Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.02.2019, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.02.2019, Blaðsíða 19
17.2. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19 þjóðavísu og viðurkenndustu rannsóknir leggja til?“ Mikið veltur á kennaranum, nálgun hans og áhuga. „Tökum Sissel Skolvik sem dæmi. Ein aðferðin sem hún beitir er að keyra saman bíla með bókstöfum á; bíll með stafnum „í“ keyrir upp að bíl með stafnum „s“. Úr verður „ís“. Einfalt en skilvirkt. Kennarinn þarf að hafa vald á aðferðafræðinni og kunna að vekja áhuga hjá börnunum og gefa hverju barni rétta áskorun.“ „Þekking leiðir til betra samfélags“, eru ein- kunnarorð háskólans sem Hermundur kennir við í Þrándheimi og hann segir þá speki að sjálfsögðu eiga við hér líka. „Látum börnin ekki vera tilraunadýr. Þau eiga eingöngu það besta skilið. Þetta hef ég verið að segja við fólk hér heima og mun halda því áfram.“ Hann bendir á að Ísland sé númer 35 af 69 löndum þegar lestrarkunnátta er mæld; neðst Norðurlandaþjóðanna og fyrir neðan okkur séu þjóðir sem við alla jafna berum okkur ekki saman við. Viljann virðist vanta „Auðvitað er þetta ekki ásættanlegt. Við erum lítið land og með samstilltu átaki eigum við að geta rokið upp þennan lista. Það er ekki flókið að taka á þessum málum en viljann til að nota viðurkenndustu aðferðina og fylla skólana af góðu lesefni sem fangar áhuga virðist vanta. Og án vilja gerist afskaplega lítið.“ – Hvar vantar viljann, hjá kerfinu sjálfu? „Já, það virðist vera. Menn sjá ekki tæki- færin. Hvernig sem á því stendur.“ Ekki þarf að leita langt yfir skammt að fyrir- myndum. Finnum hefur til dæmis vegnað vel í PISA-könnunum á lestri og Heikki Lyytinen, sem er einn af fremstu fræðimönnum þeirra á þessu sviði, hefur bent Hermundi á, að góð þjálfun og góð bókasöfn séu lykilatriði í þessu sambandi. „Í Finnlandi eru bókasöfn samastað- ur fyrir fjölskylduna á laugardögum, þar sem hún kemur saman í góðu tómi til að velja bækur fyrir vikuna. Gera íslenskar fjölskyldur það?“ Að sögn Hermundar hefur sigið jafnt og þétt á ógæfuhliðina í lestri íslenskra barna frá aldamótum, sérstaklega síðustu tíu árin. Máli sínu til stuðnings dregur hann úr pússi sínu línurit þar sem ásinn vísar niður á við. „Hvar endar þetta?“ spyr hann hugsi. Sama máli gegnir með náttúrufræði og stærðfræði. Þar hefur einnig hallað undan fæti. „Ég spurði John Stein, með alla sína reynslu, út í þetta og hann er ekki í neinum vafa um að hrunið hafi haft gífurlega mikil áhrif. Í dag vinnur fólk og vinnur. Ég þekki marga sem eru í tveimur störfum. Ferðamönn- um hefur fjölgað gríðarlega á Íslandi á allra síðustu árum og einhver þarf að sinna öllu þessu fólki. Hver er þá eftir heima til að lesa með börnunum á kvöldin? Ég veit að það er örugglega ekkert þægilegt að hlusta á þetta en vinur er sá er til vamms segir, eins og þar stendur.“ Skilningur en ekki hraði Hermundur segir mikinn misskilning að leggja svona mikla áherslu á leshraða. „Ég hef búið meira og minna í Noregi í þrjá áratugi og hef aldrei heyrt um þær áherslur þar. Börnin mín hafa aldrei verið hraðamæld í lestri. Allt sem skiptir máli er að börnin læri að skilja það sem þau eru að lesa. Og í því sambandi er hraði aukaatriði, aukinn hraði kemur með aukinni þjálfun.