Skessuhorn - 01.07.2015, Qupperneq 22
MIÐVIKUDAGUR 1. JÚLÍ 201522
Sumarlesari
vikunnar
Líkt og síðustu ár gengst Bóka-
safn Akraness fyrir sumarlestri
fyrir börn. „Ekkert býr barnið
betur undir lífið en góð lestr-
arfærni og fæst hún ekki nema
með ástundun,“ segja starfs-
menn bókasafnsins við Dal-
braut á Akranesi og hvetja börn-
in til að skrá sig til sumarlesturs.
Vikulega verður valinn heppinn
sumarlesari og rætt við hann hér
í Skessuhorni. Nú eru sumarles-
ararnir tveir, þau Vigdís Birna
og Nökkvi:
Lesari vikunnar 12.6:
Hvað heitir þú og hvað ertu
gamall/gömul? Ég heiti Vigdís
Birna og ég er 7 ára.
Hvaða bók varstu/ertu að
lesa? Ég var að lesa Mary Popp-
ins og söguna um Malla mont-
rass.
Hvernig var/er hún? Þær voru
bara skemmtilegar.
Hvernig bækur finnst þér
skemmtilegastar? Mér finnst
allavega Disney bækur skemmti-
legar og líka ævintýri.
Hvar er best að vera þegar
maður er að lesa? Uppi í rúmi
hjá mömmu.
Áttu þér uppáhalds bók eða
uppáhalds rithöfund? Ég veit
það ekki alveg, uppáhaldsbók...,
já, Litlu greyin (eftir Guðrúnu
Helgadóttur).
Hvað ætlar þú að verða þeg-
ar þú verður stór? Ég ætla að
vinna í skóla.
Lesari vikunnar 25.06:
Hvað heitir þú og hvað ertu
gamall/gömul? Ég heiti Nökkvi
Snorrason og ég er 9 ára.
Hvaða bók varstu/ertu að
lesa? Ég var að lesa Óvættaför
númer 7.
Hvernig var/er hún? Þetta eru
mjög skemmtilegar bækur og
þær eru stundum mjög spenn-
andi.
Hvernig bækur finnst þér
skemmtilegastar? Óvættaför
eru eiginlega skemmtilegustu
bækur sem ég hef lesið.
Hvar er best að vera þegar
maður er að lesa? Það er best
að vera uppi í rúmi.
Áttu þér uppáhalds bók eða
uppáhalds rithöfund? Sóla er
uppáhalds rithöfundurinn minn
og hún er líka frænka mín.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú
verður stór? Ég hef ekki mikið
verið að spá í því.
Hannibal Hauksson hefur starf-
að sem ferðamálafulltrúi hjá Akra-
neskaupstað í rúmt ár. Skessuhorn
heyrði í Hannibal og fór yfir stöð-
una í ferðamálum á Akranesi. Hann
segir að stöðug aukning ferða-
manna hafi verið á Akranesi und-
anfarið ár, sem komi kannski ekki
á óvart í ljósi þess að fjöldi ferða-
manna hefur aukist um allt land.
„Það var markmiðið að fjölga gest-
um á Akranesi og það hefur geng-
ið ágætlega. Nú er stefnan sett á
að lengja dvölina þeirra líka,“ segir
Hannibal. „Við erum bæði að herja
á innlenda og erlenda gesti. Íslend-
ingar skipta nefnilega ekki minna
máli en erlendir ferðamenn,“ bætir
hann við. Hann segir að hugmynd-
in sé að nýta það sem fyrir er, þá
geti ferðamenn notið og nýtt það
með heimafólki. „Ég vil gera út á
það sem er ekta, ekki neinn sýndar-
veruleika. Ef maður nýtir það sem
fyrir er, þá nýtist það öllum - bæði
heimamönnum og ferðamönnum.
Einkaframtakið má svo að sjálf-
sögðu koma með nýjar hugmyndir
og gera það sem það vill.“
ÍA vörumerki Akraness
Að sögn Hannibals hafa ferðaþjón-
ustuaðilar á Akranesi fundið fyrir
aukinni umferð ferðamanna und-
anfarið. Þeir sem reki gistiaðstöðu
séu í ágætis málum og að það hafi
aukist að greitt sé með erlendum
gjaldmiðli eða greiðslukortum á
veitingahúsum. „Svo er ég oft niðri
á Upplýsingamiðstöð sem er stað-
sett við Akratorg. Þar sé ég að traff-
íkin á Skökkina er góð, enda er
kaffihúsið góð viðbót við það sem
var hér fyrir. Í haust og vetur var
einnig töluvert um að fyrirtæki úr
Reykjavík kæmu hingað í dagsferð-
ir og það hefur verið vinsælt hjá út-
skriftarhópum leikskóla og grunn-
skóla að koma í heimsókn á Skag-
ann, kíkja á Byggðasafnið, í vitann
og í Garðalund.“ Hannibal bætir
því við að ekki megi gleyma hlut-
verki ÍA í þessu samhengi. Haldin
séu íþróttamót á þeirra vegum og
þá fyllist bærinn af fólki. „ÍA sinnir
góðu hlutverki í að ná hingað fólki.
