Náttúrufræðingurinn - 2018, Blaðsíða 19
Náttúruminjasafn Íslands opnar sýninguna Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni á fullveldisdeginum 2018 þegar 100 ár eru liðin frá því
að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. „Baráttan fyrir eigin sýningar-
rými hefur verið löng og ströng,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðu-
maður safnsins, „og leiðin oft þyrnum stráð. En þetta er stór áfangi
og spennandi tímar framundan hjá Náttúruminjasafni Íslands.“
Sýningin verður sett upp í nýju 350 fermetra rými á 2. hæð í Perlunni,
en Perla norðursins sem leigir Perluna af Reykjavíkurborg, hefur
boðið safninu afnot af þessu rými endurgjaldslaust. Á fjárlögum
þessa árs var veitt 290 milljónum króna til að standa straum af kost-
naði við uppsetningu sýningarinnar sem er fyrsta sýningin sem Nátt-
úruminjasafnið stendur fyrir frá stofnun þess 2007.
Eins og nafnið ber með sér verður vatn meginviðfangsefni sýningar-
innar – vatn í víðum skilningi, undirstaða alls lífs. Ísland er óvenju
vatnsríkt land og vatn telst til helstu einkenna í náttúru landsins. Hér
er gnótt grunnvatns, fjölbreytt votlendi, urmull fossa og flúða, kalt
vatn og heitt, frosið, ferskt, salt og ísalt vatn en líka súrt, mjúkt og
hart vatn. Vatn er líka í veðrinu, í skýjum, þoku, regni og snjókomu.
Vatn er hreyfiafl í framvindu lífríkis og þróun þess. Á sýningunni
verður fjallað um það hvernig líf stingur sér niður við ólíklegustu
aðstæður og lagar sig að umhverfinu og breytist og þróast í rás
tímans. Eðlisþættir vatnsins, máttur þess og megin við mótun lands
og myndun verður einnig meðal viðfangsefna sýningarinnar sem og
nýting vatnsauðlindarinnar, aðsteðjandi hættur og hvernig bregðast
má við vandamálum.
Vatnið í náttúru Íslands
Sýning Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni verður opnuð 1. desember n.k.
Á sýningunni verða lifandi vatnadýr og jurtir og áhersla lögð á virka
þátttöku gesta. Þar munu gestir uppgötva og kynnast huldum lífheimi
vatnsins, lífríki sem allajafna er óaðgengilegt eða ósýnilegt manns-
auganu vegna smæðar sinnar. Gestir munu skynja aflið sem býr í
vatninu, kraftinn sem sundrar, brýtur niður og leysir upp, en sameinar
jafnframt, tengir, bindur og byggir upp.
Sýningin er unnin í samvinnu við fjölmarga sérfræðinga í náttúru-
vísindum, sýningarhönnun og safna- og kennslufræðum. Henni er
ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta,
fólks á öllum aldri en einkum þó til barna.
„Við leggjum ríka áherslu á lifandi og gagnvirka fræðslu og höfum
fengið til liðs við okkur færustu margmiðlunarhönnuði innan lands
og utan,“ segir Hilmar. „Ég vænti þess að þessi sýning verði fyrsta
skrefið að framtíðaruppbyggingu fyrir Náttúruminjasafnið í sam-
ræmi við ályktun Alþingis í tengslum við aldarafmæli fullveldis
Íslands. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Mikilvægi náttúrunnar
fyrir farsælan framgang samfélaga kemur sífellt betur í ljós sem
og nauðsyn skynsamlegrar umgengni við náttúrugæðin með þarfir
komandi kynslóða að leiðarljósi. Þá ríður á að fræða og upplýsa um
undur og furður náttúrunnar, vekja áhuga á henni og auka skilning
á gangverki hennar. Það er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands.“
Lj
ós
m
yn
d:
G
uð
m
un
du
r
P
ál
l Ó
la
fs
so
n