“ Hann nefnir íslenskan kunningja sinn sem dæmi en hann fékk sjö ára gamlan son sinn til að lesa fyrir sig. Sonurinn rauk í gegnum text- ann, þannig að hann varla náði andanum á eft- ir. „Hvers vegna lestu þetta svona hratt, vinur minn?“ spurði pabbinn hvumsa. „Okkur er sagt að gera það í skólanum,“ svaraði snáðinn. Skildi hann eitthvað af því sem hann var að lesa? Nei. Og ekki pabbinn heldur. „Hvað liggur eiginlega á?“ spyr Hermund- ur. „Fyrir utan að botna ekki neitt í því sem þau eru að lesa þá eru líkur á því að börnin þrói með sér streitu og kvíða þegar svona geyst er farið, áskoranir verða of miklar. Hraði er mikilvægur í frjálsum íþróttum. Sjáðu bara Usain Bolt. En í lestri skiptir hann miklu minna máli. Þú finnur bara þann hraða sem hentar þér. Það er lesskilningurinn sem er aðalbreytan.“ Hann bætir við að Stanislas Dehaene, einn fremsti sérfræðingur í heiminum á sviði heila og færni, hafi sýnt fram á með rannsóknum sínum að bókstafshljóð, kunnátta og það að verða læs sé það allra mikilvægasta fyrir lestr- arfærni. Lesfimi eða leshraði? Þegar Hermundur hefur fært þetta í tal hér heima fær hann gjarnan þau svör að ekki sé verið að mæla leshraða heldur lesfimi. Mæl- ingarnar snúist ekki um að telja lesin orð á mínútu, heldur rétt lesin orð á mínútu. „Að mínu viti eru þetta hártoganir. Breytan er hraði og öll viðmið snúast um hann.“ Menntamálastofnun (MMS) hefur fram- kvæmt mælingar sem innihalda leshraða hjá ca. 40.000 börnum og unglingum í grunnskólum landsins frá 1. til 10. bekkjar frá hausti 2017. „MMS kallar þessar mælingar „lesfimi“ sem byggist á lestrarnákvæmni, leshraða og hryn- rænum þáttum tungumálsins. Lesfimiviðmið sýna síðan fjölda rétt lesinna orða á mínútu. Fyrstu niðurstöður frá september 2017 til sept- ember 2018 sýndu aukningu upp á 11 orð á 10 aldurshópa, eða 1,1 orð á hvern aldurshóp. 9. bekkur stóð í stað og 10. bekkur sýndi bætingu upp á tvö orð. Vonandi eru þetta ekki lýsandi tölur fyrir lesskilning,“ sagði Hermundur í pistli hér í blaðinu um síðustu helgi. „Þessar niðurstöður eru vonbrigði og hljóta að benda til þess að nálgunin sé sennilega ekki rétt,“ segir hann í þessu samtali. „Nær væri að spyrja: Hversu margar bækur lastu seinasta mánuðinn og hverjar voru skemmtilegastar? Við þurfum ekki að auka hraðann, heldur kveikja neistann.“ Fleiri nemendur, 4 af hverjum 10, heltast úr lestinni í framhaldsskóla á Íslandi en í Noregi, 3 af hverjum 10, og Hermundur er ekki í vafa um að það sé partur af sama vandanum. „Það er eitt af því sem við þurfum að ræða. Það sem ég brenn fyrir er að koma með nýja hugsun sem byggist á viðurkenndum rannsóknum inn í menntakerfið og vekja fólk til umhugsunar og umræðna.