Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.12.2017, Blaðsíða 26
VIÐTAL
26 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.12. 2017
lífsveginum. Unglingarnir eru oft eins og leir
sem kennari getur að einhverju leyti reynt að
móta og það eru nokkur atriði sem ég hef alla
tíð lagt mikla áherslu á í mínu starfi. Fyrst er
að nefna heiðarleika, einlægan og góðan vilja
og tillitssemi við náungann. Þá eru það góð og
nákvæm vinnubrögð, úthald og jákvæður agi.
Allt þarf þetta að vera fyrir hendi eigi að slípa
eitthvað með þeim hætti að það verði á end-
anum fagurt og gott. Það er þrotlaus vinna að
gera eitthvað vel. Sá sem getur ekki lagað sig
að þessu nær ekki hreinum hljóm eða tóninum
fagra. Það á ekki bara við um kórstarfið, held-
ur öll mannleg samskipti.“
Þorgerður lauk stúdentsprófi frá Mennta-
skólanum í Reykjavík 1963. Hún hóf nám í
guðfræði við Háskóla Íslands ásamt því að
stunda áfram nám við Tónlistarskólann í
Reykjavík. Hún lauk tónmenntakennaraprófi
frá Tónlistarskólanum 1965 og nam í kjölfarið
tónvísindi og kórstjórn á meistarastigi við Rík-
isháskólann í Illinois í Bandaríkjunum frá
1965-1967. Þorgerður hefur síðan stundað nám
á ýmsum stöðum m.a. í Vínarborg, Jerúsalem
og Englandi. Svo lengi lærir sem lifir.
Kom ekki upp orði í símann
Fyrra námsár Þorgerðar í Bandaríkjunum
heyrði hún íslensku aðeins tvisvar. „Við skrif-
uðumst á einu sinni í viku, ég og mamma, og
hún sagði mér í einu bréfinu að hún hefði pant-
að símtal um jólin. Það var ekki hlaupið að því
að hringjast á milli landa á þessum tíma. Ég
hlakkaði að vonum mikið til símtalsins en þeg-
ar á reyndi gat ég ekki stunið upp orði, ég var
svo hrærð þegar ég heyrði í mömmu og tungu-
málið mitt á aðfangadag.“ Hitt skiptið sem hún
heyrði íslensku þetta ár var þegar prófessor
frá Háskóla Íslands kom í fyrirlestraferð til
skólans.
Talið berst aftur að kórnum og að byrjun-
inni. Hvernig kom það til að Þorgerður Ing-
ólfsdóttir, þá rétt rúmlega tvítug, tók að sér að
stjórna kór við skóla sem ekki hafði starfað
nema í einn vetur.
„Guðmundur Arnlaugsson, fyrsti rektor
MH, sem varð einn af mínum nánustu vinum
og mentorum í lífinu, ákvað að kór yrði stofn-
aður við MH eftir að hafa fengið hvatningu frá
öðrum velgjörðarmanni mínum, dr. Róbert A.
Ottóssyni. Þeir leituðu til mín og ég féllst á að
prófa þetta.“
Hún gerir hlé á máli sínu eins og til að færa
sig öll þessi ár aftur í tímann. „Eigi ég að vera
alveg hreinskilin var þetta þungur róður til að
byrja með. Ég var ekki nema 23 ára, nýkomin
heim úr námi í Bandaríkjunum og hálfgerð
smástelpa í augum krakkanna í kórnum sem
voru ekki mörgum árum yngri en ég. Það
mættu rúmlega þrjátíu manns á fyrstu æf-
inguna, þar af aðeins einn tenór.“
Viljinn hefur dugað
En henni tókst að koma starfinu í gang með
góðum, sameiginlegum vilja, bæði sínum og
kórfélaganna. Sá vilji hefur dugað fram á
þennan dag. „Ég átti líka góða að, ekki síst
mömmu mína sem var vakin og sofin yfir starf-
inu. Ég bjó líka að því að hafa starfað með
pabba sem var einn af brautryðjendunum í
kórstarfi á Íslandi. Dr. Róbert var „músík-
pabbinn minn“; ég bar öll mín verkefni í kór-
starfinu undir hann meðan hann lifði og ekkert
var gert án hans samþykkis. Þá er það Jón
Nordal tónskáld, sem hefur alla tíð borið hag
minn og kórsins fyrir brjósti. Sem unglingur
var ég nemandi hans og síðar kenndi ég í ára-
tugi við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem
hann var skólastjóri. Þannig var ég leidd
áfram í starfi.“
Síðar fól Jón Þorgerði listaverkin sín, kór-
verkin. „Þá áttaði ég mig á því hvað það skiptir
miklu máli að vera treyst í lífinu – ekki síst
þegar maður er svona ungur. Þetta traust
færði ég yfir á kórfólkið mitt og hefur það alla
tíð verið lykilatriði í starfi mínu, að treysta
ungu fólki. Við vöxum af því að vera treyst fyr-
ir verkefnum sem við trúum jafnvel ekki sjálf
að við ráðum við.“
Tíðarandinn var annar árið 1967. „Það var
hippastimpill á hinum nýja menntaskóla og ég
passaði kannski ekki alveg inn í það.“
Hún brosir.
„En samt tókst þetta allt saman og hefur
verið ótrúlega gaman. Fimmtíu ár eru langur
tími, þótt hann sé stuttur á eilífðarmælikvarð-
anum. Heimurinn var einfaldari á þessum tíma
en hann er í dag, alla vega hjá unglingum.“
Jólin byrja á Kleppi
Fyrsti söngurinn utan skólans fór fram á
Kleppi jólin 1967 og þangað hefur Þorgerður
mætt með kórinn allar götur síðan og var eng-
in undantekning á því nú. „Jólin byrja alltaf á
Kleppi,“ segir Þorgerður en einnig er hefð fyr-
ir því að kórinn syngi á fleiri líknarstofnunum
á þessum árstíma. Kórarnir tveir skipta því
með sér í seinni tíð.
