Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Side 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Side 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.8. 2019 Í nýrri ljóðabók, Til í að vera til, sem kom út á sjötugsafmæli hans á fimmtudag- inn, leikur Þórarinn Eldjárn eins og svo oft áður á lífsförunaut sinn, íslenska tungu, líkt og konsertfiðlari á hljóðfæri sitt. Það er afskaplega auðvelt að byrja að rembast þegar leikið er á blessað tungumálið, látið mig þekkja það, en sem fyrr virkar þetta gjörsamlega áreynslulaust hjá Þórarni; orðin leika á als oddi. Ég nefni þetta þegar fundum okkar ber saman á vinnustofu Þórarins daginn fyrir stór- afmælið. „Það er nú allur gangur á þessu, skal ég segja þér,“ svarar hann með hægð. „Sumt kemur nokkuð auðveldlega en annað þarfnast meiri yfirlegu en sést í eftirskoðun. Stundum segir fólk við mig að málið yrki kvæðin sjálft en þannig er það ekki. Því miður.“ Hann seilist eftir annarri ljóðabók, Vísna- fýsn, og flettir upp ljóði sem heitir einfaldlega Áreynslulaus stíll. Þar kveður Þórarinn: Ég læt ykkur þennan texta í té tónninn er falskur og rangur. En lesendur halda að harðlífið sé húrrandi niðurgangur. Það verður líklega ekki betur dregið saman. En aftur að nýju bókinni. Titillinn, Til í að vera til, bendir afdráttarlaust til þess að lífs- neistinn sé hvergi nærri slokknaður enda þótt skáldið hafi nú náð þessum virðulega aldri. „Það er alveg rétt,“ segir Þórarinn og bros- ir. „Þegar maður var yngri þótti manni sjötug- ir menn vera komnir á grafarbakkann – ef ekki hreinlega í gröfina. Og í mörgum tilfellum var það þannig. Fólk varð fyrr gamalt. Þetta hefur breyst og í dag eru mínir jafnaldrar upp til hópa í góðu andlegu og líkamlegu formi enda meiri vitund um gildi þess að hreyfa sig og hugsa um hvað maður lætur ofan í sig. Svo eru almenn lífsþægindi auðvitað meiri. Sjálfum líð- ur mér ekki eins og gömlum manni en það gæti verið vottur um hrikalega sjálfsblekkingu.“ Þórarinn rifjar upp að þegar hann endurnýj- aði ökuskírteinið sitt seinast, fyrir allmörgum árum, þá þótti honum drepfyndið að það rynni ekki út fyrr en árið 2019; þegar hann yrði sjö- tugur. „Þá fannst mér þetta óralangt í burtu en viti menn, hingað er ég kominn. Sem minnir mig á það, ég þarf að endurnýja öku- skírteinið.“ Listamaður hættir ekki út af aldri Sjötugsafmælið er stundum haft sem viðmið í samfélagi okkar mannanna þegar kemur að því að ljúka dagsverkinu og setjast í helgan stein. Þórarinn er fljótur að benda á, að það eigi ekki við um sjálfstætt starfandi listamenn. „Sem betur fer! Ég hef einmitt verið spurður talsvert um þetta undanfarið: Ertu ekki að fara að hætta? Svarið er einfalt: Listamaður hættir ekki út af aldri. Það er eitthvað annað sem dregur úr honum. Mitt erindi er að skapa og koma einhverju frá mér. Það hefur ekkert breyst.“ Á hinn bóginn hefur eiginkona Þórarins, Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur, nýlega lok- ið störfum, enda þótt hún sé þremur árum yngri en bóndi hennar. „Það þýðir að við hjón- in höfum nú frjálsari tíma saman. Ég hef alltaf verið býsna hreyfanlegur í minni vinnu en hennar störf hafa yfirleitt verið meira bind- andi.“ Hverfum nú aftur í tímann. Snemma beygist krókurinn, eins og sagt er, og Þórarinn áttaði sig ungur á því hvert hann stefndi í lífinu. „Áhugi minn á skáldskap byrjaði snemma og ég var ekki gamall þegar mig fór að langa að helga mig ritstörfum; strax í gagnfræðaskóla var ég byrjaður að reyna að pota einhverju saman og hélt því áfram í menntaskóla. Á þeim tíma var ég þó ekki viss um að það væri gagn- legt eða ætti erindi. Eins og gengur.