Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.10.2018, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.10.2018, Blaðsíða 6
ERLENT 6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.10. 2018 Aðdraganda samningsins márekja allt aftur til ársins 1976þegar Sovétríkin tóku í notk- un nýja gerð meðaldrægra eldflauga, sem Atlantshafsbandalagið gaf heitið SS-20. Þróun SS-20 eldflauganna markaði nokkur þáttaskil frá fyrri flaugum með sambærilega drægni, þar sem þær voru bæði mun ná- kvæmari en fyrri eldflaugar Sovét- manna og bjuggu yfir þremur kjarnaoddum, sem hver var ígildi um 150 kílótonna af TNT. Viðbrögð Atlantshafsbandalagsins voru þau að bjóða í árslok 1979 upp á bæði gulrót og prik, þ.e.a.s. viðræður við Sovétmenn um takmarkanir á fjölda meðaldrægra eldflauga í Evr- ópu, með þeirri hótun að ef ekkert gengi í þeim viðræðum myndi banda- lagið bregðast við að fjórum árum liðnum með því að setja upp sínar eigin meðaldrægu flaugar, sem voru af Pershing II gerð. Afvopnunarviðræðurnar skiluðu hins vegar engum árangri, þar sem Sovétmenn reyndust ófúsir til þess að láta SS-20 flaugarnar af hendi, sér í lagi í ljósi þess að viðræðurnar myndu ekki hrófla við kjarnorku- vopnabúri Breta og Frakka. Niður- staðan varð því sú að Pershing II flaugarnar voru settar upp í desem- ber 1983. Ákvörðunin reyndist mjög umdeild og boðuðu svonefndar friðar- hreyfingar í ríkjum Vestur-Evrópu til reglulegra mótmælafunda gegn þessum eldflaugum Atlantshafs- bandalagsins. Höfðafundurinn opnar dyr Og þar við sat fram til ársins 1985 þegar Margaret Thatcher, forsætis- ráðherra Breta, hafði milligöngu um það að Ronald Reagan Bandaríkja- forseti og Míkhaíl Gorbatsjoff, sem þá var orðinn leiðtogi Sovétríkjanna, myndu hittast, en hún hafði þá hitt Gorbatsjoff og látið vel af fundi þeirra. Varð úr að þeir hittust fyrst í Genf í nóvember 1985, en afvopn- unarmál báru lítt þar á góma. Annað var uppi á teningunum þeg- ar Reagan og Gorbatsjoff hittust í október 1986 í Höfða í Reykjavík, en þar komust leiðtogar risaveldanna nærri því að samþykkja útrýmingu allra kjarnorkuvopna fyrir aldamót. Ekkert varð hins vegar úr því, þar sem Gorbatsjoff vildi á móti takmark- anir á þróun eldflaugavarna, sem Reagan var ekki tilbúinn til að fallast á. Þó að Höfðafundurinn hafi á sínum tíma verið talinn árangurslítill hefur hann í seinni tíð verið sagður hafa opnað dyrnar að frekara samstarfi risaveldanna í afvopnunarmálum, meðal annars hvað varðaði meðal- drægu flaugarnar í Evrópu. Við- ræður milli risaveldanna héldu áfram að fundi loknum og enduðu að lokum í INF-samkomulaginu, sem Reagan og Gorbatsjoff undirrituðu í Wash- ington hinn 8. desember árið 1987 og tók gildi 1. júní 1988. Með samkomulaginu féllust risa- veldin á að banna allar eldflaugar sem skotið var af landi sem hefðu drægi á milli 500 og 5.500 kílómetra, sem og alla skotpalla fyrir slíkar flaugar. Var risaveldunum gert að klára afvopnun sína fyrir júní 1991 og eyddu þau samtals 2.692 eldflaugum. Þá opnaði samkomulagið á það að risaveldin gátu sent eftirlitsmenn til þess að ganga úr skugga um það ver- ið væri að fylgja ákvæðum samkomu- lagsins. Brestir myndast Eftir lok kalda stríðsins féllu afvopn- unarmál nokkuð í skuggann. Þróun Bandaríkjamanna á eldflaugavörnum ýtti undir óánægju Rússa og árið 2007 sagði Vladimír Pútín Rússlands- forseti að INF-samkomulagið þjónaði ekki hagsmunum Rússa og varaði við því að þeir gætu séð sér hag í að draga sig í hlé. Ekkert varð þó úr þeim hótunum, þar sem Bandaríkja- menn komu aðeins til móts við áhyggjur Rússa af eldflaugavarnar- flaugunum. Á meðal þess sem einnig var talið ergja Rússa á þeim tíma var sú stað- reynd að bara Bandaríkin og Rússar voru bundin af ákvæðum samkomu- lagsins. Kínverjar væru hins vegar ekki með í því, og gætu þeir því þróað og sett upp sínar eigin meðaldrægu eldflaugar. Árið 2014 voru Rússar sakaðir um að hafa brotið ákvæði samningsins með prófunum á nýrri eldflaug, SSC-8, sem talin er hafa drægi allt að 5.500 kílómetra. Árið 2017 voru þeir sagðir hafa sett upp tvö herfylki með eldflaugunum, en þær geta borið kjarnaodd sem er