Morgunblaðið - 31.08.2018, Side 21
hana. Það var í raun eins og
systkinin væru fjögur.
Á unglingsárunum hægðist á
heimsóknum en þeim mun oftar
hittust strákarnir „online“ til að
spila tölvuleiki. Ennþá sáumst
við þó í fjölskylduboðum, sem
voru misvinsæl hjá unglings-
drengjum, og strákarnir mínir
spurðu iðulega: Verða Jökull og
Birkir? Það þótti vart þess virði
að mæta nema þeir kæmu líka.
Birkir Fannar var ekki mikið að
tjá tilfinningar sínar og það að
faðma móðursystur sína var ekki
efst á lista. Ég hafði því mjög
gaman af því að knúsa hann þeg-
ar við hittumst. Faðmlögin lét
hann yfir sig ganga og svei mér
ef það glitti ekki í smá bros.
Ein áramótin sátu barnabörn-
in í kringum ömmu sína ásamt
Gauta móðurbróður þeirra.
Amman fullyrti að hún væri
göldrótt. Hún sýndi þeim vel
æfðan galdur til að sanna mál
sitt. Gúbbarnir voru þarna 17 og
19 ára og ekki á því að láta ömmu
plata sig svo auðveldlega. Enginn
gat fundið út hvernig galdurinn
var gerður og amman orðin ansi
ánægð með sig. Eftir mikil heila-
brot voru allir að gefast upp. Í því
hallar Birkir sér að ömmu sinni
og hvíslar áhyggjufullur:
„Amma, Gauti er að leita að
lausninni á netinu.“ Hann hafði
séð prakkarasvipinn á frænda
sínum og fannst ómögulegt að
hann myndi ná að skemma fyrir
ömmu hans. Ekki náðist að
stöðva frændann sem sigri hrós-
andi fann lausnina. Það var mikið
hlegið að öllu saman en viðbrögð
Birkis lýsa honum vel. Hann stóð
með ömmu sinni.
Um verslunarmannahelgar
hefur sú hefð myndast að hittast í
sveitinni. Birkir var þar í farar-
broddi og mætti alltaf. Þá var
ómissandi að „sveita sig upp“
sem gengur í megindráttum út á
að klæða sig eins sveitalega og
hægt er. Þá komu gamlar yfir-
hafnir, regnföt og húfur af ömmu
og afa að góðum notum. Frænd-
systkinin skemmtu sér alltaf jafn
vel við að klæða sig upp og mynd-
irnar varðveita yndislegar minn-
ingar. Um kvöldið var kveiktur
varðeldur, grillað, spjallað og
sungið saman. Ár hvert togaði
Hemrumarkarhátíðin í sveitinni
meira í en aðrar hátíðir, okkur
foreldrunum til mikillar gleði.
Það var mjög ljúft en líka sárt að
eyða síðustu verslunarmanna-
helgi með Birki Fannari sem þá
var orðinn mjög veikur. Fjöl-
skyldustundin var öllum ómetan-
leg og minningarnar lifa.
Við sjáumst seinna, Birkir
minn, og þá færðu knús frá
frænku.
Hjördís, Árni og börn.
Elsku systursonur minn, Birk-
ir Fannar, hefur kvatt þetta líf
aðeins 19 ára gamall eftir hetju-
lega baráttu við illvígt krabba-
mein. Það er óskiljanlegt þegar
ungt fólk er hrifið frá ástvinum
sínum, svo tilgangslaust og óend-
anlega sárt.
Birkir Fannar var einstaklega
vandaður og fallegur drengur, af-
ar hæglátur og virtist hafa yfir
sér einstaka ró og yfirvegun. Í
veikindum sínum barðist hann af
miklu æðruleysi og bjartsýni og
sást svo glöggt hve hann bjó yfir
sterkum persónuleika og óvenju
miklum þroska af ungum manni
að vera.
Margar og ljúfar eru minning-
arnar um Birki Fannar og standa
þá upp úr allar ómetanlegu fjöl-
skyldustundirnar í sveitinni þar
sem frændsystkinin áttu ótelj-
andi skemmtilegar stundir sam-
an við ýmislegt brask og brall.
Líklega er óhætt að fullyrða að
sveitin okkar átti ávallt stóran
stað í hjarta Birkis, enda var hon-
um mikið í mun að taka þátt í fjöl-
skylduhelgi nú síðsumars, og
lagði hann á sig ferðalag þrátt
fyrir að vera mikið veikur og
kvalinn. Sú samverustund fjöl-
skyldunnar er okkur ógleyman-
leg og afar dýrmæt.
