Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Qupperneq 19
19Ljósmæðrablaðið - júní 2013
Fæðingarsaga frá Spáni
María Rebekka Þórisdóttir
nemi í ljósmóðurfræði
N e m a v e r k e f n i
Fæðingarsagan sem hér fer á eftir er áhuga-
verð fyrir margra hluta sakir, en í henni segir
ljósmóðurnemi frá reynslu sinni af því að fæða
barn á Spáni. Öllum er okkur hætt við að verða
samdauna okkar eigin umhverfi og missa
sjónar á sérstöðu þess, bæði því góða og því
slæma, og því getur verið gagnlegt að spegla
sig í mynd af öðrum heimi. Í hugum flestra
Íslendinga er Spánn hvorki framandi né fjar-
lægur, en menningin sem birtist í barneignar-
þjónustunni virðist engu að síður gerólík því
sem við eigum að venjast.
Lestur sögunnar vekur okkur til umhugs-
unar um það sem er dýrmætt í þjónustunni hér
á landi og við viljum ekki missa. Hún minnir
okkur einnig á faglega ábyrgð okkar gangvart
konum sem eru ókunnar okkar eigin menn-
ingarheimi og barneignarþjónustu.
Berglind Hálfdánsdóttir
María Rebekka Þórisdóttir heiti ég og er á
fyrsta ári í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.
Ég ætla að deila með ykkur sögu af fæðingu
yngsta barnsins míns. Ég eignaðist fimmta
barnið mitt á Spáni fyrir fjórum árum og er
sú saga á margan hátt sérstök þar sem ætla
mætti að hún hafi gerst fyrir 100 árum en ekki
fjórum. Hún sýnir vel hvað við höfum náð
langt á Íslandi, allavega í fæðingarþjónustu,
og hversu mikilvægt er fyrir okkur að huga
vel að vaxandi fjölda erlendra kvenna sem
fæða á Íslandi, því það er ekki einfalt að vera
á ókunnum stað, tala ekki tungumálið eða tala
það illa og vera í fæðingu.
Ég bjó ásamt fjölskyldu minni í litlum bæ í
Murcia-héraði á Spáni. Þegar ég varð ófrísk fór
ég í meðgöngueftirlit hjá fæðingarlækni en ekki
hjá heilsugæslunni. Við tókum þá ákvörðum
því vinahjón okkar sem áttu líka von á barni og
voru spænsk ráðlögðu okkur þetta því mæðra-
eftirlitið væri ekki nógu gott. Ég fór á ca 6‒8
vikna fresti til læknis og fór í þrívíddarsónar í
hvert skipti, allt voðalega flott. Ég borgaði vel
fyrir þessa þjónustu en var á sama tíma viss
um að allt væri í lagi með barnið og treysti
lækninum vel. Ég fór náttúrlega á mis við þá
fræðslu sem mæðraverndin veitir, en þar sem
þetta var mitt fimmta barn lét ég það ekki á mig
fá enda veit ég ekki hversu góð eða ítarleg sú
fræðsla var. Ég vissi að ég yrði að eiga barnið
mitt á spítalanum sem við tilheyrðum en vina-
hjón okkar voru búin að segja okkur að hann
væri ekki sá besti en bara fínn.
Þegar leið á meðgönguna benti læknir-
inn okkur á fræðslufund sem gott væri fyrir
okkur að fara á og væri um verkjameðferðir
í fæðingu. Við ákváðum að skella okkur og
urðum mjög hissa þegar sá fundur var búinn
því hann gekk eingöngu út á það að selja okkur
hugmyndina um epidural-deyfingu. Hún var
dásömuð í hástert en ekki minnst á vankanta
hennar. Maður fékk þá tilfinningu að verið
væri að reyna að fá allar konur til að fá deyf-
ingu. Til að byrja með náði ég ekki alveg af
hverju, en svo áttaði ég mig á því þegar ég var
sjálf komin af stað í fæðingu. Ég var búin að
ganga í gegnum fjórar fæðingar áður og ætlaði
sko ekki að fara að fá deyfingu í þeirri fimmtu.
Ég missti vatnið heima að morgni Valen-
tínusardags, 14. febrúar 2009. Þá helltist yfir
mig kvíði, ég vissi í rauninni ekkert út í hvað
ég var að fara þar sem ég var á ókunnum stað,
talaði tungumálið ekki mjög vel og þekkti
spítalann ekki neitt. Ég var samt spennt og
við hjónin drifum okkur upp á spítala. Þegar
þangað kom vorum við látin bíða á biðstof-
unni eftir að læknir losnaði. Biðstofan var
full af fólki og maður sá og heyrði að margir
aðstandendur voru að bíða eftir barnsfæðingu.