“ Það var millileikur að fara í nám í bók- menntum, með dálítilli heimspeki í bland, og barst leikurinn til Lundar í Svíþjóð. Tilgang- urinn var eftir sem áður að búa í haginn fyrir feril á ritvellinum en brygðist það gæti hann alla vega snúið sér að kennslu í íslensku eða bókmenntum. Veturinn 1972-73 var Þórarinn hér heima og las þá íslensku við Háskóla Ís- lands. Fil. kand.-prófi lauk hann frá Lundi 1975. „Margir blanda þessu saman, ritstörfum og kennslu, en það æxlaðist þannig hjá mér, eftir að fyrsta ljóðabókin mín kom út 1974, að ég gat gert skrifin að vinnu. Við bjuggum í Stokk- hólmi á þessum tíma og þetta gekk upp með heimilisstörfum og barnastússi. Eitt leiddi svo af öðru.“ Orðinn vanhæfur í allt annað Afkoma ungra skálda er auðvitað ekki sjálf- gefin eða trygg á þessu pínulitla málsvæði okkar en Þórarinn kveðst þó snemma hafa komist af, líkt og hann væri í föstu starfi við kennslu eða annað slíkt. Draumurinn rættist. „Ég hef haft lifibrauð mitt af ritstörfum allar götur síðan.“ – Og snýrð þér vísast ekki að öðru úr þessu? „Nei, ég er löngu orðinn vanhæfur í allt ann- að.“ Ekki er hlaupið að því að draga 45 ára veg- ferð saman í fáeinum setningum í blaðaviðtali en þegar Þórarinn horfir um öxl þykir honum standa upp úr að hann hafi alla tíð verið svo lánsamur að bókum hans hafi verið vel tekið af hinum almenna lesanda. „Ég get ekki kvartað með það. Ég hef líka verið svo gæfusamur að höfundarverk mitt er býsna fjölbreytt; ég hef ort ljóð fyrir börn og fullorðna, stundum greini ég raunar ekki þarna á milli, skrifað mikið af smásögum, nokkrar skáldsögur og tekið að mér alls konar verkefni, svo sem í leikhúsi. Ég hef líka fengist töluvert við þýðingar og meira að segja stundum skrifað í blöð. Það að skipta um stellingar er mjög hollt, að minnsta kosti hefur það verið þannig fyrir mig.“ Hann segir þýðingarnar alltaf hafa farið vel með sínum frumskáldskap. „Það er allt öðruvísi vinna að þýða en að yrkja sjálfur en alls ekki auðveldara. Maður þarf í senn að vera trúr höf- undinum og gefa af sér sjálfur,“ segir Þórarinn og bætir við að hann hafi fengið margvísleg verkefni sem þýðandi gegnum tíðina vegna þess að hann sé einn tiltölulega fárra höfunda hér um slóðir sem hafa tök á bundnu máli. Þórarinn yrkir um starfsferilinn í nýju bók- inni, meðal annars í ljóðinu Arfstarfi. Oft hef ég setið og diktað upp dýrlegan arf, dvalist á svæði mjög gráu. Af kostgæfni hef ég þar unnið mjög eigingjarnt starf í íslenskra bókmennta þágu. Spurður út í þetta svarar Þórarinn sposkur: „Þetta er auðvitað öðrum þræði útúrsnúningur og uppgerðarlítillæti en hitt er alveg rétt að það er alls ekki sjálfgefið að menn geti alla sína starfsævi sinnt því sem þeir brenna helst fyrir.“ – Þá komum við aftur að íslenskri tungu. Er ekki óhætt að tala um djúpa ást í því sam- bandi? „Jú, það má alveg orða það þannig. Frá því ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir eru sagðir; fyrst og fremst á íslensku, sem er mitt móðurmál, og það er sér- stakt að hafa atvinnu af því að skrifa á tungu- máli sem er talað af svo fáum. Á hinn bóginn tel ég íslensku ekki merkilegra mál en öll önnur og hef mikinn áhuga á öðrum tungumálum líka. Í menntaskóla var enska mitt mesta og besta fag og síðar gerðist ég handgenginn sænskri tungu þegar ég bjó þar. Ég elska öll þessi mál en ís- lenskuna samt mest. Möguleikar hennar, dýpt og blæbrigði eru svo mikil og það hef ég alla tíð reynt að nýta mér sem best.