Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 15
25.8. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Þegar maður hugsar út í það er það auðvitað mun meiri háski að stinga sér í grunna laug en djúpa. Þórarinn gengst væntanlega við því að vera húmoristi. „Já, ég viðurkenni það hiklaust og skamm- ast mín ekkert fyrir það. Ríkur þáttur í því sem ég skrifa er húmorísk afstaða. Mér er ljóst að oft þykir það ekki fínt en það skiptir mig engu máli. Án þess að bera mig saman við okkar helstu jöfra, svo sem Halldór Laxness og Jónas Hallgrímsson, þá var húmor afskap- lega ríkur í þeirra verkum.“ Svelgist skyndilega á hlátrinum – Hefurðu alltaf átt auðvelt með að sjá spaugi- legu hliðarnar á tilverunni? „Já, bæði það og ekki síður að leika mér með tungumálið. Það hefur alltaf freistað mín. Þess utan held ég að flestir lesendur vilji ekki að bækur séu leiðinlegar. Að því sögðu þá þurfa alvöruþrungin verk alls ekki að vera leiðinleg. Síðan eru auðvitað til húmoristar sem eru leið- inlegir.“ – Svo fylgir auðvitað öllu gríni alvara! „Það er alveg rétt. Stundum getur þetta ver- ið undirferli eða lymska af hálfu höfundarins; hann lokkar fólk á vettvang og lætur svo högg- ið ríða af. Fólk hlær og hlær en svelgist svo skyndilega á hlátrinum.“ – Er þetta meðvitað? „Ekki meðvitað þannig að ég setjist niður og ætli að verða rosalega fyndinn. En þetta er partur af minni aðferð sem höfundur. Ég hef líka ort mikið af alvarlegum ljóðum og það að slík ljóð komi frá manni sem fólk er vanara að sé með kómík eða leik í farteskinu gerir þau mögulega beittari. Þau skera sig frá hinu efn- inu en eru samt af sama meiði.“ Þórarinn segir hina húmorísku afstöðu sína oft tengjast tungumálinu og orðaleikjum og notar þá aðferð gjarnan þegar hann yrkir handa börnum. „Hugmyndin er sú að koma á framfæri hvað íslensk tunga er skemmtileg.“ Á lífsins leið getur verið erfitt að víkja sér undan áföllum. Ekki þarf að segja Þórarni neitt um það en sem kunnugt er hefur hann ekki bara misst einn son, heldur tvo, Kristján og Ólaf. Spurður um þá sáru reynslu svarar hann: „Eins og flestum mun vera ljóst þá er það að missa barn eitthvað það þungbærasta sem hægt er að ímynda sér. Eitthvað sem enginn vill og enginn ætti að þurfa að lenda í. En lifi maður það af sjálfur verður það kannski til þess að maður kann betur að meta það sem vel hefur tekist til og reynir að beina augunum að því. Þetta gerir mann líka sjálfstæðari gagn- vart alls konar vandræðum og veseni sem búið er til af mönnum. Bæði að láta það ekki trufla sig eins mikið og ella eða beinlínis leiða það hjá sér. Af hverju eigum við að vera að velta okkur upp úr heimatilbúnum vandræðum og veseni? Er ekki nóg að hafa hitt?“ Hann þagnar. Enginn þeirra er rithöfundur en synir Þór- arins hafa eigi að síður fetað í fótspor föður síns að því leyti að þeir hafa starfað sjálfstætt á einhverju listrænu sviði. Kristján var tónlist- armaður, það eru Úlfur og Halldór einnig og Ari er uppistandari. Halldór er jafnframt tölv- unarfræðingur með listrænt auga og hannaði meðal annars kápuna á nýja ljóðabók föður síns. Þórarinn deilir skrifstofu með Ara og segir þá feðga hafa komist að því að starf þeirra sé á margan hátt líkt. „Rithöfundar og uppistandarar eru alltaf að krota eitthvað hjá sér. Þarna er ljóðlína, söguefni! hugsa ég og það er eins með Ara, nema hvað hann kallar það „bita“ og „skiss- ur“. Svo verður eitthvað úr sumu og ekkert úr öðru. Það er heldur ekki verra að þetta var áður skrifstofa míns kæra vinar Sigurðar Pálssonar,“ segir Þórarinn og bendir á ljósmynd af skáld- bróður sínum heitnum á veggnum. – Þú hefur án efa verið sonum þínum inn- blástur gegnum tíðina; virkar það á hinn veg- inn líka? „Alveg hiklaust. Það veldur líka dálítilli samkennd að þeir skuli líka vera sjálfstætt starfandi.