Morgunblaðið - Sunnudagur - 15.04.2018, Síða 18
STJÓRNMÁL
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15.4. 2018
Brexit er áskorun fyrir hin smærri ríkiEvrópu; innan Evrópusambandsins semutan. Endurskipulagning sambandsins
eftir útgöngu Breta er líkleg til að færa Þjóð-
verjum og Frökkum ennþá meiri völd í hendur
og tryggja ítök þeirra í álfunni, undir forystu
Þjóðverja. Það gæti átt eftir að draga úr áhrif-
um hinna smærri ríkja. Enda þótt menn hafi
gjarnan hent gaman að Bretum fyrir að vera
„fíllinn í postulínsbúðinni“, höfðu mörg smærri
ríkjanna hag af því að einhver annar en þau
mölvuðu postulínið, þegar ESB-ríkin greindi á
um stefnumótun og endurbætur á kerfinu.
Þannig sló Bretland oftar en ekki skjaldborg
um smærri ríkin gagnvart yfirráðum Þjóðverja
og Frakka sem var heppilegt þegar rýnt var til
gagns í þróun og breytingar á lýðræðislegu
samstarfi.
Þetta er niðurstaða Baldurs Þórhallssonar,
prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Ís-
lands, og Anders Wivel, prófessors í stjórn-
málafræði við Kaupmannahafnarháskóla, í
grein um áhrif Brexit á smáríki, innan sem utan
ESB, sem birtast mun í bókinni The Routledge
Handbook of the Politics of Brexit.
Ganga Bretar í EFTA?
Í greininni kemur fram að tækifæri, ekki bara
áskoranir, séu fólgin í Brexit fyrir EFTA-ríkin
og ríkin sem eiga aðild að Evrópska efnahags-
svæðinu. Þannig geti Ísland og Noregur orðið
minna háð Evrópusambandinu takist þeim að
nýta Brexit í sína þágu og koma á nánara sam-
starfi við Breta á sviði öryggismála, viðskipta og
menningar. Þetta á ekki síst við gangi Bretar í
EFTA, eins og sumir stjórnmála- og fræðimenn
hafa þegar gert skóna. Því hefur raunar verið
haldið fram að EFTA henti hagsmunum Breta
jafnvel betur en ESB, lagalega, pólitískt og fjár-
hagslega. Helsta ljónið í veginum er líklega
frjálst flæði vinnuafls á EFTA-svæðinu og fyrir
vikið gætu Bretar valið að vinna frekar náið
með aðildarríkjunum í stað þess að slást form-
lega í hópinn, svokallað UKEFTA. Í öllu falli er
talið að staða Breta yrði sterkari með EFTA á
bak við sig, bæði í Evrópu og á heimsvísu. Bald-
ur og Wivel eru þeirrar skoðunar að þetta gæti
stuðlað að nýjum tækifærum fyrir núverandi
EFTA-ríki í Bretlandi og einnig þegar kemur
að nýjum viðskiptasamningum utan Evrópu.
Hvatning frá Íslandi
Í þessu sambandi ber að hafa í huga að Bretar
hafa ekki sjálfir gefið til kynna að þeir hyggist
sækja um aðild eða óska eftir samstarfi við EFTA
og fyrir liggur að bæði Norðmenn og Svisslend-
ingar hafa efasemdir um slík áform. Bæði er þau
ríki sögð hafa áhyggjur af því Bretar myndu taka
yfir forystuhlutverkið í samtökunum, auk þess
sem spennan á milli Breta og ESB gæti skaðað
farsælt samstarf EFTA og ESB.
Mestur áhugi á aðild Breta að EFTA er á Ís-
landi, að því er fram kemur í greininni, en tveir
síðustu utanríkisráðherrar, Guðlaugur Þór
Þórðarson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hafa
beinlínis hvatt Breta til að sækja um aðild að
samtökunum. „Utanríkisráðherrann hefur lagt
áherslu á þann möguleika að Ísland og önnur
EFTA-ríki fylgi fordæmi Breta og geri fríversl-
unarsamninga við ríki vítt og breitt um heiminn.
Mögulega gæti þetta leitt til betri viðskipta-
samninga við Breta en þau [EFTA-ríkin] búa að
núna,“ segja Baldur og Wivel.
