Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 31

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 31
Litli-Bergþór 31 Ég man að Ingólfur á Iðu sótti okkur líka eitt sinn á báti til að fara á ball á Brautarholti. Ég þekkti ekki þessa ballmenningu frá Reykjavík, því þar var þetta allt öðru vísi. Við skólasystkinin dönsuðum bara á svokölluðum rekstrasjónum í Breiðfirðingabúð og í Oddfellowhúsinu milli kl. 2 og 4 á sunnudögum. Þar voru hljómsveitir og dansaðir nýju dansarnir. Aldrei man ég eftir að áfengi hafi verið haft um hönd þar. Sumarið eftir, 1956, réði ég mig síðan í vinnu við sumarbúðirnar í Laugarási, 18 ára gömul. Þar lærði ég að reykja og það var síðan á öðru balli á Vatnsleysu sem ég bað Braga um eld! Segir Halla kímin. Halla og Bragi um það leytið sem þau kynntust. Barnaheimilið í Laugarási var allt byggt úr timbri, langar svefnálmur byggðar út frá matsalnum. Húsið var upphaflega sjúkrahús uppi í Mosfellsdal og afi minn vann við að byggja það. Það var svo flutt í pörtum í Laugarás. Þarna voru tvær fóstrur með hverja deild, stelpur eins og ég og vinkonur mínar, með 30 börn á hverri deild. Börnunum var raðað eftir aldri í 4-5 deildir, um 150 börn alls. Á minni deild voru 5 til 6 ára strákar og einn var með þriggja ára bróður sinn með sér, sem svaf fyrir ofan mig allt sumarið. Á öðrum deildum voru bara stelpur og litlu krakkarnir voru í blönduðum hópum. Elstu strákarnir voru 8-9 ára. Ég var með Guðrúnu Árnadóttur vinkonu minni á herbergi og okkar verk var að gæta krakkanna úti allan liðlangan daginn, sama hvernig viðraði og þvo þeim svo og koma í rúmið á kvöldin. Aðrar konur sáu um þvotta og viðgerð á fötum. Þarna var ljósamótor, sem slökkt var á á kvöldin, við vorum því allar með olíulampa inni á herbergjunum. Klukkan 10 á kvöldin kom svo vökukonan með stóran Alladin-lampa. Það var Fanney, móðir Margrétar á Iðu. Ég var þarna eitt sumar. Seinna kom ég í heimsókn þangað og þá var margt orðið breytt. Minni agi, allt í niðurníðslu og strákarnir tóku á móti okkur með grjótkasti. Fyrsta veturinn eftir að við Bragi kynntumst var hann heima á Vatnsleysu og kom á tveggja mánaða fresti í bæinn að heimsækja mig. Þetta var allt mjög saklaust og fallegt, hann bauð mér út að borða, í bíó og svoleiðis. Ég vann þá á skrifstofunni hjá pabba. Síðan flutti hann í bæinn og fór að vinna hjá Mjólkursamsölunni og Osta- og smjörsölunni. Leigði fyrst herbergi, en bjó síðan heima hjá foreldrum mínum, sem bjuggu rúmt. Og þar fæddist Inga Birna 1959. Við fórum austur að Vatnsleysu þá um sumarið, þegar Inga Birna var á fyrsta ári, því Bragi var að heyja fyrir pabba sinn í einn mánuð. Það var góður tími, þurrkur allan tímann. Eina sumarið sem Bragi fékk sumarfrí! Það var alltaf mikið gestkvæmt á Vatnsleysu og ég aðstoðaði Ágústu eins og ég gat við heimilisstörfin, en ég var alls ekki vön svona vinnu. Ég var með Ingu Birnu í vöggu í eldhúsinu og þar var gömul kisa sem Sísí (Sigríður, systir Braga) átti. Hún varð svo hrifin af Ingu Birnu og tók að færa henni mýs á vögguna. Hún var örugglega að passa að hún hefði nóg að borða. Ágústu var ekki vel við þetta, en ég vissi að þetta var vel meint. Við giftum okkur 28. nóvember 1959 í Dómkirkjunni í Reykjavík. Vorum tvenn brúðhjón, þau Einar G. Þorsteinsson, bróðir Braga og Ingveldur Stefánsdóttir frá Syðri-Reykjum giftu sig líka. Það var sr. Óskar J. Þorláksson sem gaf okkur saman, en Elísabet kona hans var lengi í sveit á Vatnsleysu. Vorið eftir, árið 1960, fluttum við svo austur og Bragi fór að sjá um búið fyrir pabba sinn. Ég verð að segja, að ef ég hefði gert mér grein fyrir þessari bindingu, að maður gæti aldrei komist frá, hefði aldrei framar tíma til að fara í sumarbústaðinn til mömmu og pabba, hefði ég sennilega ekki verið eins tilbúin að flytja. En ég skildi Ágústu samt mjög vel. Nú var hún frjáls og gat fylgt Þorsteini í hans störfum fyrir sunnan og verið hjá börnum sínum sem voru flutt suður. Áður var hún bundin heima af búskapnum með vinnufólki. Það var mikið lagt á þessa litlu konu, og búin að ala upp öll þessi börn. L-B: Þetta hafa þá verið mikil viðbrigði fyrir þig, borgarbarnið, að flytja í sveitina og allt annar heimur. Halla: Jú, og ég hefði ekki getað þetta, nema af því að ég hafði svo gaman af skepnum. Kýr voru í alveg

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.