“ Var í lúðrasveit sem drengur – Kemur tónlistargáfan frá þér? „Ekki vil ég meina það. Ég hlusta mikið á tónlist og var í lúðrasveit sem drengur. En meira varð ekki úr því. Það er hins vegar margt frambærilegt tónlistarfólk í minni ætt og ekki síður móðurættum drengjanna. Móð- uramma þeirra, Anna Sigríður Björnsdóttir, var píanóleikari og hafði mikil áhrif á þá.“ Þórarinn ólst upp á óvenjulegum stöðum; fyrst bjuggu foreldrar hans, Halldóra og Kristján Eldjárn, á Þjóðminjasafninu, þar sem faðir hans gegndi starfi þjóðminjavarðar, og síðar á Bessastöðum eftir að Kristján var kjör- inn forseti lýðveldisins. „Ég tengi meira við Þjóðminjasafnið enda var ég bara eins árs þegar við fluttum í íbúð þar en að verða nítján ára þegar pabbi varð forseti. Fljótlega eftir það fór ég utan til náms en bjó með fjölskylduna á Bessastöðum vet- urinn 1972-73 og á bara ljúfar minningar það- an. Eðli málsins samkvæmt hafa yngri systkini mín þó sterkari taugar til staðarins. Á seinni árum dreymir mig oft heimkomu og þá kem ég alltaf á Þjóðminjasafnið, þar sem allt er til staðar eins og það var.“ – Kom aldrei til álita að verða fornleifafræð- ingur? „Það kann að vera á einhverjum tímapunkti þegar ég var drengur en bókmenntirnar og tungumálið voru þó alltaf aðaláhugamálið. Þannig að ég hugsaði aldrei um fornleifafræð- ina af neinni alvöru. Ég hef auðvitað minn áhuga á þjóðminjum og fylgist með; það er þó frekar liður í almennum áhuga á menningar- sögu í víðum skilningi. Ég hef til dæmis mjög mikinn áhuga á þjóðlegum fróðleik og gladdist gríðarlega þegar ég las bók Ragnars Helga Ólafssonar, Bókasafn föður míns; hann tæklar það efni á skemmtilegan og fróðlegan hátt og snertir á vanda sem mín kynslóð þekkir vel – hvað verður um bækur þegar eigandinn fellur frá? Sjálfur hef ég komið að mörgu dánar- búinu.“ Eins og gefur að skilja er Þórarinn Vestur- bæingur í húð og hár og hefur búið þar nær alla sína ævi. „Ég gekk í Mela- og Hagaskóla og fór síðan í MR sem raunar var eini mennta- skólinn í Reykjavík á þeim tíma; MH kom ekki fyrr en ári síðar. Þess vegna finnst mér alltaf jafnfyndið þegar fólk gerir úr mér ákafan MR- ing. Staðreyndin er sú að ég hafði ekkert val,“ segir hann brosandi en áréttar að vistin í MR hafi verið ljúf og skemmtileg. Að vera alltaf að En nóg af fortíðinni. Við tímamót sem þessi er ekki síður við hæfi að horfa fram á veginn. Hvernig blasir framtíðin við Þórarni Eldjárn? „Að halda áfram sínu juði,“ segir hann og brosir. „Mér er afskaplega mikilvægt að geta alltaf verið að koma einhverju saman. Að vera alltaf að. Þannig líður mér best. Þó að ekki sé fyrirsjáanlegt hvað úr því verður. Ég skrifa sögur og yrki ljóð nokkuð jafnt og þétt og svo eru alltaf einhver stærri verkefni í deiglunni. Sum þokast en önnur ekki. Það er alltaf dálítill stabbi fyrir framan mig. Þetta er það sem ég vil gera, verð að gera og ætla að gera og sé ekki að neitt lát verði á því meðan ég held heilsu og sönsum. Meðan verð ég við kolann.“ „Sjálfum líður mér ekki eins og göml- um manni en það gæti verið vottur um hrikalega sjálfsblekkingu,“ segir hinn sjötugi Þórarinn Eldjárn. Morgunblaðið/Eggert ’Stundum getur þetta veriðundirferli eða lymska af hálfuhöfundarins; hann lokkar fólk ávettvang og lætur svo höggið ríða af. Fólk hlær og hlær en svelgist svo skyndilega á hlátrinum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.