Í greininni kemur fram að Bretar hafi í sögu-
legu samhengi verið hliðhollir smærri ríkjum
innan ESB; greitt götu þeirra inn í sambandið,
ekki síst við lok kalda stríðsins, og staðið með
þeim í ýmsum málum, einkum gagnvart stóru
ríkjunum tveimur, Frökkum og Þjóðverjum.
„Smærri Evrópuríkin sáu Breta sem helsta
talsmann frjálsra viðskipta, sem tryggði þeim
nauðsynlegan aðgang að mörkuðum, þannig að
þeirra litlu hagkerfi gætu vaxið, auk þess sem
Bretar voru mikilvægur hlekkur í öryggis- og
varnarkerfi sambandsins,“ segja Baldur og Wi-
vel.
Tvennskonar ríki í Evrópu
Með smærri ríkjum er gjarnan átt við ríki sem
hafa takmarkað bolmagn ein og sér, pólitískt,
viðskipta- og menningarlega. Hvar mörkin eru
dregin í þeim efnum er eflaust skilgreining-
aratriði og í greininni er vísað í skondin orð
danska fjármálaráðherrans, Kristians Jensens,
en hann sagði á Brexit-ráðstefnu í Danmörku á
liðnu ári að til væru tvennskonar Evrópuríki.
Annars vegar smáríki og hins vegar lönd sem
ekki hafa gert sér grein fyrir því ennþá að þau
eru smáríki. Ekki höfðu víst allir húmor fyrir
þessu.
Greinarhöfundar halda því fram að smáríkin
innan ESB séu líkleg til að tileinka sér þrenns-
konar aðferðir að Bretum gengnum; mynda
bandalag með öðrum smáríkjum, fela sig eða
leita skjóls.
Til þess að verja sína hagsmuni er ein leiðin
að smærri ríkin snúi bökum í vaxandi mæli
saman. Sem dæmi um slíkt bandalag tilgreina
Baldur og Wivel Írland, Holland og Dan-
mörku. Hagsmunir þessara ríkja fari gjarnan
saman. Þá séu þau öll í nánum tengslum við
Bretland. Forsætisráðherrar þessara þriggja
ríkja hafa raunar þegar hvatt ESB til að huga
sérstaklega að þörfum smærri ríkja í Brexit-
samningunum. Ljóst er að þessi ríki munu
sakna Breta og danski utanríkisráðherrann,
Anders Samuelsen, hefur verið duglegur að
ferðast til ríkja á borð við Portúgal, Austurríki
og Tékkland, til að kanna hvernig landið liggur
og freista þess að styrkja samböndin. Ríkin
vilja tryggja áframhaldandi náið samstarf milli
ESB og Bretlands.
Þegar Baldur og Wivel tala um að ríki feli sig
eiga þeir við að þau tileinki sér hlutleysi og bíði
á hliðarlínunni þegar kemur að því að taka
ákvarðanir innan ESB í tengslum við Brexit.
Með því að leita skjóls er átt við að smærri ríki
sem ekki hafi náin tengsl við Bretland veðji á að
ESB veiti þeim áframhaldandi skjól og styðji
þau þegar á þarf að halda. Og tryggi þannig
mögulega gott veður sér til handa til lengri tíma
litið innan sambandsins. Ríkin sem bíða á hlið-
arlínunni eða leita skjól hafa ákveðið að ögra
þannig ekki hinum stærri ríkjum ESB í samn-
ingaviðræðum um úrgöngu Breta úr samband-
inu. Flest smærri ríki hafa kosið sambland að
þessum tveimur leiðum.
Áhrif á Norður-Atlantshafi
Útganga Breta úr ESB mun hafa víðtæk áhrif,
meðal annars á Norður-Atlantshafi en nú fjölg-
ar ríkjum utan sambandsins sem hafa þar hags-
muna að gæta. Fyrir voru Noregur, Ísland,
Kanada og Bandaríkin, auk Færeyja og Græn-
lands. Þetta skapar aukna óvissu en ekki liggur
fyrir hvaða kröfur Bretar munu setja fram, til
dæmis er varðar opnun siglingaleiðarinnar í
norðri, stefnumótun á svæðinu, umhverfisvernd
og fleira. Þá hefur ríkisstjórn Íslands lýst
áhyggjum sínum af því að enn eitt ríkið komi nú
að borðinu þegar samið er um sameiginlega
fiskistofna á svæðinu, eins og samninga-
viðræður hafi ekki verið nógu flóknar fyrir.
