Litli Bergþór - 01.12.2015, Side 30

Litli Bergþór - 01.12.2015, Side 30
30 Litli-Bergþór Amma mín dó það sama ár, svo Steina föðursystir mín tók heimilið að sér. Jón afi var „afi minn“ með stórum staf, sá eini sem ég kynntist og í miklu uppáhaldi hjá mér. Móðir mín var Reykvíkingur, ættuð í móðurætt frá Fáskrúðsfirði af Longætt en í föðurætt af Álftanesi, skyld Kristínu konu Haraldar Matthíassonar á Laugarvatni. Mér hefur orðið ljóst eftir að ég fullorðnaðist, að móðir mín var að mörgu leyti óvenjuleg kona og á undan sinni samtíð. Við áttum sumarbústað við Meðalfellsvatn, sem byggður var 1930, upphaflega sem veiðihús. Þar var ekki mikill íburður eða þægindi, en eftir skóla fluttum við öll sumur með móður okkar í sumarbústaðinn og vorum þar allt sumarið. Faðir minn kom um helgar, annars var hann að vinna í bænum. Mamma hafði gaman af að veiða, við áttum bát og ég réri oft með henni út á vatnið að veiða. Það sem ekki var notað af aflanum var farið með suður og selt. Móðir mín klæddi sig eins og henni sýndist og var oftast í síðbuxum, sem ekki var algengt þá. Foreldrar mínir voru reyndar bæði fyrir veiðar og pabbi fór í margar ár að veiða á flugu. Hann flutti sjálfur inn mikið af veiðiútbúnaði, m.a. flugur, byssur og ýmislegt annað veiðidót og var mikil skytta á rjúpu og gæs. Ég fór alltaf með þeim upp að Norðurá í veiðiferðir, þar voru þau í viku með vinum pabba. Mamma var með stöng, meðan konur hinna veiðifélaganna voru í göngutúrum. Á kvöldin var sest inn í setustofu, mamma í sparibuxum og í góðri blússu, en hinar uppáklæddar og málaðar. Ég skammaðist mín hálfpartinn fyrir hana þegar ég var yngri, en nú dáist ég að henni. Mamma var þarna í sumarbústaðnum með okkur öll stríðsárin og það var mikið af hermönnum í kringum okkur. Hermennirnir voru að tjalda í nágrenninu og fengu lánaðan bátinn til að veiða. Mamma vorkenndi þeim greyjunum. Við upplifðum það að sjá þýska flugvél skotna niður. Hún komst yfir Eyjadalinn, en hrapaði svo niður í hlíðina. Annar vængurinn datt af niður í dalinn og var mikill happafengur fyrir fólkið á Eyjum, álið var nýtt til ýmissa hluta. Þegar ég var 14 ára fór ég í fjallgöngu upp í þennan dal og sá þá flakið á fjallinu. Eitt vissi ég ekki fyrr en eftirá, að það var hólf fyrir ofan útidyrnar í bústaðnum og þar var geymd skammbyssa ef kæmi til þess að við þyrftum að verja okkur. En við áttum margar yndisstundir þar. Húsið er ekki til lengur, en Kristrún dóttir okkar og Bjössi, maður hennar, keyptu landið og eiga það nú. Á veturna var ég í skóla, gekk í Austurbæjarskóla og síðan í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Og að loknu gagnfræðaprófi fór ég í Námsflokkana í ensku, bókhald o.fl. og eftir það í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Ég var líka alltaf í skátunum á veturna og í fimleikum í Ármanni og hafði gaman að því. Ég á enn mínar skátasystur, stelpur sem ég fór með í útilegur og á skíði í gamla daga. Þegar ég var 15 ára stóð til að halda alheims kvenskátamót í Noregi, en vegna lömunarveikisfaraldurs í Noregi var hætt við ferðina. En í staðinn fengum við miklu betri ferð, því við fórum til Skotlands og Englands, um 12 skátastelpur saman, á farþegaskipinu Heklunni. Gistum alltaf í tjaldi og kynntumst vel skosku stelpunum í tjaldbúðunum sem voru skemmtilegar. Þær ensku voru allt öðruvísi. Við fórum svo í lest til London og var þá boðið að gista í tvær nætur hjá æðsta kvenskátaforingja í heimi, Lady Baden Powell, sem var mikill heiður og mikið ævintýri. Við áttum skemmtilega æsku í sumarbústaðnum og á ferðalögum og skorti ekkert, og foreldrar mínir gáfu okkur gott veganesti út í lífið. L-B: en hvernig kom það til að þú fluttist austur í Biskupstungur. Halla: Margar vinkonur mínar sóttu um sumarvinnu á barnaheimilum Rauða-krossins í Laugarási og að Skógum, en ég varð of sein að sækja um. Ég heimsótti þær sumarið 1955 í Laugarás, og það var þá sem ég fór á ball á Vatnsleysu og sá Braga fyrst, en man ekki eftir að hafa talað við hann þá. Mér er það mjög minnisstætt, hvernig konurnar sátu allar í röð vinstra megin og karlarnir stóðu í hópum út við dyr og völdu sér dömu sem þeim leist á að dansa við. Gólfið í forstofunni hallaði svo að menn slöguðu um gólfið! Kristrún og Bjarni, foreldrar Höllu, á yngri árum.

x

Litli Bergþór

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.