Gripla - 20.12.2018, Blaðsíða 266
GRIPLA266
frá atburðum sem gerðust áður en sá sem á að lofa fæddist (föðurlandi og
ætt), þá lífshlaupi hans og að endingu því sem hann hefur skilið eftir sig
(afkomendum, afburðaverkum).12 Hin lærðu skáld árnýaldar þekktu þessi
rit, eða önnur sambærileg, og urðu fyrir áhrifum af þeim beint eða óbeint
þegar þau fjölluðu um svipað efni,13 eins og sjá má af erfiljóði Magnúsar
ólafssonar hér að aftan.
Inntak efnisins er þríþætt, skiptist í efnisatriðin sorg, lof og huggun,
eins og sjá má af yfirliti yfir efnisatriði kvæðisins hér að neðan. Þessi atriði
eru grundvöllur flestra greina huggunarbókmennta frá ýmsum tímum, svo
sem erfiljóða, harmljóða, minningargreina, líkræða og huggunarbréfa. Þau
eru, eins og aðferðir til að lofa eða lasta, sótt í rit mælskufræðinga og hafa
bókmenntafræðingar síðari tíma gjarnan tekið mið af þessari þrískiptingu
þegar þeir fjalla um huggunarbókmenntir.14
niðurskipan efnisins í kvæðinu fer einnig að reglum mælskufræði, í
inngangi er gefið til kynna hvað fjallað verður um í kvæðinu (exordium), þá
er frásögn málsatvika (narratio) og rökfærsla (argumentatio), sem fléttast
saman í framvindu kvæðisins, og að lokum niðurstaða (conclusio). Með öft-
ustu vísunni, nafnavísunni, kvittar skáldið svo undir kvæðið.
Inngangur
tilefni kvæðisins: Björn Benediktsson er fallinn frá (1.−3. er.)
Efni kvæðisins: fjallað verður um ævi hans og dyggðir (4. er.)
Frásögn og rökfærsla
Lof:
foreldrar og uppruni (5. er.)
frami erlendis og fyrstu árin í embætti á Íslandi (6.−15. er.)
12 Quintilianus, The Institutio Oratoria of Quintilian. the Loeb Classical Library (London:
William Heinemann og G.P. Putnam’s Sons, 1980), III (7), 465 o.áfr.
13 Þórunn Sigurðardóttir, Heiður og huggun, 98.
14 Ítalski óðfræðingurinn Julius Caesar Scaliger (1484−1558) setur fram kenningar um efn-
isþætti nýlatneskra huggunarbókmennta í skáldskaparfræði sinni Poetices libri septem (Sjö
bækur um skáldskaparfræði), sem kom fyrst út 1561 en var nýlega (1994−2011) endur-
útgefin ásamt þýskri þýðingu. Nútímabókmenntafræðingar hafa stuðst við kenningar hans
við skilgreiningar og túlkanir á huggunarbókmenntum, einkum bókmenntum á nýlat-
ínu en margt á einnig við um kvæði á þjóðtungum. Sjá t.d. Hans-Henrik Krummacher,
„Das barocke Epicedium. rhetorische tradition und deutsche Gelegenheitsdichtung im
17. Jahrhundert,“ Jahrbuch der deutschen Schillergesellschaft 18 (1974), einkum 104 o.áfr.
Sjá umfjöllun um kenningar Scaligers í Þórunn Sigurðardóttir Heiður og huggun, 57−59,
75−79.