Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.03.2018, Blaðsíða 12
VIÐTAL
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.3. 2018
U
nnur A. Valdimarsdóttir er vís-
indamaður sem Íslendingar eru
farnir að kannast við. Hún er
orðin einn „frægra“ vísinda-
manna hér heima en ólíkt því
sem gerist í Svíþjóð til dæmis, þar sem Svíar
þekkja sína stærri fræðimenn, eru Íslendingar
duglegri að þekkja leikara og tónlistarmenn,
nema þeir heiti kannski Kári Stefánsson og
Ragnar skjálfti.
Frægt er orðið þegar Unnur hlaut 240 millj-
óna króna styrk frá Evrópska rannsóknar-
ráðinu, þann stærsta sem ráðið veitir en auk
þess hefur hún hlotið fjölda stórra rannsóknar-
styrkja til rannsókna á samspili erfða og heilsu-
farslegra afleiðinga sálrænna áfalla. Unnur er
doktor í klínískri faraldsfræði sem hefur starfað
stóran hluta lífs síns erlendis en fyrir 10 árum
kom hún heim og kom á fót námi í lýðheilsuvís-
indum hérlendis. Nú eru Unnur og hennar
teymi að ráðast í stórvirki með því að fá allar ís-
lenskar konur, eldri en 18 ára til að taka þátt í
rannsókn, þeirri stærstu sem lagt hefur verið í
hér á landi og jafnframt er hún ein sú stærsta
sinnar tegundar á heimsvísu. Áður en við förum
ofan í saumana á því ætlar Unnur að segja les-
endum frá sjálfri sér. Við byrjum á viðeigandi
stað:
Hvaðan ert þú og þitt fólk?
„Ég er að norðan, ólst upp á Ólafsfirði. Móðir
mín, Guðrún Jónsdóttir, er þaðan en föðurættin
er úr Austur-Húnavatnssýslu, faðir minn,
Valdimar Ágúst Steingrímsson, ólst upp á
sveitabæ í Langadal og við eigum einmitt sum-
arhús þar sem við eyðum miklum tíma í.“
Er grunnt á sveitinni í þér?
„Já. Ég held að vinum mínum, sem eru flestir
borgarbörn, finnist ég svolítið sveitaleg. Þegar
ég flutti á mölina til að fara í háskólann var ég
það sveitó að mér fannst sjúklega skemmtilegt
að taka strætó. Var týpan sem þáði ekki far því
mér fannst svo mikið stuð í vagninum. Það hef-
ur kannski ekki alfarið þvegist af mér þótt ég
hafi búið í borgum síðustu 25 ár. Mér finnst
mikil svölun í því að vera nærri náttúru og ein-
hvern veginn höfða svona grundvallar bóndaleg
sjónarmið sterkt til mín. Á sumrin breytist ég í
bóndakonu í Langadal, baka kleinur, prjóna og
hjálpa til við heyskap.“
Þrátt fyrir bóndakonuna, þá sigldir þú úr
heimahöfn, starfaðir erlendis í 10 ár og virðist í
fljótu bragði ómengaður Vesturbæingur?
„Þetta er algjörlega tvöfalt lag í mér. Sem
barn í sveitinni vissi ég alltaf að ég ætti ekki eft-
ir að búa þar, vissi að ég ætlaði að læra og fara
eitthvað, hafði mikla siglingaþrá. Ég kann því
líka mjög vel við mig í borginni og því menning-
arlífi sem hún hefur upp á að bjóða. En kjarninn
er sveitó.“
Það er ekki að ástæðulausu sem blaðamaður
smalar Unni inn á bás Vesturbæinga en ýmis
atriði styrkja þá staðalmynd. Hvern einasta
morgun er hún til dæmis í Vesturbæjarlauginni
og eiginmaður hennar, Pétur Marteinsson fót-
boltakempa með meiru, rekur Kaffi Vest. Sam-
an eiga þau dótturina Lilju Hugrúnu.
„Við Pétur erum afar ólík að þessu leyti.
Hann er hreinræktað borgarbarn, alinn upp í
Breiðholti og líður alltaf pínu ónotanlega þegar
Hvalfjarðargöngin nálgast. En hann lætur sig
hafa það að vera með mér þennan bóndatíma
minn á sumrin, þótt hann sé feginn þegar hann
kemst aftur í espressóið sitt á morgnana. Sama
hversu mikið ég væri í essinu mínu með mitt
borgaralega sjálf þá er hann bara á annarri
plánetu með sitt, líf hans og sál er hér.“
Rikki bakari skutlaði!
Bökkum aðeins í umhverfið sem mótaði þig.
