Gripla - 20.12.2018, Blaðsíða 27
27
virðist (nKS 138 4to). Ekki er heldur óhugsandi að efnið hafi verið þýtt af
presti utan biskupsstólanna, hvort sem var að beiðni biskups eða í trássi við
regluverk þeirra. Til dæmis lýsti séra Sigurður Jónsson á Grenjaðarstað því
í bréfi dagsettu 24. mars 1554 að hann myndi frá og með páskadegi sama ár
„handtéra það heilaga sacramentum altaris, sem vér köllum messuembætti
... í eiginlegu móðurmáli“.44 Allt er þetta þó á huldu og hugsanlega verður
sú gáta aldrei leyst hver hafi verið upphafsmaður þýðinganna á þeim kaþ-
ólsku söngvum sem hér eru til umfjöllunar.45
Handritsbrotin tvö í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi gefa um margt
nýja innsýn í söng og helgihald á síðari hluta 16. aldar. Efni blaðanna
er svipað, kaþólskur tíða- og messusöngur í íslenskri þýðingu; þau eiga
sameiginlega tvo söngva og texta hins þriðja. Þetta gefur til kynna að
litúrgían hafi að einhverju leyti verið í föstum skorðum að minnsta kosti
í þeim landshluta eða því héraði þar sem þessi handrit voru brúkuð, og að
sömu þýðingar gregorskra söngtexta hafi verið viðhafðar í fleiri en einni
kirkju. Handritin bera þess vott að íslenskir kirkjumenn – væntanlega
hinir íhaldssamari – hafa lagt alúð við að finna hinum forna messu- og
tíðasöng varanlegan búning í nýjum sið. Efni brotanna tveggja er ekki að
öllu leyti hið sama og má vera að litúrgían hafi í einhverjum atriðum verið
breytileg frá kirkju til kirkju. Hvað sem því líður sést hér glitta í stórhuga
tilraun, útfærða af kunnáttusemi og yfirvegun, sem miðaði að því að snúa
efni hins kaþólska helgihalds á íslenskt mál fremur en innleiða nýja kirkju-
44 JS 375 4to, 178–180, tilv. í Páll Eggert Ólason, Menn og menntir, 2. bindi, 493–495. Sigurður,
sonur Jóns biskups arasonar, var einn helsti klerkur landsins á sinni tíð og tvívegis kjörinn
biskup í Hólastifti en í bæði skiptin neitaði konungur að samþykkja kjör hans. Páll Eggert
Ólason segir að hann hafi verið „alla tíð mest metinn presta norðan lands, auðsæll og höfð-
ingi, vitur maður og mennta- og lærdómsmaður um fram aðra“ (sama heimild, 3. bindi, 678).
Jón Helgason greinir frá því að fjögur bréf hið minnsta séu með hendi Sigurðar: aM Dipl.
Isl. fasc. LIII 2 (1553), LIII 1 og LVI 4 (bæði 1566) og LVI 32 (1570); sjá „nokkur íslenzk
handrit frá 16. öld,“ Skírnir 106 (1932): 157. Sé þetta rétt er það a.m.k. ekki sama hönd og á
Stokkhólmsbrotinu nr. 10.
45 Þar sem brotið nr. 10 virðist komið frá Guðmundi ólafssyni fornfræðingi má geta þess
að hann hafði sterk tengsl við Skálholt, gekk þar í skóla á árunum um 1674–78, var ritari
Þórðar biskups um skeið og fékk lofsamleg meðmæli hans til háskólans í Kaupmannahöfn,
sbr. Hannes Þorsteinsson, „Ævir lærðra manna (Guðmundur Ólafsson)“. Hann hefði því
væntanlega átt hægara með að sækja handrit þangað en til Hóla þótt slíkt sé vitaskuld ekki
nema getgátur; ekki er ljóst hvar á landinu Helgi bróðir Guðmundar safnaði handritum
fyrir Sænsku fornfræðastofnunina árið 1683 þegar hann kom til landsins gagngert í þeim
tilgangi.
TVÖ í SLENSK SÖ NGBóKARBROT