Morgunblaðið - 08.09.2018, Blaðsíða 21
FRÉTTIR 21Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. SEPTEMBER 2018
VIÐTAL
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Starf evrópskra blaðamanna verð-
ur sífellt hættulegra,“ segir Mog-
ens Blicher Bjerregård, forseti
Evrópusambands blaðamanna,
European Federation of Journal-
ists, en hann er um þessar mundir
á Íslandi ásamt formönnum ann-
arra blaðamannafélaga á Norður-
löndunum. Bjerregård er frá Dan-
mörku og hefur starfað sem
blaðamaður frá árinu 1984 en hann
var formaður danska blaðamanna-
félagsins á árunum 1999-2015.
Hann segir aðspurður að blaða-
menn í Evrópu séu ekki undan-
þegnir þeim ógnum sem kollegar
þeirra í öðrum heimsálfum glími
við. „Það var til dæmis áfall fyrir
okkur þegar Daphne Caruana Gal-
izia var myrt með bílsprengju á
Möltu í fyrra. Það gerðist innan
landamæra Evrópusambandsins.
Það var líka áfall þegar Ján Kuciak
var myrtur fyrr á þessu ári í Slóv-
akíu ásamt unnustu sinni.“ Bjerre-
gård nefnir einnig að dæmi séu um
að blaðamönnum, sem starfi þvert
á landamæri við rannsóknarblaða-
mennsku, hafi verið hótað.
„Þetta sýnir okkur mikilvægi
þess að þróa einhvers konar leiðir
til þess að efla öryggi blaðamanna,
einhvers konar aðgerðaáætlun sem
hægt sé grípa til þegar blaðamönn-
um er ógnað.“ Bjerregård játar að
einhverjir kunni að spyrja hvort
slíkra úrræða sé virkilega þörf á
Norðurlöndunum, en bendir á að
þar hafi færst í aukana að blaða-
mönnum sé hótað. „Við sjáum til
dæmis mun meiri hatursorðræðu á
netinu og áreitni, sérstaklega gagn-
vart kvenkyns blaðamönnum.
Hvernig tekstu á við slíkt?“
Bjerregård segir að margir
blaðamenn láti sem hótanir af
þessu tagi sé bara eðlilegur hluti
starfsins en sér þyki mikilvægt að
hótanir á netinu séu meðhöndlaðar
á sama hátt og aðrar hótanir. „Það
er því ný staða komin upp í Evrópu
og við verðum að finna leiðir til
þess að gera starfið öruggt og
tryggja gott starfsumhverfi.“
Þarf að takast á við falsfréttir
Fjölmiðlar hafa á síðustu árum
mátt þola ýmsa ágjöf og jafnvel
virtir miðlar verið sakaðir um að
dreifa svokölluðum „falsfréttum“.
Aðspurður hvernig fjölmiðlar geti á
ný áunnið sér traust fólks sem lítur
pressuna slíku hornauga segir
Bjerregård að það fyrsta sem hann
myndi vilja gera væri að hætta að
nota hugtakið „falsfréttir“ á þann
veg sem verið hefur gert.
„Þetta er orðræða sem hefur
verið þróuð áfram af stjórn-
málamönnum eins og Trump
Bandaríkjaforseta og þeir nota
hugtakið þannig að það er komið
óravegu frá því sem það var upp-
haflega um.“ Bjerregård segir að
það mætti byrja á að kalla hlutina
sínum réttu nöfnum. „Þegar þú ert
að tala um falsfréttir, þá ertu að
tala um áróður, lygar og rangar
upplýsingar, sem dreift er vísvit-
andi.“
Bjerregård nefnir að hann hafi
sjálfur komið að gerð bæklings fyr-
ir norrænu ráðherranefndina um
leiðir til þess að sporna við slíkum
rangfregnum. „Mitt fyrsta ráð væri
að fólk ætti að hampa hágæða-
blaðamennsku og reyna að tryggja
að hvert land búi við fjölbreytta
fjölmiðlaflóru með frjálsum og
óháðum miðlum,“ segir Bjerregård.
Hann segir að það þurfi einnig að
leggja meiri áherslu á svonefnt
„fjölmiðlalæsi“, þannig að almenn-
ingur fái færni til þess að greina á
milli áróðurs og blaðamennsku.
Bjerregård telur þó ekki réttu
leiðina að reyna að sporna við út-
breiðslu falsfrétta með lagasetn-
ingu eða reglugerðafargani heldur
ættu óháð fjölmiðlaráð á vegum
fjölmiðlanna sjálfra að sinna eft-
irlitshlutverki með þeim. Það sé
leiðin sem farin hafi verið í Noregi
og hún hafi reynst mjög vel þar.
