega bara upp á sig og áður en ég vissi af var ég farinn að vinna plötu,“ segir hann með bros á vör. Ásgeir samdi öll lögin á plötunni sjálfur, en platan hlaut nafnið Dýrð í dauðaþögn. „Ég átti lögin en við fengum pabba og félaga minn, Júlíus Róbertsson, til að semja textana. Pabbi samdi texta við sex lög en Júlíus fjögur,“ segir hann. Júlíus er frá Reykjum í Hrútafirði og hafa þeir Ásgeir þekkst til fjölda ára. „Hann er eldri bróðir besta vinar míns frá Reykjaskóla. Við þrír vorum oft að spila saman og í seinni tíð höfum við Júlíus verið að spila sífellt meira saman. Ég vissi að hann væri mikið í textasmíð og þess vegna fannst mér liggja vel við að fá hann til þess að semja texta fyrir plötuna. Hann þekkir öll lögin mín, við hugsum eins og þekkjum hvorn annan vel,“ útskýrir Ásgeir en Júlíus leikur einnig með bandinu hans Ásgeirs Trausta. Aðspurður um áhrifavalda í tónsmíðinni er fátt um svör. „Ég hef verið að semja lög frá 10 ára aldri og í stað þess að stúdera tónlist þá hef ég frekar lagt áherslu á að skapa hana,“ segir hann og heldur áfram: „Það eru áhrifavaldar í öllu, allstaðar í umhverfinu,“ segir Ásgeir. Þá segir hann t.d. að einhver hafi haft orð á því við sig að hann heyrði greinileg áhrif frá kirkjutónlist. „Ég get alveg verið sammála því að vissu marki. Ég gæti hafa orðið fyrir áhrifum þegar mamma var að æfa á píanóið heima en það hefur alls ekki verið meðvitað,“ segir Ásgeir með semingi. En verður þú stressaður þegar þú stígur á svið? „Ég verð alltaf stressaður, bara misstressaður. Ég hef orðið sérstaklega stressaður í seinni tíð þegar ég var að flytja flókin verk á klassískan gítar. Ég hef verið í hljómsveitum að öskra eitthvað en fannst það ekkert mikið mál, en varð stressaðri þegar ég var að flytja eitthvað meira alvöru,“ segir Ásgeir. Hann segist líka hafa verið stressaður þegar allt var að fara í gang í vor en svo segist hann hafa vanist því smá saman. Þegar Ásgeir er inntur eftir einhverjum eftirminnilegum stundum frá því að hjól tónlistarinnar fóru að snúast segir hann frá því þegar hann og Júlíus voru á leið austur á Skriðuklaustur til þess að halda tónleika. „Við vorum búnir að fljúga austur á Egilsstaði og keyra þaðan á Skriðuklaustur. Og ég sem gleymi alltaf einhverju þurfti bara að muna eftir þremur hlutum; gítarnum, capo á gítarinn og snúru, en þegar við komum á staðinn áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt capoinu og snúrunni. Það var rosalegt, við sem vorum búnir að hafa mikið fyrir því að koma okkur þangað, héldum að við þurftum að hætta við þetta allt saman. Þá kom í ljós að sá sem við ætluðum að spila hjá var hljóðmaður og átti allt sem til þurfti og rúmlega það, þannig að þetta reddaðist allt saman,“ segir Ásgeir og hlær. Spilar útspil fyrir mömmu sína Ásgeir segir margt vera fram- undan hjá sér og ýmislegt vera í vinnslu, t.d. er bandaríski tónlistarmaðurinn og Íslands- vinurinn John Grant að snúa lögum Ásgeirs Trausta yfir á ensku. „Það stóð alltaf til að þýða textana yfir á ensku. Steini bróðir þekkir John, sem er orðinn mjög seigur í íslensku, og stakk upp á því að við myndum tala við hann. Við tökum það kannski upp þegar hann er búinn,“ segir Ásgeir. „Nokkur gigg eru líka framundan, t.d. spilum við í Háskólabíói með Moses Hightower þann 14. desember, á Kátt í höllinni þann 19. desember og Eurosonic í Hollandi í janúar,“ bætir hann við. „Annars verð ég áfram að kenna hér og held því áfram allavega fram á vor en ég fer í jólafrí 10. desember.“ Jólunum ætlar hann að eyða í faðmi fjölskyldunnar heima á Laugarbakka en aðfangadag segir Ásgeir vera annatíma hjá mömmu hans, Pálínu, sem er organisti bæði í Melstaðakirkju og Hvammstangakirkju. „Hún þarf að spila í fjórum messum yfir daginn og oft verður þetta ansi knappt hjá henni. Hún þarf nefnilega að vera mætt út á Hvammstanga til að spila í messu þar strax eftir að messunni í Melstaðakirkju lýkur og á þá eftir að koma sér á milli. Þá spilum við systir mín útspil fyrir hana svo hún komist þangað tímanlega,“ segir Ásgeir. Annars segir hann jólahaldið vera nokkuð hefð- bundið, borðaður jólamatur og svo opnaðir jólapakkar. Ein hefð segir hann þó vera ómissandi og megi alls ekki klikka. „Á milli jóla og nýárs förum við félagarnir alltaf til frændfólks félaga míns sem eiga bóndabæ hér skammt frá og gefum kindunum – það klikkar ekki,“ segir Ásgeir og brosir. Þegar blaðamaður fylgdi Ásgeiri Trausta út úr skóla- byggingunni spruttu fram ótal brosandi andlit í rúðum skólans og var honum innilega veifað í kveðjuskyni áður en hann hélt með rútu suður yfir heiðar, á leið til höfuðborgarinnar. w Og ég sem gleymi alltaf einhverju þurfti bara að muna eftir þremur hlutum; gítarnum, capo á gítarinn og snúru, en þegar við komum á staðinn ... Ásgeir Trausti með hressum hnátum í Grunnskóla Húnaþings vestra. Ásgeir Trausti hélt útgáfutónleika á Hvammstanga í september síðastliðnum. Mynd: Norðanátt Ásgeir Trausti á útgáfutónleikunum ásamt hljómsveit. Mynd: Norðanátt

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.