Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.03.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.03.2018, Blaðsíða 16
VIÐTAL 16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.3. 2018 F jölskylda Hodu Thabet eru líkt og hún sjálf bahá‘íar en sá friðsami trúarhópur hefur verið ofsóttur í Ír- an í áratugi og í Jemen um árabil, bæði af hútum, sem ráða nú lögum og lofum í norðanverðu landinu, sem og af stjórnarhernum í suðri. „Íslensk stjórnvöld og íslenskur almenningur gætu tekið forystu í því að hjálpa bahá‘íum í Jemen með því að beita valdhafa þar þrýstingi á alþjóðavettvangi,“ seg- ir Hoda. Hún segir marga bahá‘ía enn í haldi í landinu og að einn þeirra hafi nú verið dæmdur til dauða. Um örlög sex þeirra er ekkert vitað. Hoda er af persneskum ættum en fædd á Indlandi. Hún ólst upp í Óman, stundaði fram- haldsnám í Jórdaníu og London, starfaði svo í Dúbaí en elti að lokum ástina hingað til lands ár- ið 2006. Kom til Íslands um sumar „Ég kynntist manninum mínum, Nabeeh Naimi, í Dúbaí. Hann hafði búið á Íslandi í mörg ár. Við giftumst árið 2005 og ég flutti svo til Ís- lands 3. júní 2006. Og nú er ég íslenskur rík- isborgari. Nabeeh er af persneskum ættum eins og ég en uppalinn í Jórdaníu. Hann flutti til Ís- lands árið 1992 og hefur því búið hér stærstan hluta ævi sinnar. Í hjarta okkar erum við bæði Íslendingar.“ Fljótlega eftir brúðkaupið fór Nabeeh aftur til Íslands. Hoda var enn í vinnu í Dúbaí og kom til Íslands hálfu ári síðar. „Hann hafði komið í fyrsta skipti til Íslands um hávetur og ráðlagði mér að gera það ekki,“ segir hún og brosir. „Hann sagði að til að draga úr veðursjokkinu ætti ég að koma um sumartímann og ég gerði það. Og það var dásamlegt að koma hingað. Svo bjart og fallegt en mér fannst samt kalt! Hita- stigið á Íslandið að sumri er eins og um miðjan vetur í Dúbaí,“ segir hún og hlær dátt að minn- ingunni. „En núna elska ég að búa hér. Ísland er eins og himnaríki á jörðu í mínum huga.“ Hoda er hámenntuð líkt og allir í hennar nán- ustu fjölskyldu. Hún hefur lokið tveimur meist- araprófum í bókmenntum; frá háskóla í London í arabískum bókmenntum og Háskóla Íslands í amerískum bókmenntum. Hún tók svo doktorspróf frá Háskóla Íslands í samanburðarbókmenntum árið 2014 og varð sú fyrsta til að útskrifast með þá gráðu frá HÍ. Svo þú elskar bækur af öllu hjarta? „Ó já, ég er mjög hrifin af bókmenntum,“ seg- ir hún og andlit hennar ljómar. „Ég trúi því að í gegnum bókmenntir megi kynnast ólíkum þjóð- um og menningu þeirra. Að þær opni glugga og byggi brýr milli menningarheima, víkki sjón- deildarhring okkar og auki umburðarlyndi.“ Um þessar mundir vinnur Hoda ásamt vin- konu sinni, sem er heimilislæknir í Óman, að rannsókn á kynfæralimlestingum kvenna. Af persneskum uppruna Móðurafi Hodu var persneskur sóróisti (zo- roastrian) og ólst upp í Íran til 12 ára aldurs. Þá kom hann til Indlands og kynntist bahá‘í-trúnni. „Hann giftist svo ömmu minni sem var pers- nesk en fædd og uppalin á Indlandi. Föðurafi minn var einnig persneskur en hins vegar kom- inn af múslimum. Hann kynntist einnig bahá‘í ungur að árum og tók upp þá trú. Hefðu þessir afar mínir ekki verið bahá‘íar hefðu foreldrar mínir aldrei getað gifst. En bahá‘í snýst um að opna heiminn, opna hjarta sitt fyrir öllum. Allir menn eru laufblöð á sama trénu. Bahá‘í snýst um ást, samstöðu og að gera mannkyninu öllu vel. Lykilatriði trúarbragðanna er friður. Okkur er því óheimilt að taka þátt í stjórnmálum því hvernig getur þú talað fyrir sameiningu ef þú tekur eina hlið fram yfir aðra? Við megum held- ur engin vopn nota eða bera, hvaða nafni sem þau nefnast.