Morgunblaðið - 20.12.2018, Side 76

Morgunblaðið - 20.12.2018, Side 76
76 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. DESEMBER 2018 Mansfield Park er saga um sið- ferði og hlutverk lesandans er hér, líkt og í öðrum sögum Austen, að leitast við að greina það sem býr að baki persónutöfrum, smjaðri, samræðulist, hnyttni og leikara- skap; sjá í gegnum persónurnar og varpa ljósi á innri persónuleika þeirra og styrk. Sú sem lítur í upphafi út fyrir að vera veikust reynist þegar upp er staðið vera sú sterka í verkinu. Meðal orða sem eru notuð til að lýsa Fanny Price eru: „höfuðverkur“, „lemstruð“, „lúin“, „van- rækt“, „gleymd“, „andstutt“, „hógvær“, „þekkir sársauka undirokunar“, „hvatir hennar eru misskildar“, „tilfinn- ingar hennar hafðar að engu, skilningur hennar vanmetinn“ og „sú lægsta og síðasta“, svo nokkur dæmi séu tekin. Hún er andstæða Mary sem hefur styrk, þor, kraft og orku en Mary blómstar í sam- kvæmum og liggur ekki á skoð- unum sínum. Lesandinn vaknar svo smám saman til vitundar um það að þrátt fyrir vanrækslu og kúgun frú Norris lætur Fanny ekki ráðskast með sig og stendur fast í fæturna þegar kemur að grundvallaratriðum. Fanny minnir um margt á hina fullkomnu konu tímabilsins ef marka má hegðunarritin: hún er hógvær, lítillát, sýnir auðmýkt og er trúuð. Í The Young Ladies Conduct er sagt að auðvelt sé að ala upp stúlkur því að þær séu: „Eftirlæti Náttúrunnar, gerðar úr mýkri og viðkvæmari Ástríðum, og að eðlisfari hneigðari til Hæv- ersku og Hlýðni. Þær eru mót- tækilegri fyrir áhrifum Trúar og Dyggða, og leggja mikið á sig til þess að draga fram Fegurð Hug- arfarsins með Tilhlýðilegu Lík- amsskrauti sem þær leitast við að styrkja frekar með þokkafullum Limaburði og fágaðri Framkomu.“ Ástríður þeirra eru sagðar fín- gerðar og þær hneigjast til hóg- værðar og hlýðni. Þær eru trú- hneigðar, tilfinninganæmar og hafa til að bera innri dyggðir; enn fremur eru þær viðkvæmar. Mary Poovey bendir á það í bók sinni The Proper Lady and the Woman Writer að hin fullkomna dama tímabilsins láti ekki bera á sér, en hún varð síðan að húsenglinum undir lok átjándu aldar þegar áhersla var lögð á að konur lærðu að hemja náttúrulegar hvatir sín- ar. Húsengillinn var algjörlega laus við kynferðislegar hvatir og svo viðkvæm að hún var við það að brotna. Hún hafði enga þekkingu á veröldinni fyrir utan og fann lífs- fyllingu í algjörri sjálfsafneitun. Þessi hugmyndafræði útilokaði að konur gætu uppfyllt þrár sínar og þarfir eða átt sér kvenlegt sjálf. Fyrirmyndarkona þessa tíma af- neitaði í raun sjálfri sér. Fanny minnir að sumu leyti á þessa fullkomnu kvenímynd, hús- engil átjándu og nítjándu aldar og þannig lýsir Henry Crawford henni fyrir systur sinni um miðja söguna þegar hann er búinn að ákveða að Fanny verði ástfangin af sér: „Andlitsfegurð Fannyar og sköpulag, yndisþokki hennar og hjartagæska voru óþrjótandi við- fangsefni. Mildin, hæverskan og ljúft innrætið voru rædd í þaula af hlýju, þessi ljúfleiki sem vegur svo þungt í mati karla á verðleikum konunnar […]; en þegar hann sagði hana búa yfir staðfestu og reglufestu í framkomu, ríkri sóma- tilfinningu sem aldrei stofnar hátt- prýði sinni í hættu, lýsti hann konu sem hann vissi að var stað- föst og trúuð.“ Henry til mikillar undrunar hafnar Fanny honum þegar hann biður hennar. Vegna þess að Henry lítur á hana sem húsengil og kemur ekki annað til hugar en að hún játist honum, þarf Fanny að ítreka neitun sína mörgum sinnum, rétt eins og Elísabet gerir þegar herra Collins biður hennar. Henry tekur ekki mark á því sem hún segir og gerir lítið úr tilfinn- ingum hennar [...] Henry er ekki ástfanginn af Fanny heldur af ímynd hennar. Persónusköpun Fannyar passar þó ekki algjörlega við ímyndina um húsengilinn, hina viðkvæmu óeig- ingjörnu stúlku. Henry sér ekki að á bak við óframfærnina býr stúlka sem er harðákveðin, hefur sjálf- stæðar skoðanir og lætur ekki ráðskast með sig. Sjálfstæði Fannyar er einnig sýnt í því að hún er sú eina í hópnum sem ákveður að taka ekki þátt í leikrit- inu sem ungmennahópurinn setur upp á Mansfieldsetri því að hún hafi ekki leiklistarhæfileika: „Nei, virkilega, ég get ekki leikið“ segir hún og fær skammir fyrir hjá frú Norris sem kallar hana „þvera og vanþakkláta stúlku“. Enda þótt Fanny líti út fyrir að vera kona sem sé sniðin að húsengils- hlutverkinu eins og það birtist á prenti undir lok átjándu aldar þá reynist hún ekki vera slíkur engill þegar lesandinn kynnist