Morgunblaðið - 28.09.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 28.09.2018, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIRErlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. SEPTEMBER 2018 Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Christine Blasey Ford sálfræði- prófessor kom fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær og svaraði spurningum um þá ásökun hennar að Brett Kavanaugh, dómaraefni Donalds Trumps forseta, hefði beitt hana kynferðisofbeldi þeg- ar hún var fimmtán ára og hann sautján. Kavanaugh neitaði sök þeg- ar hann kom fyrir nefndina síðar um daginn. Vitnisburðir þeirra fyrir nefndinni gætu ráðið úrslitum um hvort öldungadeildin staðfestir til- nefningu Kavanaughs í hæstarétt Bandaríkjanna. Gert hafði verið ráð fyrir því að dómsmálanefndin greiddi atkvæði í dag um tilnefninguna en formaður hennar, repúblikaninn Chuck Grass- ley, hefur léð máls á því að fresta at- kvæðagreiðslunni. Forystumenn repúblikana óttast að málið geti skað- að þá í þingkosningunum 6. nóvem- ber og aukið líkurnar á því að þeir missi meirihluta sinn í fulltrúadeild þingsins og hugsanlega einnig í öld- ungadeildinni. Ellefu repúblikanar eiga sæti í þingnefndinni og þeir eru allir karl- menn. Þeir fengu konu, saksókn- arann Rachel Mitchell, til að leggja spurningar fyrir Christine Blasey Ford þar sem það þótti ekki líta nógu vel út að karlmenn þjörmuðu að henni við yfirheyrslu sem var sjón- varpað beint. Einn repúblikananna, Jeff Flake, er talinn líklegri en flokksbræður hans í nefndinni til að greiða atkvæði gegn tilnefningunni. Tíu demókratar eiga sæti í nefnd- inni, þeirra á meðal fjórar konur, og þau hafa öll hvatt Trump til að draga tilnefninguna til baka eða fyrirskipa bandarísku alríkislögreglunni FBI að rannsaka ásakanirnar á hendur dóm- araefninu. Tvær aðrar nafngreindar konur hafa nú stigið fram og sakað Kav- anaugh um kynferðisbrot. Áður en ásakanir komu fram var talið mjög líklegt að tilnefningin yrði staðfest í öldungadeildinni en mikil óvissa er nú um niðurstöðuna vegna umræðunnar um meint kynferðisofbeldi dómara- efnisins. Fréttaskýrandi The Wall Street Journal segir að þrír repúblik- anar í öldungadeildinni hafi látið í ljós áhyggjur af ásökunum kvennanna og atkvæði þeirra gætu ráðið úrslitum í málinu. Repúblikanarnir eru Jeff Flake (þingmaður Arizona), Susan Collins (Maine) og Lisa Murkowski (Alaska) og þau hafa sagt að þau ætli að gera upp hug sinn eftir yfir- heyrslur þingnefndarinnar í gær. Repúblikanar eru með nauman meirihluta í öldungadeildinni, 51 sæti á móti 49. Ef allir demókratarnir hafna tilnefningunni fellur hún ef tveir eða fleiri repúblikanar greiða atkvæði gegn henni. Ef 50 þingmenn greiða atkvæði með henni og jafn- margir á móti getur Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greitt oddaatkvæði. Að sögn The Wall Street Journal er hugsanlegt að þrír demókratar í öldungadeildinni leggist ekki gegn tilnefningunni; Heidi Heitkamp (þingmaður Norður-Dakóta), Joe Donnelly (Indiana) og Joe Manchin (Vestur-Virginíu). Þau sækjast öll eftir endurkjöri í kosningunum 6. nóvember í ríkjum þar sem Donald Trump fékk fleiri atkvæði en forseta- efni demókrata í kosningunum fyrir tveimur árum. Þau greiddu öll at- kvæði með Neil Gorsuch sem Trump tilnefndi í hæstarétt Bandaríkjanna á síðasta ári. „Gerbreytti lífi mínu“ Christine Blasey Ford sagði að það væri ekki hlutverk sitt að ákveða hvort Kavanaugh verðskuldaði að verða dómari í hæstarétti Bandaríkj- anna. „Ég hef aðeins þá skyldu að segja sannleikann.