“ Móðir Hodu fæddist á Indlandi og faðir henn- ar í Íran. Þau kynntust við upphaf sjöunda ára- tugarins í Jemen þar sem móðir hennar starfaði sem augnlæknir. „Þau giftust þar og fluttu svo til Óman. Þetta var fyrir írönsku byltinguna ár- ið 1979. Í kjölfar hennar áttu bahá‘íar mjög erf- itt uppdráttar þar í landi og því gátu foreldrar mínir ekki flutt þangað.“ Er móðir Hodu var ólétt að henni, sínu fyrsta barni, fór hún til móður sinnar á Indlandi til að fæða. Því fæddist Hoda, ólíkt hinum fjórum systkinum sínum, á Indlandi. Vegna trúar sinnar og bakgrunns fengu for- eldrar Hodu aldrei ríkisborgararétt í Óman. Þau bjuggu þar saman í fjörutíu ár en einn dag- inn kom að því að yfirvöld neituðu þeim um frekara dvalarleyfi. Þau urðu því að fara. „Þetta var árið 2010. Ég man að við vissum ekkert hvað við áttum að gera. Hvert foreldrar mínir gætu farið. Þau voru með írönsk vegabréf en gátu ekki farið til Íran vegna ofsóknanna. Eiginmaður annarrar systur minnar er hálfur Jemeni og þau bjuggu þar. Mági mínum tókst að fá þar dvalarleyfi fyrir foreldra mína. Og þangað fluttu þau. Syst- ir mín, sem er með meistaragráðu í kennslu- fræðum, kenndi við háskóla í höfuðborginni Sanaa og rak góðgerðarsamtök sem buðu kon- um og fleirum upp á námskeið, meðal annars í lestri. Mágur minn vann hjá breska sendi- ráðinu. Strax á þessum tíma var erfitt uppdráttar fyrir fjölskylduna í Jemen því ofsóknir á hendur bahá‘íum voru hafnar. Bróðir minn, sem er með meistaragráðu í afbrotafræðum, vann í þýska sendiráðinu í Sanaa og síðar hjá því hollenska. Þegar þarna var komið sögu, árið 2011, var hverju sendiráðinu á fætur öðru lokað í Jemen og starfsmönnum í öðrum fækkað. Bróðir minn þurfti að endurnýja dvalarleyfi sitt og var boð- aður til stofnunarinnar sem sá um það. En er hann kom þangað var hann handtekinn. Það var hins vegar algjört kraftaverk að fyrir tilviljun var mágur minn staddur í sömu byggingu. Hann sá hermennina færa bróður minn út. Bróðir minn sagði honum að hringja strax í hol- lenska sendiráðið. Og af því að þarna var er- lendum stjórnvöldum blandað í málið og hann var embættismaður hollenskra stjórnvalda tókst að fá hann lausan. Það er alkunna að fólk hverfur og deyr í haldi í Jemen. Við vorum því hrædd um hann enda vissum við ekkert hvert þeir fóru með hann. Samið var um lausn hans með því að lofa því að hann yfirgæfi landið. Við heyrðum ekkert frá honum fyrr en hann var kominn til Hollands.“ Þar starfar hann nú sem sérfræðingur hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag. Hvað skýrir þessa miklu andúð á bahá‘íum? „Við boðum frið og sameiningu. Við deilum þessum fallegu skilaboðum með þeim sem við hittum. Að í stað þess að berjast og fara í stríð getum við hjálpað hvert öðru að komast yfir for- dóma, hver svo sem rót þeirra er. Við trúum því að allir geti unnið saman og byggt fallegri heim. Nýverið var birt viðtal við leiðtoga húta í Jem- en. Hann var spurður af hverju honum væri illa við bahá‘ía og