Skessuhorn - 02.12.2015, Qupperneq 14
MIÐVIKUDAGUR 2. DESEMBER 201514
Pallur úr 100% endurunnu plasti
var í sumar settur upp í Vatnshelli í
þjóðgarðinum á Snæfellsnesi. Efnið
sem notað var heitir KLP og er að
stórum hluta endurunnið úr plast-
flöskum sem og undirstöður og
burðarbitar sem spanna fimm metra.
Efnið er framleitt af Lankhorst Re-
cycling í Hollandi sem hefur fram-
leitt og þróað lausnir úr endurunnu
plasti síðastliðna fjóra áratugi. Fyr-
irtækið býður einnig lausnir sem
eru unnar á vernduðum vinnustað
sem staðsettur er á svæði fyrirtækis-
ins. Það er VER ehf á Akranesi sem
flytur inn og selur efnið sem pallur-
inn er gerður úr. Verkið í Vatnshelli
var unnið fyrir Umhverfisstofnun af
fagmönnum frá Kvistfelli ehf. KLP
efnið er tilvalið við aðstæður eins
og eru í Vatnshelli þar sem er mik-
ill raki. Efnið er mun stamara en til
dæmis harðviður. Auk þess er það
viðhaldsfrítt og með 50 ára ábyrgð
framleiðanda, að sögn Magnúsar H.
Sólmundssonar hjá Ver ehf.
Einnig selur VER ehf jarðvegs-
grindur sem notaðar eru í bílastæði,
göngustíga og í landbúnað svo eitt-
hvað sé nefnt og eru þær endurunn-
ar úr plastpokum. Í göngustíg sem
lagður var við Bjarnarfoss á Snæ-
fellsnesi í sumar úr þessu grindum
fóru sem dæmi um 355.000 notað-
ir plastpokar eins og við kaupum í
matvöruverslunum. „Það sem vinnst
með því að nota þessar grindur, t.d.
í bílastæði, þarf ekki frárennslislagn-
ir þar sem vatnið fer niður í gegn-
um þær. Auðvelt að leggja þær þar
sem ekki þarf tæki, grindurnar bera
20 tonna öxulþunga og svo er þetta
einnig góð leið til að losna við plast-
ruslið,“ segir Magnús H Sólmunds-
son hjá Ver ehf. mm
Endurunnar plastflöskur í palli í Vatnshelli
Pallur úr endurunnu plasti markar gönguleið niður í Vatnshelli. Pallurinn inni í Vatnshelli er úr endurunnu plastefni.
Við Bjarnarfoss á Snæfellsnesi hefur plastefni verið notað sem efsta lag göngustíga.
Þarna sjáum við endurunnið plast úr sem nemur 335 þúsund notuðum inn-
kaupapokum.
Göngleið að Fjaðrargljúfri á Síðu, þar sem endurunnið plastefni er notað í stíginn.
B. Sturluson er vaxandi fyrirtæki
sem nú haslar sér völl á Vesturlandi.
Það gerist með því að fyrirtækið
kaupir rekstur flutningafyrirtæk-
isins Ragnars og Ásgeirs í Stykk-
ishólmi. „Þeir hjá Ragnari og Ás-
geiri hafa verið með vöruflutninga
til og frá Stykkishólmi í ein fjórtán
ár. Nú vildu þeir hætta því og ein-
beita sér að ytri hluta Snæfellsness;
Grundarfirði og Snæfellsbæ. Þeir
komu að máli við mig og buðu mér
að kaupa reksturinn í Stykkishólmi
og ég sló til. Við munum hins veg-
ar eiga samstarf og hlaupa undir
bagga með hvorum öðrum á álags-
tímum ef með þarf,“ segir Böðv-
ar Sturluson framkvæmdastjóri B.
Sturluson ehf.
Með bíladellu
frá barnæsku
Yfirtaka fyrirtækis Böðvars á rekstri
Ragnars og Ásgeirs í Stykkishólmi á
sér öðrum þræði sögulegar forsend-
ur. Böðvar er borinn og barnfædd-
ur Hólmari og þar ólst hann upp.
„Öðrum þræði má segja að ég sé
uppalinn í þessu húsi þar sem vöru-
afgreiðslan er í Stykkishólmi. Ég var
alltaf í minni barnæsku að sniglast í
kringum Guðmund Benjamínsson
sem var með vöruflutninga í Stykk-
ishólmi um margra ára skeið. Ég var
bara með svo mikla bíladellu og ólst
upp í götunni fyrir ofan og það var
því nærtækt að leita til Guðmundar
og starfsmanna hans. Svo fór ég að
vinna hjá þeim sem bílstjóri um leið
og ég varð 17 ára gamall á sendi-
bíl og lyftara í útkeyrslu í Stykkis-
hólmi. Síðan hættu þeir rekstri og
Ragnar og Ásgeir úr Grundarfirði
tóku við og ég fylgdi með þangað.