Hefðirnar eru fleiri og nú um jólin verða
fimmtíu ár frá því kór undir stjórn Þorgerðar
söng fyrst við messu hjá Sigurbirni Einarssyni
biskup. Seinni árin hefur þessi hefð flust yfir á
messur sonar hans, Karls Sigurbjörnssonar
biskups.
Allt hefur þetta verið utan hefðbundins
vinnutíma. „Þetta hefur allt verið „con amore“,
eða „gefið af ást“, eins og ég segi, og þannig á
það líka að vera. Um leið og „con amore“ hætt-
ir að vera til fer ákveðinn ljómi af listinni. Sjálf
ólst ég upp við þennan hugsunarhátt og í mín-
um huga eru lífsgæðin ekki fólgin í því að eign-
ast heimsins auð, heldur að eignast ríkt
hjarta!“
Öll þessi fimmtíu ár hefur kórinn sungið við
skólaslit í MH en stúdentar voru ekki braut-
skráðir fyrr en 1970. „Kórnum óx jafnt og þétt
ásmegin, tenórunum fjölgaði, og starfið varð
alltaf meira og meira spennandi. Inn fór að
koma fólk sem í dag hefur sungið fyrir allan
heiminn, eins og Kristinn minn Sigmundsson.
Þá var fyrstu tónsmíðinni sem ætluð var kórn-
um laumað inn um lúguna á þessu húsi hér á
Hofteigi. Þar var á ferðinni Þorkell Sigur-
björnsson tónskáld. Við frumfluttum tónverkið
vorið 1970 þegar fyrstu stúdentar MH braut-
skráðust frá skólanum.“
Alsæl með tónverkin
Þorkell var Þorgerði afar kær og náinn vinur.
„Hann var kennari minn í Tónlistarskólanum í
Reykjavík og ég fór í námið til Bandaríkjanna
fyrir hans orð. Það hefur ekkert tónskáld sam-
ið fleiri tónverk fyrir mig og kórana en hann.
Þau telja tugi.“
Annar kennari Þorgerðar, Atli Heimir
Sveinsson, byrjaði líka snemma að semja fyrir
kórinn, eins Jón Ásgeirsson, Gunnar Reynir
Sveinsson, Hafliði Hallgrímsson, Hróðmar
Ingi Sigurbjörnsson og síðan hafa flest máls-
metandi tónskáld landsins komið í kjölfarið,
þar á meðal gamlir nemendur Þorgerðar, eins
og Snorri Sigfús Birgisson, Haukur Tómasson,
Hugi Guðmundsson, Mist Þorkelsdóttir og
Gunnar Andreas Kristinsson. Listinn er lang-
ur og tónverkin yfir hundrað talsins. „Sumar
konur fá skartgripi að gjöf, aðrar ilmvötn, ég
fæ tónsmíðar.“
Hún skellihlær.
Þegar þau Knut gengu í hjónaband komu til
að mynda nokkur tónverk í brúðargjöf. Og
brúðhjónin voru alsæl.
Arvo Pärt og Raddir Evrópu
Það eru ekki bara innlend tónskáld sem hafa
skrifað fyrir Þorgerði heldur líka erlend; má
þar nefna hið mikilsmetna eistneska tónskáld
Arvo Pärt. Það má segja að þátttaka Hamra-
hlíðarkóranna í tónleikum Kammersveitar
Reykjavíkur í janúar 1998 sé forsagan. Kamm-
ersveit Reykjavíkur, undir forystu Rutar,
systur Þorgerðar, efndi til tónleika með úrvali
verka eftir Pärt. Rut fékk Þorgerði og hennar
fólk til liðs við sig í því rómaða verki Te Deum
og þar sem kórinn var að æfa verkið í Lang-
holtskirkju á köldu og dimmu janúarkvöldi sá
Þorgerður skyndilega skugga bregða fyrir úti
í myrkrinu. Þá hafði hún aldrei hitt manninn
en bar kennsl á hann af ljósmyndum – Arvo
Pärt. Hann var þá staddur á landinu, hafði
þekkst boð um að koma vegna tónleikanna,
sem sætti tíðindum þar sem Pärt er maður
hlédrægur. Tónskáldið nálgaðist kórinn og
stundi upp, eins og í leiðslu, þegar flutningi var
lokið: „Mikið var þetta fallegt!“ Upp frá þessu
segir Þorgerður hann hafa tekið ástfóstri við
tón kórsins. „Hann hefur oft haft um okkur fal-
leg orð,“ segir Þorgerður. „Við vorum lengi að
jafna okkur eftir þessa óvæntu heimsókn.
Þorgerður og Kristinn Sigmundsson á
tuttugu ára afmælistónleikum Kórs
Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1987.
Morgunblaðið/BJE
Þorgerður hlaut ridd-
arakross hinnar ís-
lensku Fálkaorðu árið
1985. Hér er hún
ásamt Vigdísi Finn-
bogadóttir forseta og
Kristjáni Albertssyni.
Þorgerður stjórnar útiæfingu hjá Kór Mennta-
skólans við Hamrahlíð í blíðunni vorið 2000.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Þorgerður ásamt systrum sínum, Ingu Rós, Unni Maríu, Vilborgu og Rut, á sjöunda áratugnum.
Þorgerður, Arvo Pärt og Andreas
Peer Kahler eftir flutning á Te
Deum í Langholtskikrju 1998.
Morgunblaðið/Árni Sæberg