hann sagði að það væri af því að þeir töluðu um frið og ræddu við unga fólkið um hvernig hægt væri að vinna saman. Í kjölfarið vildi unga fólkið ekki fara í stríð. Hann sagðist þurfa á því að halda til að halda stríðinu áfram. Bahá‘íar fara ekki í stríð. Þeir vilja frið. Og frið- ur er ógn við stríðsreksturinn. Bahá‘í er ógn við kerfi trúarbragða sem sum samfélög byggja stoðir sínar á. Þessi afstaða hræðir mann vissu- lega. Valdabaráttan er svo hörð. Okkar sýn er sú að við eigum einmitt að nýta bæði það sem sameinar okkur og það sem gerir okkur ólík til að byggja friðinn á í stað þess að byggja múra og berjast.“ Hún segir aðra ástæðu fyrir ofsóknum vera þá að bahá‘í eru yngri trúarbrögð en íslam. „Strangtrúaðir múslimar líta svo á að við höfum snúið baki við íslam. Þeir sem lengst ganga segja þetta jafngilda dauðadómi og þetta er nú notað gegn bahá‘íum í Íran, Jemen og víðar. Og nýleg dæmi sanna þetta.“ Dæmdur til dauða Í byrjun janúar var fjarskyldur frændi Hodu, verkfræðingurinn Hamed Bin Haydara, dæmd- ur til dauða í Jemen af trúarástæðum. „Af sömu ástæðum hafa systir mín, mágur, bróðir hans og faðir minn verið fangelsuð. Það er ekkert um- burðarlyndi gagnvart bahá‘íum meðal valda- manna í Jemen, hvorki meðal opinberra stjórn- valda né hútanna sem fara mestmegnis með völdin í höfuðborginni Sanaa.“ Ofsóknirnar hófust fyrir alvöru í Jemen árið 2008. Þá var hópur bahá‘ía handtekinn, m.a. Ka- ywan frændi Hodu. Mennirnir voru pyntaðir og yfirheyrðir með bundið fyrir augun. Hamed Bin Haydara var svo handtekinn árið 2013 á vinnu- stað sínum, sakaður um að vera njósnari Ísraela. Ísrael er helgur staður bahá‘ía eins og margra annarra trúarbragða. „Það er eina tengingin sem Hamed hefur við Ísrael,“ segir Hoda. „Þetta er auðvitað mjög langsótt, baha‘í- ar taka ekki þátt í stjórnmálum, það er ein grundvallarstoð trúar okkar. Hamed hvarf eftir handtökuna í heilt ár og síðar komumst við að því að hann hafði verið pyntaður. Honum var gefið rafstuð og hann missti heyrn og hreyfi- getu. Hann hefur verið í fangelsi öll þessi ár. Hann á eiginkonu og þrjár dætur.“ Fyrir tilstilli Amnesty International tókst loks að hafa uppi á Bin Haydara. Ákæra var þó ekki gefin út fyrr en löngu seinna og í fyrstu var henni vísað frá þar sem dómarinn taldi ekki næg sönnunargögn fyrir hendi, m.a. um að hann væri njósnari eins og hann er sakaður um. Engu að síður hlaut hann dauðadóm í Sanaa nú fyrir nokkrum vikum. Hvorki hann né lögmenn hans fengu að vera viðstaddir uppkvaðninguna. Lög- mennirnir hafa ekki enn fengið að sjá á hverju dómurinn byggist. Hútar fara með völdin í Sanaa og dómstóllinn þar sem dauðadómurinn var kveðinn upp er því á þeirra yfirráðasvæði. Málið á enn eftir að fara fyrir hæstarétt landsins. En þar sem dómskerfið er allt gjör- spillt er hætta á því að niðurstaðan verði sú sama. „Þegar allt réttarkerfið er orðið gegn- umsýrt af spillingu, hverjir geta þá varið hina kúguðu? Þarna er það þrýstingur alþjóða- samfélagsins sem er síðasta hálmstráið,“ segir Hoda. „Íslensk stjórnvöld geta látið sig málið varða, til dæmis á vettvangi Sameinuðu þjóð- anna og almenningur með öðrum leiðum, svo sem með undirskriftum og bréfaskriftum. Það myndi veita þessu fólki von.