Biðstofan var ekki stór, málningin flögnuð af
veggjunum og bara áfastir bekkir meðfram
veggjum, ekkert annað húsgagn. Þetta var
frekar niðurdrepandi umhverfi og ferlegt að
þurfa að sitja þarna með handklæði á milli
fótanna. Ég var svo skoðuð en þar sem ég var
ekki byrjuð í fæðingu þá var mér vísað inn á
stofu þar sem ég átti að bíða eftir að allt færi í
gang eða að ég yrði gangsett morguninn eftir.
Þetta var ekki stofa á meðgöngu eða
fæðingardeild því að við hliðina á mér lá kona
sem hafði verið í aðgerð. Stofan var mjög
subbuleg, gular skítarendur við klósettið og
allt mjög lítið spennandi. Ég hugsaði með
mér að ég færi örugglega á sængurdeild eftir
fæðinguna og lét mig hafa þetta. Ákvað bara
að hvíla mig. Ég man ekki alveg hvernig þessi
dagur leið, allavega lá ég bara þarna og konan
í rúminu við hliðina var stöðugt með gesti hjá
sér, greinilega engir sérstakir heimsóknar-
tímar. Þegar líða tók á daginn kom inn til mín
kona, sem ég ákvað að væri örugglega hjúkka,
og sagði mér að leggjast aðeins á hliðina. Ég
skildi hana ekki alveg en hún sýndi mér með
handapati hvað ég átti að gera. Áður en ég gat
nokkuð að gert var hún búin að taka niður um
mig og byrjuð að gefa mér stólpípu. Mér varð
svo um að ég vissi ekkert í minn haus. Þunnt
tjald var á milli mín og konunnar við hliðina
á sem var með allavega þrjá gesti hjá sér. Guð
minn góður, þvílík niðurlæging. Ég held að
mér hafi aldrei liðið eins illa. Svo þegar þetta
var búið fór hún fram en ég lá eftir í spreng á
stofu með fullt af fólki sem vissi auðvitað alveg
hvað var í gangi hinum megin við tjaldið. Ég
man að ég hljóp inn á baðherbergi og hágrét.
Maðurinn minn var hjá mér og ég veit að hann
var alveg jafn miður sín yfir þessu öllu saman
og ég. Þegar ég hugsa um þetta núna þá sé
ég hversu mikið var brotið á mér, sbr. lög um
réttindi sjúklinga, að vita, skilja og samþykkja
þær meðferðir sem framkvæmdar eru (Lög um
réttindi sjúklinga nr. 74/1997).
Drengurinn minn ákvað að hann vildi ekki
vera lítill Valentínus því ég fór ekki sjálf af
stað og kl. 9.00 morguninn eftir var ég gang-
sett. Þá fyrst kom áfallið. Mér var vísað inn
á stofu þar sem fimm rúm voru í röð við
vegginn. Í öllum rúmum voru konur í byrj-
andi fæðingu. Þarna var okkur tjáð að maður-
inn minn yrði að bíða frammi og kallað væri
á hann þegar barnið væri fætt. Ég man að við
skildum þetta ekki alveg, gæti það verið að
hann mætti ekki vera hjá mér í fæðingunni?
Jú, það kom á daginn að ég átti að gera þetta
ein. Þetta var mikið áfall fyrir okkur bæði.
Hann greyið átti að sitja frammi á „flottu
biðstofunni‟ sem við vorum á daginn áður, þar
sem nafn pabbanna var kallað upp í hátalara-
kerfi spítalans þegar barn þeirra var fætt,
og ég átti að fara í gegnum fæðingu fimmta
barnsins okkar EIN. Svo var bara byrjað að
setja upp nál og dreypinu komið af stað og
ég fann fljótlega fyrir verkjum. Þá ákvað ég
að kalla eftir epidural, því ef einhvern tíma
væri þörf á deyfingu þá væri það núna. Ég
ætlaði sko ekki að liggja alein og þjást með
ókunnugum konum mér við hlið. Nú skildi ég
betur af hverju öllum konum var ráðlagt að fá
deyfingu, þægilegra fyrir starfsfólkið og fyrir
konurnar sjálfar. Eins og Ina May segir í bók
sinni að utanbastsdeyfing sé góð fyrir stofn-
unina á þann hátt að halda konum þægum og
hljóðum í rúminu á meðan á fæðingu stendur