“ Hún kvaðst líta á það sem „borg- aralega skyldu“ sína að segja frá of- beldinu. „Ég er ekki hér núna vegna þess að ég vildi það. Ég er dauð- hrædd,“ sagði hún. Hún talaði stund- um með skjálfandi röddu og virtist vera gráti nær. Ford bætti við að Brett Kav- anaugh hefði greinilega verið ölvaður þegar hann hefði reynt að afklæða hana og nauðga henni í partíi þegar hún var fimmtán ára. „Árás Bretts gerbreytti lífi mínu. Í alltof langan tíma var ég of hrædd og skammaðist mín of mikið til að segja frá þessu. Ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um að vegna þess að Brett nauðgaði mér ekki ætti ég að geta ýtt þessu til hlið- ar og látið sem þetta hefði aldrei gerst.“ Ford sagði að Kavanaugh og vinur hans, Mark Judge, hefðu ýtt henni inn í herbergi þegar hún hefði ætlað að fara á salerni í húsi í úthverfi Washington sumarið 1982 þegar ung- lingar héldu þar partí. „Brett og Mark komu inn í herbergið og læstu dyrunum,“ sagði hún. „Þeir ýttu mér upp í rúm og Brett lagðist ofan á mig. Hann byrjaði að káfa á mér og þrýsta sér að mér. Ég hrópaði – vonaði að einhver niðri í húsinu heyrði til mín. Brett þreif í mig og reyndi að afklæða mig,“ sagði hún og bætti við að þetta hefði gengið böksulega hjá honum vegna ölvunar hans. „Ég hélt að hann myndi nauðga mér,“ sagði hún. „Ég reyndi að kalla á hjálp. Þegar ég gerði það hélt hann um munninn á mér til að koma í veg fyrir að ég hróp- aði. Þetta var það sem hræddi mig mest og hafði varanlegri áhrif á mig en allt annað sem hann gerði. Það var erfitt fyrir mig að ná andanum og ég hélt að Brett myndi drepa mig óvilj- andi.“ Ford sagði að Judge hefði stokkið upp í rúmið og við það hefði Kav- anaugh oltið af henni. Hún hefði þá getað hlaupið út úr herberginu. Judge hefur dregið þessa frásögn í efa og sagt að hann muni ekki eftir atburðinum. Ford neitaði því að hún hefði sagt frá þessu af pólitískum ástæðum og kvaðst vera „100 prósent“ viss um að það hefði verið Kavanaugh sem réðst á hana og hún hefði ekki farið manna- villt. Skýrt hafði verið frá því að starfsmenn nefndarinnar hefðu rætt við tvo menn sem teldu að það hefðu verið þeir, en ekki Kavanaugh og Judge, sem hefðu reynt að nauðga Ford. Byrluðu þeir stúlkum ólyfjan? Eftir að Ford skýrði frá ofbeldinu sakaði önnur kona, Deborah Ram- irez, Kavanaugh um að hafa gyrt nið- ur um sig fyrir framan hana í ölteiti í stúdentagörðum fyrir 35 árum þegar þau voru bekkjarfélagar við Yale- háskóla. Skýrt var frá ásökun hennar í tímaritinu The New Yorker en Kav- anaugh hefur vísað henni á bug, lýst henni sem „helberum rógburði“. Þriðja konan, Julie Swetnick, kom fram í fyrradag og kvaðst hafa séð Kavanaugh og Mark Judge hegða sér dólgslega gagnvart stúlkum í nokkr- um partíum ungmenna á árunum 1981 til 1983. Hún sagði að þeir hefðu byrlað stúlkum ólyfjan eða laumað sterku áfengi í veika drykki til að geta notfært sér ölvun stúlknanna. Swetnick sagði að hópur drengja hefði byrlað henni ólyfjan og nauðgað henni í partíi árið 1982. Hún sagði að þeir Kvanaugh og Judge hefðu verið „viðstaddir“ þegar henni var nauðgað en sakaði ekki dómaraefnið um að hafa tekið þátt í hópnauðguninni. Kavanaugh hefur sagt að þessar ásakanir Swetnick séu „fáránlegar“ og hann hafi aldrei hagað sér með þeim hætti sem hún lýsir. Ennfremur hefur verið skýrt frá því að ónafngreind kona hafi sent þingmanni í öldungadeildinni bréf þar sem hún segir dóttur sína hafa séð Kavanaugh ýta konu upp að vegg árið 1998 „með mjög ágengum og kynferðislegum hætti“. „Var ekki fullkominn“ Kavanaugh vísaði ásökunum Ford algerlega á bug þegar hann kom fyrir nefndina í gærkvöldi að íslenskum tíma. „Ég er saklaus af þessum ásök- unum,“ sagði hann. „Ég var ekki fullkominn á þessum tíma, eins og ég er ekki fullkominn núna. Ég drakk bjór með vinum mín- um, venjulega um helgar. Stundum drakk ég of mikið,“ sagði hann en bætti við að ekkert væri hæft í því að hann hefði beitt stúlkur kynferðis- ofbeldi. Kavanaugh sagði að umræðan á þinginu um tilnefninguna væri Bandaríkjunum til skammar og kvaðst ekki ætla að láta „kúga“ sig til að afþakka tilnefninguna. „Fjöl- skylda mín og nafn mitt hafa verið gereyðilögð til frambúðar með þess- um illmannlegu og röngu ásökunum.