Mér er afar minnisstætt þegar
Birkir Fannar var um tveggja
ára aldur, og var í næturpössun
hjá okkur. Við kvöldverðarborðið
átti ég í vandræðum með að fá
hann til að borða matinn svo ég
hugðist nota aðferð sem hafði
reynst mér vel fram til þessa með
öll mín börn. Það kölluðum við
kisuleikinn, hver matarbiti var í
þykjustunni kettlingur sem
þurfti að komast inn í munninn
og ofan í maga til mömmu sinnar
sem þar dvaldi. Öll börnin höfðu
jafnan áhugasöm gleypt hvern
bita og vildu gjarna hjálpa kett-
lingunum að komast til mömmu.
Það var ógleymanlegt þegar
Birkir, tveggja ára horfði á mig í
forundran og sagði; þetta eru
ekki kettlingar, þetta er matur!
Já það kom fljótt í ljós að dreng-
urinn var einstaklega skýr og
ákveðinn.
Minning elsku Birkis Fannars
okkar lifir og verður vandlega
varðveitt í hjörtum okkar alla tíð.
Elsku hjartans frændi minn,
hvíl í friði.
Ágústa og fjölskylda.
Það er sárt að þurfa kveðja
elsku litla frænda minn hann
Birki Fannar, sem nú er farinn
frá okkur aðeins 19 ára gamall.
Það er sagt að guðirnir elski þá
sem deyja ungir, en ekkert er
hægt að segja sem réttlætir það
þegar ungt fólk í blóma lífsins
þarf að kveðja svona fljótt. Birkir
fer nú á vit nýrra ævintýra þar
sem hans bíður nýtt hlutverk
annars staðar.
Það kom berlega í ljós á síð-
ustu mánuðum hversu ákveðinn
og sterkur karakter Birkir var.
Hann var til algerrar fyrirmynd-
ar hvernig hann tókst á við þær
erfiðu aðstæður sem hann var í.
Með aga, ákveðni og alltaf bjart-
sýni barðist hann eins og ljón al-
veg fram á síðustu stundu.
Bíberinn, eins og við kölluðum
hann oft, var klárlega mesti ljúf-
lingurinn í okkar fjölskyldu. Ég
passaði hann og Jökul bróður
hans oft þegar þeir voru litlir og
það voru alltaf auðveldustu skipt-
in þegar ég var fenginn til að
passa þegar ég passaði þá. Hann
var alltaf ljúfur sem lamb, nema
þegar kom að mat, þá var hann
mjög ákveðinn með hvað hann
vildi.
Stelpunum mínum fannst allt-
af gaman að fara í heimsókn til
Birkis frænda og spjalla við hann
um daginn og veginn, og það er
erfitt fyrir þær að skilja að Birkir
sé farinn frá okkur. Ég mun
leggja mig fram við að hjálpa
þeim að muna eftir Birki, frænda
þeirra sem var frábær fyrir-
mynd, skemmtilegur, efnilegur
námsmaður, góður vinur og sam-
viskusamur.
Ég vil minnast Birkis með
hans eigin jákvæðni að leiðar-
ljósi. Ég hugsa hlýtt til allra
þeirra góðu minninga sem ég átti
með honum, þegar ég passaði
hann þegar hann var lítill, allra
góðu stundanna í Hemrumörk,
ferðalaga erlendis og fjölskyldu-
hittinganna.
Hvíldu í friði, elsku frændi,
minningin þín lifir áfram í hjört-
um okkar allra og við munum
aldrei gleyma þér.
Gauti frændi og fjölskylda.
Margur einn í aldurs blóma
undi sæll við glaðan hag,
brátt þá fregnin heyrðist hljóma:
Heill í gær, en nár í dag. –
Ó, hve getur undraskjótt
yfir skyggt hin dimma nótt!
(Björn Halldórsson)
Birkir Fannar, bróðursonur
minn, er farinn frá okkur aðeins
19 ára gamall.
Á haustdögum fyrir tæpu ári
kom í ljós að hann glímdi við ill-
vígt krabbamein. Góðar vonir
voru bundnar við að hægt væri að
ráða niðurlögum meinsins með
erfiðri meðferð. Þungur vetur fór
í hönd og menntaskólanámið var
sett í bið. Þegar vorið kom lauk
hann meðferð og horfur voru
taldar góðar. Skuggi sjúkdóms-
ins virtist ætla að hverfa með
sumargeislunum en þegar leið á
sumarið dró aftur ský fyrir sólu,
sjúkdómurinn reyndist enn til
staðar. Hvað er lífið? Logi veik-
ur, lítil bóla, hverfull reykur.