Eins hafa Norðmenn og Danir áhyggjur af
framtíð veiðiréttinda. Loks segja greinarhöf-
undar að Íslendingar og Norðmenn fylgist
grannt með sjálfstæðisumræðunni í Skotlandi í
kjölfar Brexit enda myndi sjálfstæði Skota kalla
fram enn eina sviðsmyndina í Norður-
Atlantshafi.
Í greininni er bent á að fræðimenn sem skoð-
að hafa málið haldi því fram að Brexit hafi þegar
haft áhrif á Evrópusambandsumræðuna í Dan-
mörku, Grikklandi og Austurríki. Þá sé líkleg-
ast að brotthvarf Breta geri Evrópusinnum erf-
iðara um vik að selja hugmyndina um aðild í
Noregi, Sviss og á Íslandi, þar sem almenningur
sé mjög efins fyrir. „Brexit hefur þegar haft
áhrif á Evrópusambandsumræðuna á Íslandi og
botnfryst aðildarviðræður ríkisins sem hafa
verið í bið frá 2013,“ segir í greininni.
Horft verður til afleiðinganna
Að mati Baldurs og Wivels er of snemmt að
segja til um hvaða áhrif Brexit kemur til með að
hafa á efasemdafólk í smærri Evrópuríkjum til
lengri tíma litið. En mat á kostum og göllum
ESB-aðilar muni framvegis án efa stýrast í
auknum mæli af því hvort Bretum kemur til
með að farnast vel eða illa utan sambandsins.
Meti menn það almennt svo að Brexit veiki
stöðu Bretlands gæti það haft jákvæð áhrif á
stuðning við sambandið. Og reynist róðurinn ut-
an ESB Bretum sérstaklega þungur gæti það
jafnvel orðið vatn á myllu Evrópusinna á Ís-
landi; að þrýsta á um að aðildarviðræður verði
teknar upp að nýju. Meira þarf, að dómi Bald-
urs og Wivels, til að Norðmenn og Svisslend-
ingar taki sama pól í hæðina.
Blómstri efnahagur Bretlands aftur á móti
eftir brotthvarfið og pólitísk áhrif landsins
verða eins mikil og jafnvel meiri en áður mun
það skila sér inn í Evrópuumræðuna í ríkjum
eins og Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, segir í
greininni. Og nær ómögulegt verður að telja
EFTA-ríkin á að ganga í ESB.
Allra augu verða með öðrum orðum á Bretum
á komandi árum og misserum. Bæði þeirra sem
styðja Evrópusambandið og þeirra sem vilja
standa utan þess. Hvert stefnir fíllinn þegar
hann er laus úr postulínsbúðinni?
Þegar fíllinn fer úr postulínsbúðinni
Brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu
kemur til með að hafa víðtæk áhrif,
meðal annars fyrir okkur Íslendinga.
AFP
Segja má að Bretar hafi verið
pönkararnir í Evrópusamband-
inu; gjarnan tilbúnir að standa
uppi í hárinu á Þjóðverjum og
Frökkum. Hvaða áhrif mun
brotthvarf þeirra úr samband-
inu hafa á smærri ESB-ríkin,
sem Bretar hafa veitt skjól? Og
hvað þýðir Brexit fyrir smá-
þjóðir utan ESB, eins og Ísland?
Þessu reyna Baldur Þórhalls-
son prófessor og danskur koll-
egi hans, Anders Wivel, að
svara í grein sem birtast mun í
nýrri bók um áhrif Brexit.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Anders Wivel Baldur Þórhallsson
’Mestur áhugi á aðild Bretaað EFTA er á Íslandi, að þvíer fram kemur í greininni, entveir síðustu utanríkisráðherrar,
Guðlaugur Þór Þórðarson og
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hafa
beinlínis hvatt Breta til að sækja
um aðild að samtökunum.