henni. Hún er of sjálfstæð og viljasterk, og ber of mikið traust til eigin til- finninga og dómgreindar til þess að falla að þeirri ímynd. Auerbach bendir á að Fanny standi frammi fyrir stærri áskorun þegar hún hafnar Henry Crawford en nokkur önnur kvenhetja í sög- um Austen sem þarf að svara biðli sínum. Litla, þögla, veikburða og hlýðna músin sýnir að þegar kem- ur að grundvallaratriðum getur hún barist eins og ljón fyrir rétti sínum og hamingju. Manneskja sem ekki er vön að tala í marg- menni, láta í ljós skoðanir sínar og fær í sífellu þau skilaboð að hún sé lægst sett og gangi aldrei fyrir, sýnir gríðarlegan innri styrk þeg- ar hún óhlýðnast fósturföður sín- um og neitar að giftast Crawford með þeim afleiðingum að Sir Thomas lítur hana öðrum augum: „Einþykk, þrjósk, eigingjörn og vanþakklát. Allt þetta var hún í hans huga. Hún hafði gert vonir hans að engu og fallið í áliti hjá honum.“ Í Mansfield Park og öðrum sög- um Austen þarf lesandinn að lesa í hegðun, útlit, framkomu og tungu- mál til þess að skilja innri gerð manneskjunnar; hvort hún hafi samvisku, sterkar tilfinningar, samúð með öðrum og getuna til þess að elska. Fanny, sem hefur veiklulegt útlit, er „uppburðarlítil og ákaflega taugaóstyrk“, reynist að leikslokum sterkasta persónan í verkinu. Mary veit alltaf hvað á að segja, er hæðin, fyndin og kraft- mikil, en að baki heilsteyptrar framkomunnar er að finna per- sónu í molum. Mary og Henry Crawford hafa samt sem áður svo mikla persónutöfra að lesandinn, sem skilur kannski ekki siðferðis- þrek söguhetjunnar, verður jafn- vel fyrir vonbrigðum með sögulok- in og óskar sér annarrar niðurstöðu. Auerbach segir að þótt Fanny sé óvefengjanlega hetja sögunnar sé Mary Crawford að ýmsu leyti persóna sem lesendum líki betur við. Þannig segist George, frændi Austen, eftir að hafa lesið Mans- field Park aðeins „hafa haft áhuga á Mary Crawford“. Og Cassandra Austen féll fyrir töfrum Henrys Crawford og grátbað systur sína um að breyta endinum og láta Fanny giftast Henry: „en ungfrú Austen stóð föst á sínu og sam- þykkti engar breytingar“. Eins og Mary er Henry gæddur miklum persónutöfrum sem les- andinn þarf að sjá í gegnum en Austen gerir nokkuð af því að blinda persónur sínar og lesendur og láta þá heillast af manni sem reynist siðspilltur. Fanny er sú eina í fjölskyldunni sem lætur ekki blekkjast. [...} Joanna Lenore Roberts telur að með því að skilja á milli innri manns og ytri framkomu megi greina hegðun fólks frá hinu innra lífi. Hegðun birtist m.a. í manna- siðum sem auðvelda félagsleg sam- skipti, tjáningu hugsana og tilfinn- inga. En þó að mannasiðir séu félagslega nytsamir þurfa þeir ekki að vera vitnisburður um hið sanna gildi einstaklingsins, þeir geta einnig boðið upp á fals og uppgerð. Þannig er ekki hægt að treysta því að þeir einstaklingar sem virðast siðað fólk séu það í raun og veru. Roberts nefnir Crawford-systkinin sem dæmi um þátttakendur í félagslegum leik sem hafi enga innri sjálfsmynd, ekkert raungildi, en kunni sín fé- lagslegu hlutverk. Þau hegði sér á þokkafullan hátt, mannasiðir þeirra séu fullkomnir en þó sýnd- armennskan ein því að þau hafi engan innri kjarna til að bera. Þannig má sjá hvernig góðir mannasiðir, lífleg hegðun og leikni í samræðulist eru samkvæmt Aus- ten ekki endilega mannkostir og leiða ekki alltaf til hamingju. Það sem skiptir máli fyrir karlhetju og kvenhetju er gott hjartalag, sterk siðferðisvitund, djúpar tilfinningar og göfugur og skynsamur hugur. Kvenhetjur Austen eru misgöfug- ar og mjög ólíkir persónuleikar en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa gott hjartalag og læra af mis- tökum sínum. Kvenhetjurnar eru verðlaunaðar með karlmanni sem er raunverulega annt um velferð þeirra og getur gert þær ham- ingjusamar. (Tilvísunum er sleppt.) Siðspilltur maður og hreinlynd kvenhetja Í bókinni Jane Austen og ferð lesandans kannar Alda Björk Valdimarsdóttir hvernig ímynd skáld- konunnar Jane Austen lifir innan þriggja bók- menntagreina sem löngum hafa verið tengdar konum; í ástarsögum, skvísubókum og sjálfs- hjálparritum, og það hvernig þessar þrjár bók- menntagreinar taka hver um sig afmarkaða þætti úr ritum skáldkonunnar um leið og þær einfalda og skýra ímynd hennar. Morgunblaðið/Eggert Höfundurinn Alda Björk Valdimarsdóttir kannar hvernig ímynd skáldkonunnar Jane Austen lifir í samtíma okkar. búðin | 1. hæð Kringlunni Gleðileg iittala jól

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.