Birkir Fannar var um margt
óvenjulegur drengur, hann var
fríður sýnum, með einstaklega
falleg augu, mikill ljúflingur sem
hafði góða nærveru, því fékk ég
svo vel að kynnast þegar við
fengum að gæta hans þegar hann
var lítill. Birkir Fannar var
skarpgreindur, hafði ákveðna
framtíðarsýn, óvenjulegt sálar-
þrek, góða lund og mikinn vilja-
styrk, ekki ólíkt Bergljótu föður-
systur sinni sem lést úr
krabbameini langt um aldur
fram. Hjá þeim báðum kom það
ekki síst fram í erfiðum veikind-
um þeirra.
Það hafa verið þung og erfið
spor fyrir aðstandendur síðustu
vikurnar að fylgjast með því
hvernig heilsu Birkis hrakaði
þrátt fyrir að allt væri gert til að
ná bata. Elskulegur Birkir Fann-
ar okkar hefur nú verið leystur
frá þrautum, hann sofnaði inn í
síðsumarsöng fuglanna sem
pabbi hans hefur svo gaman af að
fylgjast með.
Megi góður Guð styrkja for-
eldra hans, Maríu og Hörð, bróð-
ur hans Jökul Frey og aðra að-
standendur sem báru með
honum sjúkdómsbyrðina þungu
uns yfir lauk. Minningin um ynd-
islegan dreng mun ætíð geymast.
Legg ég nú bæði líf og önd
ljúfi Jesú, í þína hönd
síðast þegar ég sofna fer
sitji guðs englar yfir mér.
(H. Pétursson)
Áslaug Sif Guðjónsdóttir.
Elsku Birkir.
Ég man þegar við lékum okk-
ur endalaust saman í sveitinni
hjá ömmu og afa frá morgni til
kvölds. Við hlupum um malar-
vegina með trésverðin sem við
höfðum smíðað saman í skemm-
unni hans afa og földum okkur
bak við trén. Amma var sjaldan
ánægð þegar við komum upp í
Efra með endalausan mosa í hos-
unum og við þurftum alltaf að
fara úr þeim. Svo gaf hún okkur
ömmu djús og eitthvað gómsætt
að borða. Manstu eftir því?
Ég man þegar við bjuggum til
virki úr koddum og teppum í
Gerðhömrum og þegar við feng-
um þá dýrindis hugmynd að það
væri sniðugt að hoppa á trampól-
íninu úti í garði í heimagerðri
brynju á meðan hinir skutu með
loftbyssu á okkur. Manstu eftir
því?
Ég gæti setið hér í allan dag
og rifjað upp endalausar minn-
ingar, allt frá því þegar við sátum
rólegir saman í heita pottinum að
spjalla, yfir í þegar við hlupum
eins hratt og við gátum hvor á
eftir öðrum með teygjubyssur.
Þú varst og ert frábær frændi
og ég hefði ekki getað óskað mér
betri. Ég mun varðveita minn-
ingu þína svo lengi sem ég lifi,
takk fyrir að hafa verið til. Ég
sakna þín.
Þinn
Hinrik Orri.
Við bræðurnir eigum margar
góðar minningar um okkur með
Birki Fannari frænda. Hemr-
umarkarhátíðirnar voru mjög
vinsælar hjá okkur, sérstaklega
undanfarin ár eftir að við vorum
orðnir eldri. Eitt árið mættum
við allir þrír í sveitina á hátíðina
og þarna vorum við sennilega all-
ir að pakka í fyrsta skipti sjálfir í
töskuna.
Að minnsta kosti vorum við
með lítið annað en tannbursta og
sokka. Það var frekar kalt þetta
árið og við sáum fljótt að við
þyrftum að finna okkur einhverj-
ar aukaflíkur. Við fórum og
grömsuðum í gömlum fötum af
afa og ömmu og klæddum okkur í
eins mikið og við gátum. Því
skrýtnara því betra. Þegar við
vorum tilbúnir þá leit Birkir á
okkur og sagði: „Nú erum við
búnir að sveita okkur upp!“ og
þar með byrjaði hefðin „að sveita
sig upp“ hjá okkur frændsystk-
inum.
Birkir var alltaf mjög rólegur
og yfirvegaður. Hann talaði aldr-
ei illa um aðra eða dæmdi þá af
útlitinu. Ef einhver var að bak-
tala aðra þá þagði Birkir eða
reyndi að breyta um umræðu-
efni. Mér fannst það alltaf ótrú-
lega flottur eiginleiki sem ég hef
reynt að tileinka mér.
Minningarnar um Birki
frænda munu alltaf fylgja mér.
Tómas Logi.