Það má eiginlega segja að ÍA sé
vörumerki Akraness fyrir innlenda
gesti. Í maímánuði voru haldnir vel
heppnaðir Akranesleikar í sundi og
Norðurálsmótið tókst ótrúlega vel.
Það gekk allt upp og gestirnir fengu
frábært veður.“ Hann segir að tölu-
verð aðsókn hafi verið á tjaldsvæði
Akraneskaupstaðar þegar Norður-
álsmótið var, enda margir sem hafi
viljað komast í samband við raf-
magn. „Það var uppselt í rafmagn á
fimmtudeginum. Gestirnir á tjald-
svæðinu voru alveg til fyrirmyndar
og þetta gekk ótrúlega vel.“
Laugardagarnir
skemmtilegir
Áframhaldandi viðburðir verða á
Akranesi í sumar, sem henta bæði
innlendum og erlendum ferða-
mönnum. Hannibal nefnir sem
dæmi matar- og antíkmarkað sem
verður á Akratorgi alla laugar-
daga. „Laugardagar eru skemmti-
legir dagar á Akranesi í sumar. Þá
er markaðurinn við Akratorg, hægt
að fá sér kaffi á Skökkinni, Sam-
steypan er opin fyrir gesti, Búkolla
er opin hluta úr degi og fleiri versl-
anir auk þess sem flottu veitinga-
staðirnir okkar eru opnir. Meg-
in hlutverk markaðarins er að efla
Akranes sem verslunarbæ og vekja
athygli á þeirri þjónustu sem er í
boði hér. Svo er safnið alltaf opið
líka,“ útskýrir hann. „Svo má ekki
gleyma að Írsku dagarnir eru að
fara af stað. Það verður stór og flott
hátíð,“ heldur hann áfram. Einn-
ig verður Íslandsmót í golfi haldið
á Akranesi í lok júlímánaðar. Hluti
af starfi ferðamálafulltrúans er að
hafa umsjón með tjaldsvæði Akra-
neskaupstaðar. Hannibal segir árið
í fyrra ekki hafa verið gott á tjald-
svæðinu, en slæmt veður sé líkleg
skýring á dræmri aðsókn. „Það var
sama sagan annars staðar á Vest-
urlandi, allavega hjá þeim sem ég
heyrði í. Það er hægt að nota úti-
legukortið á tjaldsvæðinu hér og
við höfum fundið fyrir aukningu í
notkun á því. Erlendir ferðamenn
nota það ekki síður en Íslending-
ar.“ Hann segir marga vera hrifna
af tjaldsvæðinu á Akranesi, sérstak-
lega erlenda ferðamenn. „Þeir eru
svolítið öðruvísi en Íslendingarn-
ir. Þeir vilja ekkert endilega tjalda
þar sem eru tré, enda sjá þeir nóg
af trjám úti. Þeim finnst æðis-
legt að geta tjaldað rétt við sjóinn
með þetta útsýni. Þeir elska að sitja
þarna á kvöldin og horfa yfir sjóinn,
á Snæfellsjökulinn og sólsetrið.“
Vitinn er vinsæll
Vinsælasti ferðamannastaðurinn á
Akranesi er vitinn á Breið. Hannibal
segir stöðuga umferð af fólki vera í
vitann. Aukið hafi verið við opnun-
artímann í fyrra sem tilraunaverk-
efni sem hafi gengið vel. „Það var
því ákveðið að vitinn yrði opinn frá
klukkan 10 til 16 í sumar og Hilmar
Sigvaldason var ráðinn í fullt starf
sem umsjónarmaður vitans. Heim-
sóknirnar hafa aukist um tæp 60%
á milli ára en þó vantar tölur fyrir
mánuðina frá ágúst fram í desemb-
er, þannig að aukningin er pottþétt
meiri. Gestirnir núna í maí og júní
eru komnir yfir það sem var í fyrra.
