Gripla - 20.12.2018, Blaðsíða 26
GRIPLA26
hafi verið notast við þýðingar Marteins í suðurstiftinu og ólafs í Hólastifti
hefði útfærsla eins og sú sem greina má í Stokkhólmsbrotunum varla farið
gegn prentuðum þýðingum beggja. Ef gert er ráð fyrir því að handbók
Marteins Skálholtsbiskups frá árinu 1555 hafi fengið dræmar viðtökur fyrir
norðan má vera að þessi litúrgía hafi orðið til í Hólastifti eftir að handbókin
kom út, þ.e.a.s. á tímabilinu 1555–62. Söngtexti Christus resurgens est fylgir
þýðingu rómverjabréfsins í nýja testamenti odds Gottskálkssonar (1540)
sem telja má fyrri tímamörk (terminus post quem). Seinni tímamörk má
líklega setja um 1570 þar sem hvorki er stuðst við forskriftir dönsku sálma-
bókarinnar frá 1569 né danska grallarans frá 1573, auk þess sem íslenskar
gerðir Ecce dies venient og Egredietur virga (við vers úr Jeremíabók) eru ekki
samhljóða Guðbrandsbiblíu (1584).
Velta má fyrir sér hvort þýðingarnar séu runnar undan rifjum einhvers
fyrstu lúthersku biskupanna. Enginn virðist líklegri en aðrir til þess
arna. Kollektan í nr. 10 er ekki samhljóða þeim þýðingum sem Marteinn
Einarsson Skálholtsbiskup og Ólafur Hjaltason biskup á Hólum létu
prenta; ósennilegt má telja að þeir hafi tvisvar snarað textanum með
ólíkum hætti þótt það sé vissulega ekki útilokað.43 Höfundur hefur haft
traustan skilning á kaþólskum helgisöng, jafnvel hafið prestskap sinn í
kaþólsku eins og þeir Marteinn og ólafur báðir. Gísli Jónsson tók við
biskupsembætti árið 1558 og hefði væntanlega notað þýðingu Marteins á
kollektunni ef efni brotanna var sett saman eftir það. Annars er ekkert sem
útilokar hann sem upphafsmann efnisins þótt vissulega sé það ólíkt því
sem hann setti síðar saman í handrit til brúks í Skálholtskirkju, að því er
43 Ekki er óhugsandi að hér séu einhver tengsl við hina meintu „sálmabók“ ólafs Hjaltasonar
sem virðist eitt sinn hafa verið til en ekki varðveist. Arngrímur Jónsson taldi rök hníga
að því að slík bók hefði ekki verið eiginleg sálmabók heldur fremur „messusöngsbók eða
grallari og saman sett að einhverju leyti eftir þeirri messubók, rómverskri, sem tiltæk hefur
verið svo sem textar Officium og Graduale benda til, þýddir á móðurmál“ (Fyrstu handbækur
presta á Íslandi eftir siðbót, 163; sjá einnig Jón Þórarinsson, Íslensk tónlistarsaga, 208–210).
Jón sýslumaður Jakobsson getur um „söngbók“ Ólafs biskups og aðrir heimildarmenn
á 17. og 18. öld (Þórður Jónsson í Hítardal, Jón Halldórsson og finnur Jónsson) nefna
að ólafur hafi komið „lagi á messusönginn“; sjá Páll Eggert ólason, Menn og menntir
siðskiptaaldarinnar á Íslandi, 2. bindi (reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar,
1926), 614–615. Gísli Jónsson fer sinn milliveg í handritinu nKS 138 4to, styðst við
danskan grallara Jesperssøns frá 1573 en hefur megnið af gregorska söngnum á latínu. Í
Stokkhólmsbrotunum má lesa annars konar lausn, þar er rómversk-kaþólskur söngur á
íslensku en ekki stuðst við danska grallarann, sem bendir til þess að þessi gerð efnisins hafi
orðið til fyrir 1573.