Elsku frændi, mikið finnst mér
lífið ósanngjarnt að þú hafir í
blóma lífsins þurft að kveðja
þennan heim. Þú ætlaðir að sigra
þennan vágest og varst á góðri
leið með það, að við héldum. Í
byrjun júní kláraðist stofnfrumu-
meðferðin og þú útskrifaðist fyrr
úr henni heldur en læknarnir
voru búnir að áætla, það var á
þeim degi sem þú varst búinn að
ákveða. Þú varst alltaf með allt
þitt á hreinu gagnvart þessum
sjúkdómi og hvernig þú ætlaðir
að fara að þessu. En svo fór plan-
ið úr skorðum um miðjan júlí
þegar krabbameinið tók sig upp
af krafti og á rúmum mánuði náði
það að sigra þig.
Elsku Birkir minn, þú hefur
alltaf verið litli frændi minn en í
vetur fékk ég að kynnast þér með
öðrum hætti. Þar sem ég er að
vinna á spítalanum fjölgaði okkar
fundum og ég fékk að kynnast
betur þeim yndislega unga manni
sem þú hafðir að geyma. Við
þögðum saman og ræddum sam-
an um heima og geima, framtíð-
aráætlanir, ferðalög, sjónvarps-
efni og margt fleira. Þú ætlaðir
að fara aftur í MH og klára stúd-
entinn, svo í Háskólann og klára
sálfræði og svo í framhaldsnám
til Englands í einhverskonar af-
brotasálfræði. Svo innilega ósk-
aði ég þess að þessi draumur
hefði ræst. Mann skortir orð og
að sjá tilgang, af hverju svona
fór. En elsku Birkir, takk fyrir
allar gæðastundirnar okkar síð-
astliðið ár, ég hefði óskað þess að
þær hefðu orðið svo miklu, miklu
fleiri. Ég veit að þér líður vel
núna og ert laus úr þessum viðj-
um. Við sjáumst seinna.
Elsku Hörður, María, Jökull
og aðrir ástvinir, megi Guð
styrkja ykkur á þessum erfðu
tímum.
Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins
blóm
er verður að hlíta þeim lögum
að beygja sig undir þann
allsherjardóm
sem ævina telur í dögum.
Við áttum hér saman svo indæla
stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu genginn á guðanna fund,
það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Steingrímsson)
Þín frænka,
Sigríður Karlsdóttir.
Það var um jólin 1998 að beðið
var eftir honum. Hann var ekkert
að flýta sér. Hinn 2. janúar 1999
kom hann í heiminn bjartur og
fallegur drengurinn. Ómæld var
gleði foreldranna en ekki síður
stóra bróður, Jökuls Freys, sem
var þá að verða fjögurra ára
gamall. Birkir Fannar óx og
dafnaði við gott atlæti foreldra
sinna og ekki síður bróður síns,
sem sá stutti elti eins og skugg-
inn um allt. Alltaf fékk hann að
vera með í leikjum þeirra Jökuls
og vina þótt að nær fjögur ár
væru á milli þeirra. Þannig var
hann mótaður af ómældri ást og
umhyggju sinna nánustu. Við
minnumst samverustundanna og
geymum þá dýrgripi í hjarta okk-
ar um ókomna tíð, þótt að nú um
stundir sé þar nístandi sársauki
söknuðar og sorgar. Minningar
úr sveitinni hans, þar sem ungir
og aldnir léku saman daglangt
eru ófáar. Lítil eyru sem námu
hvert orð sem sagt var. Glottið og
gleðin. Húmorinn. Erfitt að sofna
og missa mögulega af einhverju
sniðugu. Bibbi og Doji á kvöld-
vökunni. Allir góðu frasarnir
hans: „Maðarklósett, ég elska
þetta ekki gott, ég er alveg takk
saddur, nerbóbuxer, og toppaðu
það.“ Svo var það unglingurinn
16 ára mættur í sumarvinnuna.
Samviskusamur, stundvís, dug-
legur og bráðlaginn. Við kveðjum
ástkæran vin, bjartan, fallegan
og hjartahlýjan dreng sem er
fallinn frá eftir miskunnarlausa
glímu við hörmulegan sjúkdóm.
Við stöndum eftir. Við skiljum
ekki. Djúp eru sár bróður, for-
eldra, fjölskyldu og vina. Við vilj-
um trúa því að tíminn og minn-
ingarnar veiti líkn.
Halldór og Guðrún
(Dóri og Gunna).
Í dag, 31. ágúst, kveðjum við
yndislegan fjölskylduvin, Birki
Fannar Harðarson, sem lést 22.
