Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.08.2018, Side 31
Trump var kjörinn. Þeir kröfðust þess að forsetinn
hætti þegar í stað við fundinn með Pútín.
Hefðbundnu fjölmiðlarnir fjölluðu um þessar ákærur
með þeim hætti að ætla mætti að þeir hefðu ekki lesið
þær. Hér heima létu hinir ólesnu á fréttastofu „RÚV“
eins og venjulega. Þeir hefðu betur hlustað fyrst á
lagaprófessorinn Alan Dershowitz, einn frægasta verj-
anda Bandaríkjanna, sem reyndar hefur verið talinn til
„frjálslyndra afla“ vestra, þ.e. demókrata.
Prófessorinn benti á hið augljósa að ákærur sak-
sóknara væru alla tíð aðeins önnur hlið málsins. Slíkar
ákærur þyrfti að sannreyna fyrir dómi. Í þessu tilviki
hefðu ákærendur þó ekki neinar áhyggjur af þeim
þætti, því að þeir vissu að enginn dómstóll myndi
nokkru sinni líta á þær. Þeir gætu því sagt hvað sem
væri þar.
Hefðu hinir ólesnu lesið ákærurnar þá hefðu þeir
sennilega orðið gáttaðir.
Hinir ákærðu Rússar voru sagðir beintengdir við
menn sem væru sennilega beintengdir við Kreml. Þeir
hefðu ætlað sér að fremja skemmdarverk í bandarísku
alríkiskosningunum. Saksóknarar teldu ljóst að þeir
hefðu varið til þess verks 95.000 dollurum!
Saksóknararnir ákváðu að ákæra Rússa fyrir pen-
ingaþvott vegna þeirrar fjárhæðar. Rússland ætlaði
sér með öðrum orðum að fremja hermdarverk á
bandarískum kosningum og veittu til þeirrar atlögu
upphæð sem svarar til tíu milljóna íslenskra króna.
Það hljómar sem svipuð upphæð og sú sem var sögð
hafa verið notuð til að hafa áhrif á kosningar til stjórn-
ar Neytendasamtakanna!
Þeim hefur farið stórlega aftur þarna í Kreml því
þetta er aðeins brot af framreiknuðum upphæðum sem
þaðan var veitt til stjórnmálastarfsemi íslenskra sósíal-
ista forðum tíð, sem Samfylkingin nýtur nú góðs af í
skrifstofum sínum og mætti þó margfalda þær upp-
hæðir með 1.000 vegna stærðarmunar þjóðanna.
Upp- og eftirköst
En Trump gerði ekkert með þetta upphlaup fremur en
önnur úr sömu átt og átti sinn fund með Pútín. Fund
sem Henry Kissinger sagði nýlega í viðtali við FT að
hefði verið algjörlega óhjákvæmilegt að halda og fyrir
löngu kominn tími á.
En þegar menn þóttust geta lesið það úr orðum for-
seta Bandaríkjanna á blaðamannafundi að hann tæki
jafnmikið mark á yfirlýsingum Pútíns og bandarískrar
leyniþjónustu, þótti góðkunningjum í fréttaveitum
vestra að eitthvað hryllilegt hefði gerst.
John Brennan, sem verið hafði forstjóri CIA og er nú
launaður álitsgjafi hjá CNN, dró ekki af sér. Hann
sagði Trump hafa gert sig sekan um landráð. Við því
liggur að dæma skuli þann mann til dauða í Bandaríkj-
unum.
Brennan þessi hefur svo oft gerst sekur um dóm-
greindarleysi og vanstillingu síðustu ár og að fara hvað
eftir annað eiðsvarinn með skrök við yfirheyrslur þing-
nefnda að stórundarlegt er að Obama hafi gert hann að
forstjóra CIA.
Trúa skal leyniþjónustum
hvað sem tautar
Og öll vinstrielítan hefur nú algjörlega skipt um kúrs.
Henni finnst algjörlega ómögulegt að CIA og öllum
hinum 16 leyniþjónustunum skuli ekki trúað eins og
nýju neti hvenær sem þær hósta einhverju upp.
Öðruvísi mörgum áður brá.
Það hefur nú legið fyrir í hálfan annan áratug að það
reyndist heldur lítið að marka CIA þegar hún fullyrti
að Saddam Hussein hefði komið sér upp gereyðing-
arvopnum og undirstrikaði að sú fullyrðing væri hafin
yfir allan vafa („slam dunk“ á körfuboltamáli).
CIA með sína 300.000 starfsmenn komst ekki að því
að Sovétríkin væru að hrynja fyrr en eftir að Austur-
Þjóðverjar tóku að hrúgast yfir múrinn. Það gerði svo
sem ekki mikið til. Verra var það, að 6-7 árum fyrr
missti CIA algjörlega af því hvað var að gerast í Kreml
þegar Andropov, þáverandi Sovétleiðtogi, var farinn á
taugum og taldi að flest benti til að Bandaríkin væru að
hefja kjarnorkuárás á Sovétríkin og þau neyddust
sennilega til að verða fyrri til! (Sjá Taylor Downing:
1983 Reagan, Andropov and a World on the Brink).
Robert Gates, síðar varnarmálaráðherra, sem þá var
aðstoðarforstjóri CIA, hefur fjallað um þessa atburði
með sláandi hætti og hversu alvarlegir þeir voru, og
einkum það að leyniþjónustan hafði engan pata haft af
því sem var að gerast!
Þá má ekki gleyma því að þrír forkólfar leyniþjónust-
anna trítluðu til Obama fráfarandi forseta og Trumps
nýkjörins forseta með nú alræmda aðkeypta samsuðu
fyrrverandi njósnara Breta, Christopher Steele, sem
kosningastjórn Hillary Clinton hafði pantað og greitt,
eins og um stóralvarlegt plagg væri að ræða. Þeir
hefðu eins getað tölt um með notaða matreiðslubók.
Sú „skýrsla“ er hinn raunverulegi grunnur að hinni
skrítnu rannsókn sérstaks saksóknara.
Það er algjörlega óskiljanlegt að allur sá aðdragandi
hafi ekki verið rannsakaður í þaula.
Kannski kemur að því.
Því fyrr því betra.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
’
Verra var það, að 6-7 árum fyrr missti
CIA algjörlega af því hvað var að gerast
í Kreml þegar Andropov, þáverandi Sovét-
leiðtogi, var farinn á taugum og taldi að flest
benti til að Bandaríkin væru að hefja kjarn-
orkuárás á Sovétríkin og þau neyddust senni-
lega til að verða fyrri til!
5.8. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31