“ Brett Kavanaugh er 53 ára, fædd- ist í Washingtonborg og hefur verið dómari áfrýjunardómstóls frá árinu 2006. Hann er álitinn íhaldssamur í samfélagsmálum og Trump tilnefndi hann sem dómara í hæstarétti í stað Anthonys Kennedys sem Ronald Reagan tilnefndi árið 1988. Kennedy hyggst láta af störfum fyrir aldurs sakir síðar á árinu. Repúblikanar og demókratar telja mikið í veði í málinu því að ef tilnefn- ingin verður staðfest er talið að hún styrki íhaldssama meirihlutann í hæstarétti Bandaríkjanna. Fimm af níu núverandi dómurum réttarins eru álitnir íhaldssamir en Kennedy hefur stundum snúist á sveif með fjórum dómurum sem teljast frjálslyndir í samfélagsmálum. „Hélt að hann myndi drepa mig“  Vitnisburðir fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings gætu ráðið úrslitum í deilu um dómaraefni Donalds Trumps forseta  Dómaraefnið sakað um kynferðisofbeldi en neitar sök Getty Images Eiðsvarinn vitnisburður Christine Blasey Ford sálfræðiprófessor sór eið áður en hún svaraði spurningum dóms- málanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings um ásakanir hennar á hendur dómaraefni Donalds Trumps forseta. AFP „Ég er saklaus“ Brett Kavanaugh ber vitni fyrir þingnefndinni. Hann sagði að ekkert væri hæft í ásökunum Ford og fleiri kvenna á hendur honum. Hvað segir Trump? » Donald Trump fylgdist með því þegar Christine Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefnd öldungadeildarinnar til að svara spurningum nefndar- mannanna. Trump var þá í flug- vél forsetaembættisins, að sögn talsmanns hans. » Trump hafði varið Brett Kav- anaugh og lýst ásökunum Ford á hendur honum sem samsæri gegn sér og blekkingarleik af hálfu demókrata. » Forsetinn sagði þó skömmu fyrir yfirheyrsluna í gær að hann hygðist fylgjast með henni og sér kynni að snúast hugur ef í ljós kæmi að ásak- anirnar væru réttar. Hann kvaðst þó vera efins um það vegna þess að hann hefði sjálf- ur orðið fyrir því að konur bæru hann „röngum sökum“. Tabula gratulatoria Jón Baldvin Hannibalsson áttræður Þann 21. febrúar 2019 verður hinn aldni leiðtogi íslenskra jafnaðar- manna, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi fjármála- og utanríkis- ráðherra, áttræður. Af því tilefni verður gefin út bók eftir Jón Baldvin þar sem hann mun einkum fjalla um frumkvæði Íslands að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, samningana við ESB um Evr- ópska efnahagssvæðið (EES) og Norræna módelið sem raunhæfan valkost við auðræði nýfrjálshyggjunnar. Velunnurum Jóns Baldvins gefst nú kostur á að skrá nafn sitt á heilla- óskaskrá í tilefni þessara tímamóta og að fá bókina á forlagsverði, eða á kr. 6.000 með sendingarkostnaði. Hægt er að panta verkið hjá út- gefandanum á netfanginu skrudda@skrudda.is eða í síma 552 8866. Bókin verður send í byrjun febrúar 2019. Til að panta bókina og fá nafn sitt jafnframt á heillaóskaskrána þarf að senda inn nafn, kennitölu og heimilisfang. Sé óskað eftir að greiða verkið með greiðslukorti þarf að senda kortanúmer og gildistíma, ann- ars verður stofnuð krafa í heimabanka. Nánari upplýsingar fást hjá forlaginu. SKRUDDA Hamarshöfða 1 110 Reykjavík skrudda@skrudda.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.