Læknablaðið - 01.10.2017, Síða 7
LÆKNAblaðið 2017/103 407
R I T S T J Ó R N A R G R E I N
Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar hófst um leið og Rannsóknar-
stöð Hjartaverndar opnaði að Lágmúla 9, í október 1967. Því er liðin
hálf öld síðan rannsóknin hófst að frumkvæði Sigurðar Samúels-
sonar prófessors og samstarfsfólks, nánar lýst áður í Læknablaðinu.1
Megintilgangur hennar var að gera umfangsmikla hóprann-
sókn til að kanna meðal annars útbreiðslu hjarta- og æðasjúkdóma
hér á landi og finna helstu áhættuþættina svo unnt yrði að beita
árangursríkum forvörnum gegn þessum faraldri.
Reykjavíkurrannsóknin var sérstök í alþjóðlegu samhengi þar
sem hún náði til stórs hóps beggja kynja, um 19.000 manns sem
fylgt var eftir um langt árabil. Þátttakendahópurinn var um þriðj-
ungur íslensku þjóðarinnar, fæddir 1907-1934, á aldrinum 34-69
ára við val hópsins 1967. Upplýsingasöfnunin var um 800 atriði
varðandi hvern einstakling, fyrstu tölvuskráðu sjúkraskrárnar á
Íslandi. Hver þátttakandi kom allt að fimm sinnum í hóprannsókn-
ina á árabilinu 1967-1997. Á árinu 1981 hóf Rannsóknarstöð Hjarta-
verndar fyrir Íslands hönd þátttöku í fjölþjóðlegri rannsókn Al-
þjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á hjarta- og æðasjúkdómum
sem fékk nafnið MONICA. Nikulás Sigfússon yfirlæknir stjórnaði
rannsókninni hér á landi. Skráð voru öll kransæðatilfelli á landinu,
25-74 ára, sem gaf viðbótarmöguleika á tengingu áhættuþátta við
algengi kransæðasjúkdóma, ekki eingöngu við dánarorsakir eins
og áður. Hjartavernd hefur haldið áfram þessari skráningu síðan.
Samtvinnun þessara gagnasafna, svo og gagna síðari hóprann-
sókna Hjartaverndar, hefur verið nýtt til að fylgjast með þróun
kransæðasjúkdóma á Íslandi og helstu áhættuþáttanna í nær hálfa
öld eins og lýst er í ítarlegri yfirlitsgrein þessa tölublaðs Lækna-
blaðsins.2 Greinin lýsir vel breytingum sem orðið hafa hér á landi
síðustu áratugina. Tengsl lækkunar á tíðni kransæðasjúkdóma á
Íslandi við breytingar á áhættuþáttum voru fyrst könnuð fyrir
tímabilið 1968-1988 og sýndu niðurstöðurnar að skýra mætti fækk-
un kransæðatilfella sem þá var orðin að stórum hluta (75%) út frá
æskilegum breytingum á helstu áhættuþáttunum. Hjartavernd var
með þeim fyrstu til að sýna fram á þetta í vísindagrein í British
Medical Journal árið 1991 sem hlaut verðskuldaða athygli.3
Upplýsingarnar hafa verið nýttar á undaförnum áratugum í ár-
angursríkri baráttu við hjarta- og æðasjúkdóma og áhættuþættina
á Íslandi, sem var aðaltilgangur með stofnun Hjartaverndar á sín-
um tíma.1 Niðurstöðurnar sýndu til dæmis að á 10. áratug síðustu
aldar mátti rekja þriðja hvert dauðsfall í aldurshópi 35-69 ára til
reykinga og á þessum tíma dó að meðaltali einn Íslendingur á
dag úr reykingatengdum sjúkdómum (hjarta- og æðasjúkdómar,
lungnasjúkdómar og krabbamein). Á árinu 2006 voru dauðsföllin
vegna þessa um 100 færri á ári samfara minni reykingum.2
Hluti eftirlifandi þátttakendahóps Reykjavíkurrannsóknarinn-
ar (5764 manns) varð síðan að undirstöðu Öldrunarrannsóknar
Hjartaverndar sem hófst árið 2002.