ígildi 200 kílótonna af TNT. Donald Trump tilkynnti sem fyrr sagði síðastliðinn laugardag að hann hygðist draga Bandaríkin úr sam- komulaginu vegna þessara brota Rússa á því, og sagði Trump það fá- sinnu að standa við samning sem að- eins annar aðilinn héldi í heiðri. Spurningar hafa þegar vaknað hvort Bandaríkjaforseti hafi heim- ildir til að slíta milliríkjasamningum sem Bandaríkjaþing hefur staðfest, án aðkomu þingsins, auk þess sem ekki virðist ljóst hvort Trump sé reiðubúinn að standa við samkomu- lagið, gefi Rússar eftir í einhverjum málum á móti. Ljóst er þó að líkt og árið 2007, þegar Pútín kom með áþekka hótun gætu Kínverjar verið ein ástæðan fyrir því að Trump vilji úr samkomu- laginu, þar sem það kemur í veg fyrir að Bandaríkin geti svarað hernaðar- uppbyggingu Kínverja í Asíu, sem meðal annars hefur falið í sér þróun meðaldrægra eldflauga. Fróðlegt er að sjá viðbrögð helstu bandamanna Bandaríkjanna við þessu útspili. Heiko Maas, utanríkis- ráðherra Þjóðverja, varaði þannig við því að ákvörðun Trumps gæti haft í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir öryggi Evrópu en Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Breta, sagðist styðja ákvörðunina, þar sem nauðsynlegt væri að Rússar stæðu við sinn hluta samkomulagsins ef það ætti að halda. Jens Stolten- berg, framkvæmdastjóri Atlantshafs- bandalagsins, tók í sama streng og bætti við að bandalagið myndi líklega ekki svara Rússum með því að stað- setja kjarnorkuflaugar í Evrópu. „Við viljum ekki nýtt kalt stríð. Við viljum ekki nýtt vígbúnaðarkapp- hlaup,“ sagði Stoltenberg. Í ljósi áforma Trumps er það hins vegar álitamál hvort nýtt vígbúnaðarkapp- hlaup er ekki þegar hafið, að þessu sinni á milli Bandaríkjanna, Rússa og Kínverja. Afturhvarf til kalda stríðsins? Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um síð- ustu helgi að hann hygðist draga Bandaríkin út úr INF-samkomulaginu sem á sínum tíma var sagt hafa lagt hornstein að endalokum kalda stríðsins. En hver er bakgrunnur INF-sáttmálans og hvers vegna vill Trump segja honum upp? Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Morgunblaðið/RAX Fundur þeirra Míkhaíls Gorbatsjoff, leiðtoga Sovétríkjanna, og Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta í Höfða í október 1986 skilaði ekki árangri þegar í stað en greiddi leiðina að gerð INF-samkomulagsins sem undirritað var ári síðar. SÁDI ARABÍA RÍAD Ríkissaksóknarinn í Sádi-Arabíu viðurkenndi á fi mmtudaginn að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hefði verið myrtur að yfi rlögðu ráði. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa orðið margsaga um örlög Khashoggis, en 18 manns hafa verið handteknir vegna málsins. Enn hefur ekki verið varpað ljósi á það hver hafi gefi ð skipunina um að myrða Khashoggi en Sádi-Arabar þvertaka fyrir að það hafi verið samkvæmt þeirra ósk. KÍNA PEKING Wei Fenghe, hershöfðingi og varnarmálaráðherra Kínverja, varaði við því á fi mmtudaginn að kínverski herinn myndi gera hvað sem það kostaði til þess að koma í veg fyrir að Taívan myndi slíta sig formlega frá meginlandi Kína. Ummælin féllu í kjölfar mótmæla á eyjunni þar sem þess var krafi st að hún lýsti yfi r sjálf- stæði sínu, en Kínverjar líta á eyjuna sem hluta af ríki sínu. BANDARÍKIN WASHINGTON Að minnsta kosti 10 bréfasprengjur fund- ust í pósti, sem allar höfðu verið sendar til annaðhvort forkólfa Demókratafl okksins eða annarra sem teljast sem pólitískir andstæðingar Trumps Bandaríkjaforseta. Trump fordæmdi árásirnar, en gagn- rýnendur hans segja hann bera sína ábyrgð, þar sem hann hafi eitrað andrúmsloftið í banda- rískum stjórnmálum. STÓRA BRETLAND BLACKPOOL Lögreglan í Blackpool vakti heims- athygli þegar hún lýsti eftir manni fyrir búðarhnupl, en maðurinn þótti sláandi líkur bandaríska gaman- leikaranum David Schwimmer, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Ross Geller í sjónvarpsþátt- unum Friends. Schwimmer sjálfur þvertók fyrir að hafa verið í Blackpool og birti myndband af sér í New York í svipaðri stellingu og hinn eftirlýsti var í.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.