Litli Bergþór - 01.12.2015, Síða 3

Litli Bergþór - 01.12.2015, Síða 3
Litli-Bergþór 3 Ritstjórnargrein Það hefur áreiðanlega ekki farið framhjá neinum að í ár eru liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt. Hátíðarhöld hafa verið um allt land í tilefni þess og á hverjum sunnudegi höfum við fengið að horfa á mjög skemmtilega og fróðlega þætti sem taka á ýmsu sem á daga kvenna hefur drifið á þessari öld sem liðin er. Þættirnir eru bara fimm mínútna langir og ég verð að viðurkenna að mér finnst tíminn nánasarlega naumt skammtaður. Ég hefði viljað sjá að minnsta kosti hálftíma langa þætti á hverjum sunnudegi og hefði mér ekki þótt það ofrausn. Margt hefur verið á döfinni en sérstaklega hefur verið skemmtilegt að fylgjast með ungum konum, sem alveg burtséð frá þessu afmæli, hafa slegið hnefanum í borðið og tekið upp ýmis málefni sem brenna á konum og hafa vakið mikla athygli á þeim. Má þar nefna „frelsum geirvörtuna“ og skelegga umræðu um kynferðisofbeldi. Hafa margar konur og reyndar nokkrir karlar líka, komið fram og sagt sögu sína um hvað hefur komið fyrir þau og hvernig það hefur haft áhrif á líf þeirra og líðan. Miklar umræður hafa spunnist um þessi mál og þykir mörgum nóg um en þolendur vilja ekki lengur láta þagga niður í sér og sögurnar halda áfram að koma fram í dagsljósið. Þolinmæði fólks er óðum að þverra gagnvart því sem lítur út fyrir að vera kynbundin mismunun í réttarkerfinu í þessum málaflokki. Fólk mótmælir því sem því finnst vera undarlegir sýknudómar þegar um ungar stúlkur er að ræða á meðan að felldir eru jafnvel býsna þungir dómar þegar brotaþoli er karlkyns. Jafnvel er talið að sú staðreynd að karlmenn sitji nánast eingöngu í hæstarétti geti haft áhrif á hvernig dæmt er í þessum málum þar. Ekki ætla ég mér þá dul að vita hvort svo er en það er vissulega mikið umhugsunarefni að ekki skuli vera fleiri konur í hópi dómara. Ekki má gleyma siguratriði Skrekks. Þar mátti heyra rödd barnungra stúlkna um hvernig þær upplifa það að vera kvenkyns í þessu samfélagi og ég verð að viðurkenna að mér finnst niðurdrepandi að heyra að ennþá skulum við vera að glíma við svona mikla hlutgervingu kvenna. Ég held að það væri mjög þarft að koma á fræðslu til barna og unglinga um að klám eigi ekkert skylt við kynlíf og þarf sú fræðsla að byrja a.m.k. um 10 ára aldurinn þar sem rannsóknir sýna að ungir drengir (og kannski stúlkur líka) eru farnir að skoða klám á þeim aldri eða fljótlega upp úr því. Hugsanlega mætti flétta þetta inn í lífsleiknina í skólum. Inn á milli heyrast raddir nokkurra karlmanna sem eru óánægðir með að konur skuli ekki halda á lofti því óréttlæti sem þeir verða fyrir, þar sem þeir verða auðvitað líka fyrir alls konar ofbeldi, bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Það bendir til þess að það vanti mjög vakningu á meðal karla um að þeir verði sjálfir að taka sinn slag, það eru þeir sem búa yfir sinni reynslu og vita best hvað er að angra þá og hvernig sé best að taka á því. Kannski kominn tími til að þeir fari að ræða um reynsluheim karla. Samt er gleðilegt að það eru æ fleiri karlmenn sem stinga niður penna um þessi málefni og mættu gjarnan vera fleiri þar sem ég vil ætla að það séu fæstir karlmenn fylgjandi ofbeldi í garð kvenna. Mér svíður þó alltaf mest kynbundna launamisréttið sem viðgengst ennþá og ég skil ekki hvernig getur staðið á því. Það getur ekki verið neinu um að kenna öðru en viljaleysi til breytinga og óendanlegri þolinmæði kvenna gagnvart þessu. Af hverju erum við ekki fyrir löngu komnar í verkfall til að fá þessu breytt? Á meðan að við sjálfar gerum ekkert róttækt til að breyta þessu þá gerist auðvitað ekki neitt! Við eigum ekki að láta endalaust ljúga að okkur að þjóðfélagið fari á hliðina ef við fáum laun til jafns við karlmenn. Það mun ekki gera það! Væri það ekki verðugt verkefni fyrir árið 2016 að koma launajafnréttinu í gegn? ST Ég er reyndar orðlagður kvenrétt- indamaður!

x

Litli Bergþór

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.