Til dæmis komu um fimm hundruð
manns í vitann einn föstudag núna
í byrjun júní. Auk þess er aukning í
heimsóknum í Upplýsingamiðstöð-
ina og núna í maí og júní eru heim-
sóknir nánast jafn margar og allt
árið 2012,“ segir Hannibal. Ýms-
ir listviðburðir eru haldnir í vit-
anum reglulega, svo sem tónleikar
og listasýningar. Slíkar sýningar
verða í vitanum meira og minna í
allt sumar. „Athygliverðri listasýn-
ingu sem opnaði í maí er að ljúka
núna. Það var fyrsta sýningin eft-
ir erlendan listamann í vitanum. Í
júlí verða fleiri sýningar, það verða
fjórir listamenn á þremur hæð-
um þannig að það er mikið um list
hér.“ Opnunartíminn í vitanum er
engin tilviljun. Hannibal segir að
hann sé tilkominn út af kaflaskipt-
um í heimsóknum. „Það eru fáir
sem lenda hérna á Skaganum fyrir
tilviljun. Flestir hafa eitthvað tilefni
til að stoppa, eitthvað aðdráttarafl
sem dregur þá að. Flestir sem koma
að skoða vitann koma við hérna á
leið sinni norður í land eða í bæ-
inn. Það er því álagstími hjá okkur
í upphafi dags og svo aftur seinni-
partinn. En vitinn er tæknilega séð
opinn allt árið. Ef það koma hópar
utan opnunartíma er alltaf hægt að
hringja og þá er tekið á móti þeim,“
segir hann.
Mættu koma fleiri
í safnið
Hannibal segir að starf hans sem
ferðamálafulltrúi felist að mestu í
markaðsstörfum. „Mitt starf hefur
aðallega falist í því að koma Akra-
nesi á framfæri. Að byggja upp inn-
viðina og nýta grasrótina. Maður
hefur unnið að því að koma safninu,
vitanum og Langasandi á framfæri.
Við gerðum til að mynda samning
við Icelandair þar sem Akranesi er
komið á framfæri í myndbandi sem
sýnt er í flugvélum flugfélagsins.“
Hann segir að aðsóknin á Safn-
asvæðið í Görðum hafi aukist eitt-
hvað en mætti vera meiri. Líklegt
sé að ferðamenn geri sér ekki grein
fyrir sérstöðu safnsins og því mik-
ilvægt að auglýsa það betur. „Við
höfum verið að reyna að koma því
á framfæri hvernig safn við erum
með, það eru nefnilega margir sem
halda að við séum með víkinga-
safn. Það var því stór hluti í mynd-
bandinu sem sýnt er hjá Icelandair
sem er helgaður safninu. Það hef-
ur verið að bætast við heimsókn-
ir í safnið en gæti verið meira. En
þetta er róleg þróun og tekur sinn
tíma. Góðir hlutir gerast stundum
hægt.“ Hann segir einnig að merk-
ingamál séu ofarlega á lista yfir það
sem á að gera í kynningarmálum.
„Það stendur til að koma upp betri
merkingum og skiltum. Þau mál
eru í vinnslu,“ segir hann.
Hættir í haust
Eftir rúmt ár í starfi hefur Hanni-
bal sagt starfi sínu sem ferðamála-
fulltrúi Akraneskaupstaðar lausu og
hættir í haust. Hann leggur mikla
áherslu á að allt sé í góðu gert og
að ástæða uppsagnarinnar sé sú að
hann langi til að breyta til. „Mig
langar að starfa meira við beina
ferðaþjónustu, þar sem ég hef tæki-
færi til að vera í meira sambandi
við ferðamennina. Ég gaf þessu
sinn tíma og nú veit ég hvað starf-
ið snýst um og hvað ég hef upp á að
bjóða.“ Hannibal segist hafa fulla
trú á Akranesi sem áfangastað fyr-
ir ferðamenn, það er ekki ástæðan
fyrir því að hann ætli að hætta. „Við
erum mjög vel staðsett landfræði-
lega séð. Erum í raun klukkutíma
frá öllu, svo sem miðbæ Reykjavík-
ur, flugvellinum, Bláa lóninu, ís-
göngunum í Langjökli, Snæfells-
nesi, Gullna hringnum og svo fram-
vegis. Við þurfum að vekja meiri at-
hygli á því,“ segir hann. Það kem-
ur ekki á óvart að ferðamálafulltrú-
anum finnist sárlega vanta hótel í
bæinn. Ef hótel yrði opnað á Akra-
nesi myndu ný tækifæri myndast
og önnur tegund af gestum kæmi
á Skagann. „Það kæmi alveg nýr
markhópur. Við erum auðvitað
með fína gististaði en það er önn-
ur tegund gesta sem fer á hótel. Þá
væri hægt að markaðssetja bæinn á
annan hátt. Við erum til dæmis með
góða sali og aðstöðu fyrir fundi og
ráðstefnur en það vantar hótelið,“
segir fráfarandi ferðamálafulltrúinn
að endingu.
grþ
Vigdís Birna.
Nökkvi.
Fráfarandi ferðamálafulltrúi
Akraneskaupstaðar fer yfir málin
Hannibal Hauksson með gamla vitann á Breið í baksýn.