ágúst eftir harða baráttu við ill-
vígt krabbamein. Það er óbæri-
lega sorglegt og óskiljanlegt öll-
um. Birkir Fannar var aðeins 19
ára og vildi lifa, ekki deyja. Hann
var ljúfur, rólegur, fyrirhyggju-
samur, sjálfstæður og hafði plön
fyrir framtíðina. Við viljum trúa
því að honum hafi verið ætlað
annað og stærra hlutverk á öðr-
um stað.
Birkir Fannar var heppinn
með fjölskyldu, foreldra sína,
Hörð og Maríu, Jökul bróður
sinn, Jón Axel stjúpföður og stór-
fjölskyldu sína sem elskuðu hann
heitt, hugsuðu vel um hann og
leiðbeindu honum þegar þess var
þörf og umvöfðu hann ást og um-
hyggju þegar hann tókst á við
stærsta verkefni lífs síns síðast-
liðið ár, svo mikið að stundum
fannst Birki Fannari sjálfum nóg
um enda vanur að bjarga sér
sjálfur.
Við vorum heppin að hafa
kynnst Birki Fannari og fengið
að skapa með honum og fjöl-
skyldu hans góðar og dýrmætar
minningar. Sumarið 2017 fengum
við svo einnig að njóta starfs-
krafta hans í Brimborg þar sem
hann réð sig í sumarvinnu við
lagerstörf. Þar komu vel í ljós
hans styrkleikar og sinnti hann
því starfi svo að til algjörrar fyr-
irmyndar var og var vel liðinn
meðal samstarfsmanna sinna.
Við fjölskyldan ætlum að
muna öll fallegu 19 árin sem
Birkir Fannar lifði eins og María
minnti okkur vini og fjölskyldu
svo fallega á skömmu eftir fráfall
Birkis Fannars og að vanda okk-
ur í lífinu honum til heiðurs.
Takk fyrir samfylgdina, elsku
vinur, og að leyfa okkur að vera
með að skapa þær dýrmætu
minningar sem við eigum í dag og
munum sjá til þess að verði hald-
ið á lofti. Hvíldu í friði.
Margrét, Jón, Alexander
Breki, Helena Sveinborg og
Hanna Margrét.
Elsku Birkir, ó hvað við sökn-
um þín mikið.
Traustur, ljúfur og vinalegur
eru orðin sem koma fyrst upp í
huga okkar þegar við hugsum um
þig. Persónuleikinn þinn var afar
eftirminnilegur og skemmtileg-
ur, við erum öll sammála því að
vinátta myndaðist fljótt þegar við
kynntumst þér og varð hún bara
sterkari með tímanum. Það skipti
ekki máli hve langt leið á milli
þess að við hittum þig, það var
alltaf eins og við hefðum hist í
gær.
Þegar það kom að félagslífi
léstu þig aldrei vanta. Viðburðir
innan sem utan skóla, þú varst
alltaf til í allt. Við getum með
sanni sagt að allir nutu nærveru
þinnar. Svo almennilegur, vina-
margur og hjálpsamur.
Þú settir þarfir þinna nánustu
alltaf í fyrsta sæti og einkenndi
það þig að mörgu leyti sem ein-
stakling.
Lífið getur verið svo ótrúlega
ósanngjarnt, þú varst tekinn frá
okkur alltof fljótt. En við erum
svo óendanlega þakklát og hepp-
in að hafa fengið að kynnast þér.
Við munum varðveita allar góðu
minningarnar sem við áttum með
þér.
Þó sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý,
því burt varst þú kallaður á örskammri
stundu
í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga
og góða
svo fallegur, einlægur og hlýr
en örlög þín ráðin; mig setur hljóða
við hittumst ei aftur á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma
gæta að sorgmæddum, græða djúp
sár
þó kominn sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Höf. ókunnur)
Þín verður sárt saknað, elsku
Birkir okkar, hvíl í friði.
Þínir vinir,
Daníel Andri, Eiríkur
Skúli, Embla Nanna,
Harpa Mjöll, Nína
Lovísa, Olgeir Þorkels-
son, Ólavía Rún,
Petra Baldursdóttir.
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 31. ÁGÚST 2018
Allar minningar
á einum stað
MINNINGAR er fallega innbundin bók sem hefur að
geyma æviágrip og allar minningargreinar sem birst
hafa um viðkomandi í Morgunblaðinu eða á mbl.is.
Bókina má panta á forsíðu mbl.is eða á slóðinni
mbl.is/minningar.
Hægt er að kaupa minningabækur með greinum sem birst hafa
frá árinu 2000 til dagsins í dag.