Gripla - 20.12.2018, Blaðsíða 269
269
í þeim tveimur erfiljóðum sem eignuð hafa verið séra Magnúsi ólafssyni
(eftir Guðbrand biskup Þorláksson og séra Einar Sigurðsson í Eydölum)21
komi fram bæði áhugi á tölum og táknadulspeki, sem og „hugmynd um
að baki þeirra liggi hulin skilaboð sem mönnum sé ætlað að túlka og draga
lærdóm af“.22 í kvæðinu um Björn Benediktsson leggur skáldið út af
aldri Björns við andlát á svipaðan hátt og hann gerir með árafjölda Einars
í Eydölum í embætti. í báðum kvæðunum er reiknað út frá „heilögum“
tölum og greinilegt að þær bera vitni um að Guð hafi velþóknun á hinum
látnu. um Björn segir: „heilög hér sú tala / hefur þýðing án efa / hvíld
að hjá útvöldum / haldi sá auðar baldur“ (47. er.). Hér er það sagt beinum
orðum að hin heilaga tala sjö merki það að Björn sé hólpinn. Þá hefst sorg-
arkafli, ástvinir og aðrir þreyja höfðingjann, en það stoðar ekki að stríða
gegn dauðanum því að allir, „kóngur, öldungur, ungur, / auðigur líka
snauður“ (53. er.) eiga fyrir höndum að lúta honum. Hverfulleiki (vanitas)
og dauðaáminning (memento mori) eru gegnumgangandi þræðir í þessum
hluta kvæðisins sem lyktar með þeirri huggun að „bindast fagna fundir /
fríðir aftur um síðir“ (58. er.) og sú fullvissa að „önd hins ljúfa listarmanns“
lifi hjá Kristi (59. er.). að því búnu snýr ljóðmælandi sér að systrum Björns
en ávarpar sérstaklega Þórunni (60.−61. er.). tvær systur Björns báru
nafnið Þórunn en líklega er hér um að ræða Þórunni eldri, klausturhald-
arafrú á Möðruvöllum í Hörgárdal, síðast á Grund í Eyjafirði. Hún bjó á
svipuðum slóðum og Magnús Ólafsson og var hærra settari í þjóðlífinu en
hin yngri sem var bóndakona í Vatnsdal, um það bera m.a. vitni erfiljóð
um hana.23 Að lokum er greint frá því að Björn hvíli nú í friði og sál hans
21 faulkes dregur reyndar í efa að kvæðið um Guðbrand biskup sé eftir Magnús Ólafsson
(anthony faulkes, Magnúsarkver, 100−101).
22 Margrét Eggertsdóttir, Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar
(reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 2005), 51 og 117−118.
23 Um Þórunni eldri og eiginmann hennar, ólaf Jónsson klausturhaldara, orti séra Guðmundur
Erlendsson í Felli. Hann orti einnig erfiljóð eftir Björn Benediktsson, sem varðveitt er í
sama handriti og kvæði Magnúsar, Lbs 2388 4to, 13−14 (bl. 7r−v). Kvæðið um Ólaf
er varðveitt í handritinu JS 232 4to; prentað í Þórunn Sigurðardóttir, „Erfiljóð. Lærð
bókmenntagrein á 17. öld,“ Gripla 11 (2000), 166−171. Kvæðið um Þórunni Benediktsdóttur
er varðveitt í sama handriti en einnig í Lbs 2388 4to, bl. 7v−9r (sama handriti og kvæðið
sem hér er til umfjöllunar) og þar að auki á minningartöflu í tréramma með hendi séra
Guðmundar sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íslands (sjá Þórunn Sigurðardóttir, „„Á Krists
ysta jarðar hala“. Um séra Guðmund Erlendsson í Felli og verk hans“, Skagfirðingabók 37
(2016), 176−177, 182). nútímaheimildir segja dánarár þeirra hjóna vera eftir 1612 en í kvæð-
unum koma ártölin fram. ólafur andaðist árið 1621 og Þórunn 1628.
UNDANVILLINGUR REKINN HEIM