Reykjarvíkurrannsóknin hefur einnig gefið möguleika á athug-
un á öðrum hugsanlegum áhættuþáttum og mismunandi mynd-
um kransæðasjúkdóms meðal karla og kvenna.1 Þetta leiddi í ljós
áður lítt þekktar upplýsingar svo sem að karlar sem fengið höfðu
þögla kransæðastíflu (án einkenna) höfðu svipaðar horfur og aðrir
með sögu um þekkta kransæðastíflu.4 Þetta hefur svo verið athug-
að nánar í Öldrunarrannsókninni.
Gagnasafn Reykjavíkurrannsóknarinnar hefur einnig verið
nýtt til rannsókna á öðrum langvinnum sjúkdómum á Íslandi.
Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtist yfirlit um beinbrot í öll-
um þátttakendahópnum, sem gefur innsýn í faraldsfræði helstu
beinþynningarbrota á Íslandi síðustu áratugi.5 Niðurstöðurnar
benda til lægri tíðni mjaðmarbrota frá aldamótum, sem gæti átt
sér margar skýringar. Þar sem rannsóknarhópur Reykjavíkurrann-
sóknarinnar nýtist ekki til frekari athugunar á þessu þyrfti önnur
rannsókn að taka við. Eðlilegast væri að komið yrði á árlegri skrán-
ingu mjaðmarbrota og helstu beinþynningarbrota fyrir allt landið.
Rannsóknarstöð Hjartaverndar hefur unnið mikið og merkt
starf síðastliðna hálfa öld undir farsælli forystu læknanna Ólafs
Ólafssonar, Nikulásar Sigfússonar og Vilmundar Guðnasonar.
Heimildir
1. Gudnason V, Sigfusson N, Sigurdsson G. Rannsóknarstöð Hjartaverndar í fortíð og nútíð.
Laeknabladid, 2014; 100:456-464.
2. Andersen K, Aspelund T, Gudmundsson E, Siggeirsdottir K, Thorolfsdottir RB, Sigurdsson
G, et al. Úr gögnum Hjartaverndar: Faraldsfræði kransæðasjúkdoma á Íslandi í hálfa öld.
Laeknabladid, 2017; 103:411-420.
3. Sigfusson N, Sigvaldason H, Steingrimsdottir L, Gudmundsdottir II, Stefansdottir I,
Thorsteinsson T, Sigurdsson G. Decline in ischaemic heart disease in Iceland and change in
risk factor levels. BMJ 1991; 302: 1371-5.
4. Sigurdsson E, Thorgeirsson G, Sigvaldason H, Sigfusson N. Unrecognized myocardial
infarction: epidemiology, clinical characteristics, and the prognostic role of angina pectoris.
The Reykjavik Study. Ann Int Med 1995; 122: 96-102.
5. Sigurðsson G, Siggeirsdóttir K, Jónsson BY, Mogensen B, Guðmundsson EF, Aspelund T,
et al. Úr gögnum Hjartaverndar: Nokkur atriði um faraldsfræði og áhættumat beinbrota á
Íslandi. Laeknabladid, 2017; 103:423-428.
Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar 50 ára
Gunnar
Sigurðsson
sérfræðingur í innkritalasjúkdómum.
Stjórnarformaður Hjartaverndar
1998-2016
gunnars@hjarta.is
50th anniversary of the Reykjavik Heart Study
Gunnar Sigurðsson endocrinologist
Former chairman of the Icelandic Heart Association
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.10.151
Öðlastu nýtt
viðhorf
Inflectra er fyrsta mAb samheitalíftæknilyfið.
Lyfið var þróað til að hafa sambærilega virkni
og öryggi og frumlyf infliximab til að auka
meðferðarval sjúklinga með gigtar-, meltingar-
og húðsjúkdóma.1.
Heimildir:
1. INFLECTRA™. European Public Assessment Report (EPAR). June 2013.
Available at: http://www.ema.europa.eu/docs/en_GB/document_library/
EPAR_-_Public_assessment_report/human/002778/WC500151490.pdf
http://www.ema.europa.eu/docs/is_IS/document_library/EPAR_-_Product_
Information/human/002778/WC500151489.pdf
Fyrsta samheitalíftæknilyfið sem er einstofna mótefni (mAb)
og notað í gigtar-, meltingar- og húðsjúkdómum.