„Mamma rak hárgreiðslustofu á Ólafsfirði
sem var nokkurs konar kaffiumræðusjoppa um
leið. Um tíma var stofan heima og maður kom
heim eftir skóla, horfði á fínu lagningarnar
verða til hjá konunum, karlana rakaða og hlust-
aði á allar sögurnar.
Á meðan mamma var í þessu var pabbi verk-
stjóri og starfsmaður Vegagerðarinnar og hafði
eftirlit með öllum vegum í námunda við Ólafs-
fjörð, meðal annars hinum alræmda Ólafs-
fjarðarmúla. Þetta voru oft frekar hættuleg störf
og ég man að þegar ég var 5 eða 6 ára féll snjó-
flóð á bílinn hans. Bíllinn fór út af þverhnípi niður
í sjó. Hann náði að koma sér út, klöngraðist upp
á veg og týndi giftingarhringnum einhvern veg-
inn á leiðinni. Þótt ég væri fegin að sjá pabba, er
minningin sem stendur eftir alltaf sú að hann
fékk far heim með bakaranum á Dalvík. Það var
nefnilega ekki bakarí á Ólafsfirði og í mínum
augum var það hreinlega ævintýralega æðislegt
að Rikki bakari hefði skutlað honum til baka!“
Móðurfjölskylda Unnar starfaði mikið í
sjávarútveginum og öll sumur vann hún í fisk-
verkun afa síns og mágs hans, í saltfiski. Hún
var því með salt undir nöglum og ísköld öll sum-
ur, að salta og verka fisk, frá 10 ára til 17 ára
aldurs, meira að segja í bónusvinnu.
Þetta hljómar svolítið eins og þú sért fædd
1952 en ekki 1972, í fullorðinsvinnu svona ung.
„Já og það fannst mér rosalega skemmtilegt.
Ég vann með brjóstgóðu, notalegu og vitru
eldra fólki sem hafði ýmsa fjöruna sopið. En
vissulega var þetta alvöru. Maður byrjaði 20
mínútur í sjö á morgnana og vann langt fram
eftir degi. En þetta vildi maður, ég var að safna
mér fyrir nýjum skíðum og einhverju.
Ég get heldur ekki sagt frá æskunni án þess
að nefna föðurömmu mína, Unni Þorleifsdóttur.
Hún og afi, Jón Ellert Sigurpálsson, bjuggu hér
um bil í næsta húsi og við systkinin þrjú áttum
því tvö heimili. Amma var eins konar samviska
þjóðar, mikill máttarstólpi og hélt utan um alla
með miklum kærleik enda heitir stór hluti af
hennar niðjum annað hvort Unnur eða Unnar.
Það var eitthvað við hennar nærveru sem var
bæði mjög hlýtt og skarpt. Hún var vel lesin,
bæði um trúmál eins og hennar kynslóð en líka í
heimspeki og siðfræði og svo var hún mikill
kúnstner. Ræktaði graslauk og ýmislegt öðru-
vísi á hjara veraldar og nota hráefni í matseld
sem aðrir voru ekki komnir langt með.“
Hún hljómar svolítið á undan sínum tíma?
„Hún var það. Ég sótti mikið í hana sem
krakki, það þurfti að hafa svolítið ofan af fyrir
mér, sjáðu til!“
Núna fer Unnur að útskýra og heldur því
fram fullum fetum að sem barn hafi hún ekki
setið eina stund kjur og þagað, lýsir sér sem fyr-
irferðarmiklu barni sem foreldrarnir hafi ekki
einu sinni treyst sér til að hafa með í sumarfrí.
Það verður að segjast að kynni blaðamanns af
Unni eru þannig að hann á bágt með að trúa
henni og það eiga víst fleiri líka.
„Ég held að í dag væri ég á mörkum ADHD-
greiningar eða einhverrar hegðunarröskunar.
Fjölskyldan í Vesturbæ, Pétur Marteinsson,
Lilja Hugrún og Unnur Anna Valdimarsdóttir,
hefur ferðast og búið víða en Unnur togar
fjölskylduna reglulega með sér út í sveit.
Morgunblaðið/Hanna
Vísindin eiga mig alla
Einn fremsti vísindamaður okkar Íslendinga, Unnur Anna Valdimarsdóttir, setur markið ekki lágt og ætlar sér að ná til um 110 þús-
und íslenskra kvenna. Hún hefur frá blautu barnsbeini verið afar orkumikil, svo virk raunar sem barn að foreldrar hennar treystu
sér ekki með hana í frí. Á sumrin ræktar hún sveitavarginn í sér og bakar kleinur en er þess á milli frummyndin af Vesturbæingi.
Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is
’Ég held að í dag væri ég ámörkum ADHD-greiningareða einhverrar hegðunarrösk-unar. Það þurfti mikið að hafa
ofan af fyrir mér og mamma
kunni sínar aðferðir.