Feykir


Feykir - 29.11.2012, Blaðsíða 32

Feykir - 29.11.2012, Blaðsíða 32
20123 2 Bókin Ævintýri tvíburanna á Spáni er nú komin út og er sjálfstætt framhald um Ævintýri tvíburanna sem kom út 2011. Hér fáum við að kíkja örlítið í bókina og grípum niður þar sem þeir eru staddir á Spáni með vinum sínum og eldsprækum ömmum og þurfa að finna pabba Kristjáns sem er týndur. Það getur verið snúið þar sem spænska mafían er hugsanlega flækt í málið. Myndirnar í bókinni gerði Erna Hrönn Ásgeirsdóttir. - - - - - Börnin sváfu langt fram á dag. Þau voru frekar móðguð við ömmur sínar yfir því að hafa ekki verið vakin, en þær fullyrtu að þeim hefði ekki dottið í hug að vekja þau. Ef maður væri orðinn svona dauðuppgefinn eins og þau höfðu verið kvöldið áður, þá bókstaflega yrði maður að fá að sofa. Eftir að hafa borðað flýttu börnin sér með Kristjáni heim til hans. Þau urðu að vita hvort Carlos væri kominn. Hann svaraði engum síma, en þau vildu fullvissa sig um hvort hann hefði komið heim. Þau hlupu sem leið lá eftir ströndinni og upp götuna að húsinu þeirra feðga. Það var galautt og engin merki um að nokkur hefði komið. Kristján varð verulega hryggur. –Ég er viss um að það hefur eitthvað komið fyrir pabba, tautaði hann með grátstafinn í kverkunum. Bjössi klappaði honum á öxlina. –Þetta verður allt í lagi. Við bara finnum hann hvernig sem við förum að því. -Getum við kannski farið á lögreglustöðina? sagði Heiðdís. –Þeir sem vinna með pabba þínum vita kannski um hann. Kristján jánkaði þessu. Krakkarnir lögðu því aftur land undir fót og gengu lengst upp í bæinn, þar sem lögreglustöðin var til húsa. Lögreglumaðurinn í afgreiðslunni var frekar hissa þegar hann sá þessa fjóra krakka koma hlaupandi inn. Kristján var sá eini sem talaði spænsku svo að hann talaði við lögregluþjóninn sem um- svifalaust vísaði börnunum til einhvers yfirmanns. Þessi Töfrakonur/Magic Women hafa gefið út aðra bók um tvíburana úr Húnavatnshreppi Ævintýri tvíburanna á Spáni ágæti yfirmaður, sem hét Don, útskýrði fyrir Kristjáni að pabbi hans væði í mjög leynilegu og erfiðu verkefni og það mætti alls ekki trufla hann. En ef hann vildi þá gæti hann flutt hann til afa síns og ömmu, þar til pabbi hans kæmi heim. Kristján hristi höfuðið. -Nei, ég get verið hjá vinum mínum. Ég hafði bara áhyggjur. Lögregluþjónninn brosti. -Ekki hafa áhyggjur vinur. Farðu á ströndina með vinum þínum og skemmtu þér. Ekki hugsa um starfið hans pabba þíns. Sumt eiga börn ekkert að vera að setja nefið ofan í. Kristján jánkaði en hin börnin sáu að hann var ekki ánægður. Þau þorðu ekkert að segja af ótta við að lögreglan færi með Kristján til afa hans og ömmu og þá gætu þau ekki lengur skottast á milli. Þau kvöddu og röltu af stað til baka. Begga leit á Kristján. -Hvað gerir leynifélagið nú? Kristján leit hnugginn á Beggu. -Ég veit að pabbi er í einhverri hættu, ég bara finn það en get ekkert gert. Ég veit ekki einu sinni hvert hann fór. Þau gengu þögul í átt að ströndinni. Allt í einu snarstansaði Heiðdís. –Krakkar, munið þið þegar pabbi þinn fór með okkur í bíltúrinn? Áður en við fórum í Tívolí þá komum við til íssala. Við fengum ís, en pabbi þinn var dágóða stund að tala við þennan íssala í hálfum hljóðum. Gæti hugsanlega verið að hann vissi eitthvað? Væri kannski svona útsendari eins og löggur hafa í myndum? Karl sem veit allt um fíkniefnasalana? Eigum við að finna hann? Það glaðnaði yfir Kristjáni. –Það sakar ekki að spyrja. Ég man alveg hvar þetta var. Ólm yfir þessum nýju upplýsingum hlupu börnin til baka í átt að íssölunni sem þau öll mundu svo vel eftir. Þetta var alveg eins og Heiðdís hafði hugsað sér. Þarna stóð hann, gamli íssalinn, í sólinni og brosti til allra sem gengu framhjá og bauð ís. -Á einhver pening? spurði Heiðdís. Begga kinkaði kolli. –Jabb, ég skal splæsa. Hann segir okkur ekkert ef við verslum engan ís. Gamli maðurinn var mjög kumpánlegur við börnin. Hann seldi þeim stóra rjómaísa með ídýfu og bukkaði sig og beygði. Loksins ræskti Kristján sig og ávarpaði hann á spænsku. -Manstu þegar við komum hingað í fyrradag með manni sem heitir Carlos. Gamli maðurinn leit í kringum sig og hristi höfuðið. –Nei, ég