“ Ofsóknir á hendur fjölskyldunni Fyrstu handtökurnar sem tengjast nánustu fjölskyldu Hodu voru gerðar í mars árið 2015. Mágur hennar, Nadim, og bróðir hans, Nadir, ákváðu að vera viðstaddir réttarhöld yfir Ha- med Bin Haydara þar sem þeir óttuðust að þau yrðu ekki réttlát. Er þeir mættu í réttarsalinn fyrirskipaði saksóknarinn, sem er þekktur fyrir andúð sína á bahá‘íum, handtöku þeirra. „Þeir voru handteknir af trúarlegum ástæðum,“ segir Hoda. Þeir voru í haldi í nokkra daga við öm- urlegar aðstæður. Í ágúst árið 2016 stóðu bahá‘íar fyrir sam- komu ungmenna í Sanaa. „Um sextíu karlmenn, konur og börn sem sóttu ráðstefnuna voru handtekin. Í þessum hópi var systir mín, Ru- hiyeh, og mágkona hennar. Skömmu síðar voru Kaywan frændi minn og bræðurnir Nadim og Nadir handteknir og fluttir í fangelsi. Ruhiyeh og Nadim eiga tvo syni, átta og tíu ára gamla. Þeir urðu að vera hjá öldruðum föður mínum og móður Nadims á meðan foreldrar þeirra voru í haldi. Hermenn gerðu húsleit á heimilum þeirra á þessu tímabili. Vegabréfin og fleira var tekið. Þeir miðuðu byssum að höfðum barnanna og hótuðu því að drepa þau ef þau hreyfðu sig. Þeir sögðu þeim að faðir þeirra væri svikari og að hann yrði dæmdur til dauða. Systir mín losnaði úr fangelsinu í kjölfar mik- illar loftárásar Sádi-Araba í Sanaa. Hún og fleiri bahá‘íar voru látin laus með því skilyrði að þau tækju ekki frekari þátt í starfi á vegum bahá‘ía. Hún var áfram í stofufangelsi. Kaywan, Nadim og Nadir voru hins vegar fluttir í annað fangelsi og í næstum því fjóra mánuði vissum við ekki hvar þeir væru nið- urkomnir. Handtakan í Aden Mánuði eftir að Nadim var sleppt úr haldi var orðið ljóst að fjölskyldan yrði að komast frá Sanaa til hafnarborgarinnar Aden í suðurhluta landsins. Faðir minn var orðinn veikur og lækn- isaðstoð var ekki að fá í Sanaa. Þar var ástandið fyrir bahá‘ía líka orðið óbærilegt. Það var nán- ast gengið hús úr húsi og þeirra leitað.“ Faðir Hodu, systir, mágur og synir þeirra lögðu því af stað í hættuför til Aden. Þaðan ætl- aði hópurinn að freista þess að komast úr landi um alþjóðaflugvöllinn. „Þetta var fjórtán klukkustunda ferðalag og þau þurftu að fara fram hjá fjörutíu varðstöðvum húta á leiðinni. Þegar þau svo komu á flugvöllinn og landa- mæraverðirnir sáu íranskt vegabréf föður míns komu grímuklæddir menn og drógu hann og Friðelskandi fólk flýr ofsóknir Fjölskylda íslenskrar konu var ofsótt í mörg ár í Jemen vegna trúar sinnar. Faðir hennar, systir og mágur voru meðal þeirra sem hnepptir voru í varðhald, karlmennirnir mánuðum saman. Fjölskyldan vissi ekki hvar þeir væru eða hvort þeir væru á lífi. Fólkið lagði í mikla hættuför um landið, þar sem vægðarlaust stríð hefur geisað árum saman, og tókst að lokum að flýja. Sunna Ósk Logadóttir sunna@mbl.is Nadim Sakkaf, mágur Hodu, ásamt sonum sínum Yousef og Sam. Nadim var handtekinn þrivar sinnum í Jemen og í eitt skiptið miðuðu hermennirnir byssum að höfðum sona hans og hótuðu að drepa þá ef þeir hreyfðu sig. Þeim tókst öllum að flýja land síðasta haust eftir margra ára ofsóknir. Drengirnir hafa ekki gengið í skóla í um tvö ár. Ruhiyeh systir Hodu er með meist- aragráðu í kennslufræðum og vann við háskóla í Sanaa. Þar rak hún einn- ig góðgerðarsamtök. Hún var hand- tekin á samkomu fyrir ungmenni í borginni og flúði loks land í haust.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.