Prentmiðlar ekki á útleið
Talið berst að stöðu prentmiðla á
upplýsingaöld, en segja má að and-
láti prentmáls hafi verið spáð á
hverju einasta ári síðustu tuttugu
árin eða svo. Bjerregård segist
ekki hafa áhyggjur af stöðu þeirra
til lengri tíma. „Ég er mjög bjart-
sýnn á framtíð blaðamennskunnar,
kannski er það óvænt, en það er
svo mikil þörf á góðri blaða-
mennsku, meiri en nokkru sinni
fyrr. Málið snýst um að finna rétt
rekstrarform og margir fjölmiðlar
dafna vel í nýju formi.“ Slík til-
raunastarfsemi fari nú fram víða og
skili oft góðum árangri.
„Einhverjir sögðu að dagblöðin
myndu leggja upp laupana fyrir
mörgum árum en ég held að það sé
ómögulegt að segja fyrir um fram-
tíðina. Kannski þurfa þeir að koma
út á annan hátt, fækka prent-
dögum, sérhæfa sig meira eða
þannig.“ Hann segir enga leið að
sjá þá þróun fyrir. Blaðamenn þurfi
hins vegar að vera tilbúnir til að
starfa jafnvel á mismunandi miðl-
um á sama tíma, hvort sem þeir eru
á netinu eða ekki.
„Ein áskorunin sem ég sé snýst
um staðbundna blaðamennsku. Við
sjáum mikið ákall um rannsóknar-
blaðamennsku og alþjóðlega blaða-
mennsku og margt af því hefur ver-
ið framúrskarandi,“ segir Bjerre-
gård og nefnir til dæmis uppljóstr-
anirnar um Panamaskjölin, sem
hafi jafnvel verið fyrirmynd um
hvernig slík vinna geti orðið í fram-
tíðinni.
„Á sama tíma höfum við ekki
verið meðvituð um að staðbundin
blaðamennska hefur farið halloka. Í
mörgum löndum Austur-Evrópu
hafa staðarblöðin kannski verið
tekin yfir af ólígörkum eða stjórn-
málamönnum og blöðin verða háð-
ari því sem þeir vilja segja eða fara
jafnvel að flytja áróður. Við þurfum
að fylgjast vel með þessari þróun.“
Bjerregård nefnir Bandaríkin í
þessu samhengi, þar sem ástandið
sé mjög forvitnilegt, sér í lagi í ljósi
þess að Bandaríkjaforseti eigi í
slag við stóru alþjóðlegu fjölmiðl-
ana. Rannsóknir spyrji því hvaðan
Bandaríkjamenn fái fréttirnar sín-
ar og margir þeirra fá þær frá stað-
arfjölmiðlinum sínum. „Ef þær
fregnir eru að verða minna áreið-
anlegar vegna þrýstings frá stjórn-
málamönnum eða öðrum hags-
munaaðilum gæti það valdið
miklum skaða og það þarf að gæta
að því.“
Meiri þörf á góðri blaðamennsku
Mogens Blicher Bjerregård, forseti Evrópusambands blaðamanna, segir starf blaðamanna verða
sífellt hættulegra Hótanir sjást oftar en áður Segir mikilvægt að sporna gegn „falsfréttum“
Morgunblaðið/Valli
Blaðamennska Mogens Blistrup Bjerregård, forseti Evrópusambands blaðamanna, EFJ, segist vera bjartsýnn fyr-
ir hönd prentmiðla á framtíðina, þar sem nú sé meiri þörf á góðri blaðamennsku en nokkru sinni fyrr.
Síðasta stóra helgi sumarvertíðar
skemmtiferðaskipa er um helgina.
Þrjú skip eru væntanleg í Sundahöfn
í Reykjavík með samtals rúmlega
4.500 farþega og tæplega 2.000
manns í áhöfn.
Komur tveggja skipa eru skráðar
klukkan átta á sunnudagsmorgun.
Það eru Norwegian Jade sem er
93.558 brúttótonn og Viking Sea,
sem er 47.800 brúttótonn. Klukkan
20 á mánudagskvöld er væntanlegt
til hafnar skipið AIDAcara, sem er
38.557 brúttótonn.
Um síðustu helgi komu einnig
þrjú skip í Sundahöfn, með samtals
rúmlega 4.500 farþega.
Samkvæmt yfirliti á heimasíðu
Faxaflóahafna er von á alls 72 skip-
um þetta sumarið og skipakomur
eru 169. Síðasta skipið er væntanlegt
21. október. Farþegafjöldinn er sam-
tals 150 þúsund manns. Þetta er nýtt
met í fjölda farþega. sisi@mbl.is
Morgunblaðið/sisi
Sundahöfn Þrjú skemmtiferðaskip komu til Reykjavíkur um síðustu helgi.
Serenade of the Seas og Zuiderdam lágu samtímis við Skarfabakkann.
Síðasta stóra helgin
Þrjú skemmtiferðaskip væntanleg
Skeifunni 8 | Sími 588 0640 | casa.is
Knoll International
WOMB
Hönnun: Eero Saarinen 1948