“ Hér má til gamans hnýta við limru úr Til í að vera til, sem dæmi um það hvernig Þórarinn leikur sér að orðum. Það heitir Ljóðjóðl/ jóðlljóð: Í Sviss er víst lítið um ljóðlist en landið er þekkt fyrir hljóðvist. Svo allt sem er ort er ort upp á sport og ætlast er til að það jóðlist. Íslenskan hefur oft haft það betra. Um það þarf varla að deila. Eins og fleiri hefur Þór- arinn áhyggjur af stöðu mála. Það kemur glöggt fram í nýju bókinni, meðal annars í ljóði sem heitir einfaldlega Fokk: Íslensk tunga á í nokkrum vanda er að kljást við margan ljótan fjanda, gengur nú í gegnum mikinn sjokkeld. Guð hvað ég þrái að hún verði fokkheld. Enskuáhrifin eru yfirgnæfandi „Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af því hvern- ig enskuáhrifin eru yfirgnæfandi,“ útskýrir hann. „Maður sér þess víða merki, til dæmis í töluðu máli og í skrifum fólks á netinu. Heilu setningarnar og frasarnir hafa ruðst inn í mál- ið; má þar nefna orð sem notuð eru í daglegu tali, svo sem „actually“ og „basically“, án þess að nokkur þörf sé á því.“ Hann nefnir titla á bókum og kvikmyndum sem dæmi; fólk hafi þá kinnroðalaust á ensku í stað þess að íslenska þá. „Þetta myndi fólk aldrei gera ef titlarnir væru til dæmis á frönsku eða pólsku. Hvers vegna þá á ensku? Það er móðgun við þá sem ekki kunna ensku. Og þeir eru til á Íslandi.“ Að dómi Þórarins eru vísbendingar um að Ísland sé að verða tvítyngt land; fólk hoppi áreynslulaust úr ensku yfir í íslensku og aftur til baka – í einni og sömu setningunni. „Ég vil vera á varðbergi gagnvart þessu og reyni að gerast ekki sekur um það sjálfur. Þetta er allt annað en að sletta, sem ég geri sjálfur, úr lat- ínu, dönsku og jafnvel ensku. En slettan verð- ur að hafa tilgang og notuð í hófi. Ég viður- kenni að ég hef mikinn áhuga á þessum málum en neita þó að þetta sé fasismi af minni hálfu. Þetta er bara umhyggja fyrir íslenskunni.“ – Og þú vilt hafa hana fokkhelda? „Já, takk. Sérstaklega þegar orðið er notað sem áherslu- og blótsyrði. Ég held raunar að enska orðið „fuck“ þýði allt annað en íslenska orðið „fokk“. Menn halda gjarnan að þeir séu að segja eitthvað allt annað; telja að þeir séu yfirgengilega góðir í ensku en kunna svo lítið sem ekki neitt. Þorsteinn heitinn Gylfason sagði gjarnan að menn kynnu yfirleitt ekkert annað mál en móðurmálið almennilega, nema þá að þeir hefðu alist upp í tveimur löndum. Það verður enginn tvítyngdur eftir á.“ Svo er það blessuð málfræðin. Þar má gera betur. „Tökum nafnið mitt sem dæmi. Það er með einu n-i í þolfalli en kemur sjaldan þannig núorðið. Eigi að síður er ég ekki þeirrar skoð- unar að eyða eigi yfirgengilegu púðri í að leið- rétta smávillur í íslenskukennslu. Það má aldr- ei verða aðalatriðið. Þetta má ekki verða þannig að þeir sem ekki eru vel mæltir þori ekki lengur að stynja upp orði.“ Að sögn Þórarins er það misskilningur að allt í sambandi við málvöndun sé séríslenskt fyrirbæri. „Í öllum vönduðum blöðum úti í heimi, þar sem ég þekki til, eru dálkar þar sem fólk er að velta þessum hlutum fyrir sér. Hvernig segi ég hitt og hvernig segi ég þetta? Má þar nefna Þýskaland, Svíþjóð, Danmörku og Frakkland sem beinlínis ýtir undir stolt vegna tungumálsins.“ Annað sterkt höfundareinkenni hjá Þórarni er húmor. Gott dæmi um það er ljóðið Djúpa laugin í nýju bókinni: Í djúpa laug að dýfa sér dirfska lítil þykir mér. Í stærri háska stefna þaug sem stinga sér í grunna laug. Meðan verð ég við kolann „Mér er afskaplega mikilvægt að geta alltaf verið að koma einhverju saman. Að vera alltaf að. Þannig líður mér best,“ segir Þórarinn Eldjárn rithöfundur sem hélt upp á sjötugsafmæli sitt í vikunni. Hann hefur engin áform um að rifa seglin þótt hann sé kominn á þennan virðulega ald- ur; mun sinna ástríðu sinni af sama kappi hér eftir sem hingað til, sköpunarþörfinni, skáld- skapnum og ekki síst blessuðu móðurmálinu. Og sem fyrr með húmorinn að vopni. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.