Morgunblaðið - 25.01.2019, Page 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. JANÚAR 2019
Smiðjuvegur 68, Kópavogi | S. 587 1350 | bifreidaverkstaedi.is
Höfum sérhæft okkur í Toyota viðgerðum síðan 1995
Fljót, örugg og persónuleg þjónusta
Allar almennar bílaviðgerðir
Viðbrögð í þingsal voru blendin og
andrúmsloftið þungt þegar Bergþór
Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson,
þingmenn Miðflokksins, tóku á ný
sæti á Alþingi í gær. Þeir fóru sem
kunnugt er í leyfi frá þingstörfum í
byrjun desember í kjölfar þess að
upptökur voru birtar af samræðum
þeirra og fjögurra annarra þing-
manna Miðflokks og Flokks fólksins á
Klaustur bar 20. nóvember sl.
Bergþór sagði í grein í Morgun-
blaðinu í gær að hann hygðist halda
áfram þingmennsku. Tilkynning um
að hann og Gunnar Bragi tækju sæti
á þingi að nýju birtist síðan á vef Al-
þingis skömmu áður en þingfundur
hófst í gærmorgun. Gunnar Bragi
sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu
þar sem hann sagðist hafa tekið sér
leyfi vegna þess að hann vildi skoða
hug sinn, safna kröftum og ræða síð-
an við bakland sitt.
„Ég iðrast og hef beðist fyrirgefn-
ingar á orðum mínum og geri það enn
á ný. Ég hef leitað ráðgjafar og um
leið notið mikils skilnings og stuðn-
ings ættingja, vina og félaga innan
flokks og utan. Þakka ég þeim hvatn-
inguna og traustið,“ sagði þar jafn-
framt.
„Fyrstu dagar þingfunda á nýju
ári, og framganga forseta Alþingis að
undanförnu, er með þeim hætti að
annað er óhjákvæmilegt en að nýta
sér allan rétt til þess að vera inni á
þeim leikvelli þar sem að mér er sótt
og svara fyrir mig á þeim vettvangi en
ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á
nýjan leik til starfa minna á Alþingi í
dag [gær].“
Í samtali við mbl.is í gær sagði
Gunnar Bragi að margir á Alþingi
hefðu tekið vel á móti þeim en eðlilega
væru ekkert allir ánægðir með að fá
þá til baka. Í óundirbúnum fyrir-
spurnatíma í upphafi þingfundarins
sagði Halldóra Mogensen, þingmaður
Pírata, m.a. að það hefði sett hana úr
jafnvægi að sjá Klaustursmenn sitja í
þingsalnum eins og ekkert hefði
ískorist. „En við verðum víst að halda
áfram,“ bætti hún við.
Jón Steindór Valdimarsson, þing-
maður Viðreisnar, sagði að sér þætti
nú „heldur skuggsýnt“ yfir þing-
salnum. Fleiri þingmenn gagnrýndu
endurkomu þingmannanna á sam-
félagsmiðlum og í fjölmiðlum. Lilja
Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
átti m.a. orðaskipti við Gunnar Braga
í þingsalnum og sagði í kjölfarið við
fréttamann RÚV að hún hefði ekki átt
von á þeim Gunnari Braga og Berg-
þóri á Alþingi í gær og að samtal
hennar við Gunnar Braga hefði snúist
um það. Hún hefði ekki verið sátt við
þessa framkomu þeirra.
Þingflokksformenn funduðu
Steingrímur J. Sigfússon boðaði
þingflokksformenn á fund um há-
degisbil í gær. Hann staðfesti í sam-
tali við mbl.is að óskað hefði verið eft-
ir fundinum, fyrst af einum þing-
flokksformanni en fleiri hefðu síðan
tekið undir. „Ég varð að sjálfsögðu
við því. Við hittumst í hádeginu og
ræddum okkar innri mál,“ sagði
Steingrímur en vildi ekki fara nánar
út í tilefni fundarins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þing-
flokksformaður Flokks fólksins, sagði
við mbl.is að tilefni fundarins hefði
verið endurkoma Gunnars Braga og
Bergþórs Ólasonar.
„Þetta er mjög leiðinlegt mál. Þeir
virðast ætla að koma með offorsi inn á
þingið aftur og þeim konum sem lent
hafa á milli tannanna á þeim líður ekki
vel yfir því hvernig þeir haga sér,“
sagði Guðmundur Ingi við mbl.is.
Morgunblaðið/Hari
Endurkoma Lilja Alfreðsdóttir gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni eftir að hafa átt við hann orðastað.
Blendin viðbrögð við
endurkomu þingmanna
Gunnar Bragi og Bergþór Ólason tóku á ný sæti á Alþingi
Þingmenn Bergþór Ólason kastar
kveðju á þingmann í salnum í gær.
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Stærstu sóknir þjóðkirkjunnar, sem
eiga og reka höfuðkirkjur landsins,
eru orðnar svo fjársveltar vegna
langvarandi niðurskurðar sóknar-
gjalda að Jöfnunarsjóður sókna hef-
ur í raun breyst í neyðarstyrktarsjóð
sókna. Þetta kemur fram í minnis-
blaði Odds Einarssonar, fram-
kvæmdastjóra kirkjuráðs, um stöðu
viðhalds fasteigna þjóðkirkjunnar og
verkefni Jöfnunarsjóðsins.
Styrkir til viðhalds höfuðkirkna
hafa verið langstærsta verkefni
sjóðsins undanfarin ár. Upplýsingar
úr ársreikningum sókna 2011-2017
og ályktun frá þeim tölum fyrir árin
2009-2010 benda til þess að uppsöfn-
uð viðhaldsskuld fasteigna sókna frá
því að skerðing sóknargjalda hófst
árið 2009 sé um þrír milljarðar. Þá er
miðað við að eðlilegt reglubundið
viðhald þurfi að nema 1,75% af
brunabótamati eignanna. Sóknir
þjóðkirkjunnar voru 266 talsins árið
2017.