þekki engan sem heitir Carlos. Kristján stundi. –Hann er pabbi minn og er núna týndur og lögreglan ætlar ekki að gera neitt. Mér datt í hug hvort þú gætir hjálpað mér, ég veit ekki hvað ég á að gera. Gamli maðurinn hélt áfram að hrista höfuðið. Börnin sáu að Kristján var orðinn mjög hnugginn. Begga tók af skarið og greip í höndina á Kristjáni. -Segðu honum bara að við sigum á hann löggunni ef hann hjálpi okkur ekki! Segðu bara að við vitum að hann þekkir pabba þinn og er að láta hann hafa upplýsingar fyrir peninga. Kristján var á báðum áttum en hin börnin hvöttu hann óspart. Loksins lét hann tilleiðast. -Þú verður að segja mér hvað þú veist um pabba minn, annars verð ég að fara til lögreglunnar og fá þá til að koma. Við vitum að þú ert að selja pabba upplýsingar um mafíuna og einhverja eiturlyfjasala. Gamli maðurinn starði öskuillur á Kristján. –Það er ósatt. Bjössi hnippti í Kristján. –Ókey, sækjum þá lögguna, sagði hann á ensku til að vera viss um að karlinn skildi hann. Þau gengu í átt frá ísbúðinni og sá gamli starði á eftir þeim. Eftir nokkur andartök kom hann hlaupandi. -Halló strákur! Hann beindi orðum sínum til Kristjáns. -Ég skal gefa þér upp heim- ilisfang, en það er stórhættulegt fyrir þig að fara þangað. Það er sko betra að þú látir lögregluna hafa miðann. Þið farið ekki þangað sjálf. Komdu með mér! Karlinn stikaði til baka í átt að ísbúðinni og krakkarnir hlupu á eftir. Hann talaði stöðugt við Kristján á spænsku. -Þú segir sko ekki frá því að ég hafi látið þig hafa þetta heimilisfang, því þá verð ég drepinn af mafíunni og mig langar bara til að vera gamall karl sem selur ís. Mig langar bara til að lifa í friði, eins og ég hef alltaf sagt pabba þínum og ég ég vil ekki að einhver sé að selja eiturlyf við hliðina á ísbúðinni minni. En ég vil líka fá að vera í friði. Gamli maðurinn fann sér blað og blýant og skrifaði eitthvað á miða sem hann rétti Kristjáni. -Svo er að fara varlega, þú skilur. -Takk. Kristjáni fannst hann hafa himinn höndum tekið. Honum var búið að líða svo illa, af því að hann var svo hræddur um pabba sinn og svo viss um að það væri eitthvað að hjá honum. Þó að lögreglan segði að hann gæti ekki haft samband þá vildi hann ekki trúa því. Hann hlyti að hafa sent honum sms í það minnsta, ef allt væri í lagi. Krakkarnir flýttu sér burt og alla leið heim á hótel. Þau vissu að ömmurnar færu að hafa áhyggjur, enda var sú raunin. Þær voru farnar að velta fyrir sér hvar krakkarnir væru og hvort þau vildu koma með þeim á ströndina. Nú var stóra spurningin. Hvað var best að gera? Guðrún amma og Þóra máttu auðvitað ekki vita að börnin væru að bralla eitthvað og þær myndu varla leyfa þeim að fara einum út í bæ. Jafnvel ekki þó að Kristján væri svona heimavanur. Þau ákváðu að fara á ströndina með ömmunum og ráða þar ráðum sínum. Veðrið var dásamlegt, sandurinn hlýr og öldurnar mátulega svalar. Um stund ærsluðust krakkarnir, á meðan ömmurnar komu sér fyrir í sólbekkjum og keyptu sér thailenskt nudd á ströndinni. Krakkarnir settust í fjöruna og létu öldurnar skella á sér. Loks leit Heiðdís á Kristján. -Hvað viltu gera? -Finna pabba. -Eigum við að fara að þessu húsi? -Já. -En hvað með lögregluna? Kristján yppti öxlum. –Þeir trúa því ekki að neitt sé að. Begga lét sand renna milli fingranna. Henni fannst heilinn alveg að springa, svo mikið reyndi hún að finna út hvað væri best. Hún leit á krakkana. -Við verðum að finna ráð til þess að komast af hótelinu, án ömmu og Þóru. Það er eina málið. Bjössi blístraði. –Sko, ef við ætlum að fara þá getum við ekki gert það fyrr en þær eru sofnaðar í kvöld. Þær hleypa okkur aldrei út. Kristján stundi. –Það er svo langt þangað til. En ef að ég fer bara einn? -Góður, sagði Heiðdís. –Ömmur okkar vita alveg að pabbi þinn er ekki heima, og á meðan svo er þá hleypa þær þér ekkert heldur í burtu heldur. Þær færu strax að leita að þér. -Segjum þeim þetta bara, sagði Bjössi. -Ertu bilaður? sagði Begga. –Það er ekki eins og við séum með afa! Þau stundu þungan. Það hefði verið betra ef afi hefði verið með líka. Sá hefði verið til í að hjóla með þeim í spænsku mafíuna.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.