“ Mikilvægt að miðla – Þar komum við að öðru máli sem þú hefur látið þig varða, samspili vísinda og samfélags? „Já, mér hefur alltaf þótt mikilvægt að miðla upplýsingum áfram til samfélagsins og í þeim löndum sem ég þekki best til, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi og fleiri löndum, þá er þetta samtal milli fræði- og vísindamanna og samfélagsins mjög virkt. Það er eitt af helstu hlutverkum okkar fræðimannanna að miðla af þekkingu okkar. Það gerum við með því að halda fyrirlestra, skrifa greinar í blöð og tíma- rit, skrifa bækur og svo framvegis. Þetta mætti bæta hérna á Íslandi; samtalið er ekki að eiga sér stað í eins ríkum mæli og það háir okkur. Mönnum hættir líka til að fara strax í vörn og tækla manninn í stað þess að skoða hvað hann hefur að segja. Auðvitað eigum við vísindamenn sem tjá sig opinberlega, eins og Kára Stefánsson, en hann skrifar meira um pólitík en lækna- og erfðavísindi sem er hans sérsvið. Yfirleitt eru það frábærir pistlar sem vekja mikla athygli en við þurfum meiri um- ræðu um vísindi.“ – Eru íslenskir vísindamenn umræðufælnir? „Ekki endilega. Landið er hins vegar svo of- boðslega lítið og tengslin liggja svo víða að ég tel menn veigra sér við að stíga fram. En þeg- ar kemur að málum eins og lestrarþjálfun get- um við ekki leyft okkur þetta. Það er alltof mikið í húfi fyrir þjóðina.“ Hann bendir á að margfeldisáhrifin séu fljót að telja. „Tökum mælingu MMS sem dæmi, sem ég gat um áðan. Þar eru 40.000 börn mæld sem þýðir að nánustu aðstandendur þeirra eru um það bil helmingi fleiri. Ef við teljum svo ömmur og afa líka þá erum við komin 280.000 manns sem málið varðar. Það er ekkert smá- ræði.“ Opnum fyrir umræðuna – Hvernig tekur fólk þessum málflutningi þín- um? „Almennt vel. Ég hef til dæmis fengið fjöl- marga tölvupósta eftir að grein mín um mæl- ingar á leshraða birtust í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um seinustu helgi. Tilgangur- inn með þeim skrifum var að vekja umræður og fyrir vikið fagna ég því að fólk hafi samband og kalli jafnvel eftir frekari upplýsingum og samtali. Það er margt gott í íslenska mennta- kerfinu en við verðum að hafa dug og vilja til að taka á því sem betur má fara. Fyrsta skref- ið er að opna fyrir umræðuna.“ – Og þú munt halda áfram að hamra járnið? „Já, á meðan ég fæ viðbrögð við skrifum mínum og hugmyndum þá mun ég halda áfram að koma þeim á framfæri, ekki síst hvað varð- ar lestur og nám barna. Það eru miklir mögu- leikar fyrir hendi og við þurfum að fá sem flesta sem málið varðar að borðinu til að ná sem bestum árangri.“ Hermundur lætur sig fleira varða en lestur; að undanförnu hefur hann verið að rannsaka hverjir skara fram úr í samfélaginu á hverjum tíma. Hann hefur rætt við á þriðja tug sér- fræðinga á því sviði og er með bók í smíðum. „Þetta er mjög spennandi svið sem hefur verið tiltölulega lítið rannsakað og ég hef beint sjón- um mínum að fólki frá ýmsum tímum, lifandi og látnu. Má þar nefna Charles Darwin, HC Andersen, Björk Guðmundsdóttur og Magnus Carlsen. Allt hefur þetta fólk skarað fram úr á sínu sviði, þökk sé samblandi af meðfæddri hæfni, ástríðu og þrotlausri vinnu. Og til að finna ástríðuna þarf að kveikja neistann. Það er gömul saga og ný.“ Hermundur segir mikilvægt að börn fái bækur við hæfi í lestrar- kennslu, þannig megi auka áhugann. Morgunblaðið/Ómar ’Búið er að setja mæl-ingar á leshraða í dul-argervi. En það blekkir ekkimig frekar en aðra fræði- menn. Breytan er hraði og öll viðmið snúast um hann.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.