Tekjur Jöfnunarsjóðs sókna eru
18,5% af sóknargjöldum til þjóð-
kirkjusafnaða. Skerðing sóknar-
gjalda hefur því bein áhrif á tekjur
sjóðsins. Fjárheimild sjóðsins á gild-
andi fjárlögum er 402 milljónir en
ætti að vera 645 milljónir samkvæmt
lögum. Sjóðurinn er því skertur um
243 milljónir á þessu fjárlagaári eða
um tæp 38%.
Sótt var um styrki úr sjóðnum upp
á 865 milljónir króna á þessu ári.
Viðhaldsskuld upp á 313 milljónir
myndaðist á árinu 2017 en viðhalds-
þörfin það ár var 537 milljónir króna.
„Að óbreyttu þyrfti þannig að hækka
framlög til sjóðsins upp í 850 m.kr.
næstu tíu ár til að hann geti styrkt
það sem upp á vantar af viðhaldi
sóknanna á fasteignum sínum á
þessu ári og unnið niður viðhalds-
skuldir síðustu tíu ára,“ segir í
minnisblaðinu.
37 sóknir í mikilli viðhaldsskuld
Skrá um sóknir þjóðkirkjunnar
sem sýna uppsafnaða viðhaldsskuld
upp á 20 milljónir eða meira á
árunum 2011-2017 fylgir minnis-
blaðinu. Þar eru 37 sóknir taldar upp
og er uppsöfnuð viðhaldsskuld
þeirra samtals tæplega 1,7 milljarð-
ar á tímabilinu. Þeirra á meðal eru
allar sóknir Reykjavíkurprófasts-
dæmanna nema Hallgrímssókn. Hún
hefur getað sinnt viðhaldi umfram
reglubundna þörf síðustu ár vegna
tekna af þjónustu við ferðamenn.
Dómkirkjusókn í Reykjavík er
efst á listanum með uppsafnaða við-
haldsskuld upp á 97,6 milljónir
króna. Næst kemur Akureyrarsókn
með uppsafnaða viðhaldsskuld upp á
93,9 milljónir. Í þriðja sæti er Nes-
sókn með 92,5 milljóna uppsafnaða
viðhaldsskuld og í fjórða sæti er
Grafarvogsókn með uppsafnaða við-
haldsskuld upp á 90 milljónir.
Benda má á að raunveruleg við-
haldsþörf einstakra sókna getur ver-
ið mun meiri en útreiknuð viðhalds-
skuld segir til um.
Skerðing sóknargjalda segir til sín
Morgunblaðið/Eggert
Dómkirkjan Uppsöfnuð viðhaldsskuld sóknarinnar er tæpar 100 milljónir.
Uppsöfnuð viðhaldsskuld fasteigna sókna þjóðkirkjunnar 2009-2017 um þrír milljarðar Jöfnunar-
sjóður sókna er í raun orðinn neyðarstyrktarsjóður sóknanna, að sögn framkvæmdastjóra kirkjuráðs
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Þorrinn gengur í garð í dag. Sífellt
algengara verður að veitingamenn
bjóði upp á annars konar veitingar en
hefðbundinn þorramat á þorrablót-
um. Lambalæri þykir nær sjálfsagt
og margir líta ekki við súrmat.
„Á þorrablótum þarftu að vera
með eitthvað sem hentar fyrir græn-
metisætur,“ segir Ísak Runólfsson,
eigandi Veislunnar. Ísak sér um mat-
inn á þorrablóti Seltirninga laugar-
daginn 2. febrúar og þar verður nóg í
boði fyrir þá sem ekki kæra sig um
þorramat. „Á blótinu hér á Nesinu
verð ég með grænmetisrétt. Svo verð
ég líka með kalkún og lambalæri.
Lambið er orðið staðalbúnaður á
þorrablótum,“ segir hann.
Rúnar Gíslason, yfirmatreiðslu-
meistari og eigandi Kokkanna veislu-
þjónustu, kannast vel við þessa
þróun. „Það eru alltaf ákveðnir hópar
sem taka hrein þorrahlaðborð en það
eru mjög margir sem vilja fá lamba-
læri með. Þá eru menn að reyna að
halda í eitthvað þjóðlegt þó að það sé
ekki þorramatur.“
Hann segist ekki bjóða upp á
vegan-mat á sjálfu þorrahlaðborðinu
en þegar pantaðar eru stærri veislur
er algengt að veganistar panti sér-
staklega. „Þá er það ekkert þorra-
tengt þó að við setjum kannski
reykta papriku eða eitthvað slíkt með
upp á stemningu.“
Rúnar segist raunar greina mikla
aukningu í vegan-óskum síðustu 4-5
árin. „Þetta er orðið ofboðslega hátt
hlutfall oft. Ég þekki þetta líka vel,
ég missti elstu dóttur mína í þetta!“
Ísak í Veislunni segir að þorrablót-
in hafi breyst mikið síðustu ár. „Það
er ekki gamla trogið sem ræður. Fólk
vill bara fá að hitta fólkið úr hverfinu
og þetta er kannski eina slíka
skemmtunin ár hvert. Mér finnst
áhuginn á þorrablótum vera að
aukast þó að fólk sé minna fyrir
þorramatinn en áður.“
Grænmeti og
kalkúnn á blótinu
Minni áhugi á þorramatnum en áður
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þorramatur Það er af sem áður var
að fólk sæki í trogið á þorrablótum.