Þar var ég 2003 – 2005. Svo fór ég
í skóla til að læra viðskiptafræði,“
segir Böðvar. Vinnan tók þó yfir
skólasetuna enda var Böðvar orð-
inn reyndur flutningabílstjóri og
stjórnandi vinnuvéla og hugurinn
leitaði alltaf í þá átt. Fyrr en varði
var hann kominn á fulla ferð í eigin
rekstri. Fyrirtækið B. Sturluson var
stofnað í byrjun árs 2009.
Hóf rekstur í hruninu
Böðvar lítum um öxl og lýsir sög-
unni í stórum dráttum. „Þetta var
á umbrotatímum í þjóðfélaginu.
Þarna fór ég í það að selja notuð
tæki og tól úr landi sem losnað hafði
um eftir að efnahagshrunið varð
haustið 2008. Síðan fór starfsemin
að vinda upp á sig. Við hófum að
flytja tæki inn til landsins en seld-
um einnig tæki á milli landa í Evr-
ópu. Ég hef líka stundað viðskipti
með notaða flutningabíla og aðrar
vélar hér innanlands. Svo leiddi eitt
af öðru. Ég fékk verkefni fyrir bíla
sem ég átti og þar með hófst rekst-
ur og akstur flutningabíla, eink-
um fyrir Eimskip. Síðan 2013 höf-
um við verið með nokkra bíla fyrir
Eimskip þar sem við höfum stund-
að vöruflutninga um allt land. Árið
2011 tókum við líka við umboði
fyrir sænskt fyrirtæki sem framleið-
ir sólaða hjólbarða fyrir vörubíla og
rútur og höfum við flutt inn mik-
ið af hjólbörðum frá þeim. Upp úr
áramótum 2011/2012 varð svo við-
snúningur hér á landi. Útflutning-
ur á notuðum bílum og vélum frá
Íslandi hætti og við fórum í stað-
inn að flytja þetta inn fyrir verktaka
og flutningsaðila. Þá mátti kannski
segja að kreppan í þessum atvinnu-
greinum væri að baki og menn
vantaði tæki til að anna verkefnum
hér innanlands og endurnýja þau
sem fyrir voru í landinu.“
Þrátt fyrir að viðsnúningur hafi
orðið í verktakageiranum þá seg-
ir Böðvar að þessi hluti atvinnu-
lífsins fari ekki jafn hratt af stað og
sumir hafa látið í veðri vaka. „Menn
eru varari um sig, varkárari en þeir
voru fyrir hrun. Þeir velta hlutun-
um meira fyrir sér, hvað þeir kosta
og þar fram eftir götunum. Þensl-
an er ekki eins og hún var misser-
in fyrir hrun. Flestir hafa lært af
reynslunni.“
Starfsmönnum fjölgar
Aðspurður segir Böðvar að fyrirtæk-
ið B. Sturluson hafi gengið ágætlega.
„Hróður okkar hefur vaxið með ári
hverju. Sumum þykir þetta vera dá-
lítið sérstök blanda að vera bæði í
flutningum og síðan stunda viðskipti
með bíla og tæki en við höfum aldrei
farið neitt í grafgötur með það. Nú
vinna sex manns hjá fyrirtækinu en
okkur mun fjölga í níu starfsmenn
með rekstrinum í Stykkishólmi. Það
fylgja tvö stöðugildi með í kaupun-
um og við munum síðan bæta við
einum starfsmanni. Engar uppsagn-
ir verða í kjölfar þessara kaupa okkar
í Stykkishólmi. Frekar munum við
reyna að fjölga störfum þar held-
ur en hitt. Aðalstöðvar fyrirtækisins
verða eftir sem áður við Vagnhöfða í
Reykjavík en hér eftir mun ég verða
með annan fótinn fyrir vestan.“
Böðvar segir að kaupunum á
rekstrarhluta Ragnars og Ásgeirs
fylgi ekki bílafloti heldur sé um að
ræða kaup á vöruafgreiðslunni í
Stykkishólmi. „Við verðum þarna
bæði með vöruafgreiðslu fyrir Flytj-
anda og Landflutninga. Ég nota
mína bíla í þessa flutninga til og frá
Stykkishólmi.“
Björt framtíð í
Stykkishólmi
Framkvæmdastjóri B. Sturluson
segist sjá marga góða möguleika til
framtíðar í Stykkishólmi. „Stykk-
ishólmur er að sækja í sig veðrið.
Það kom ákveðin deyfð yfir bæinn
þegar hörpuskelstofninn hrundi en
sjávarútvegsfyrirtækin hafa verið
að rétta hægt og bítandi úr kútn-
um eftir það. Nú er skelin vonandi
að koma aftur og því munu fylgja
umsvif. Svo hafa opnast tækifæri í
tengslum við nýjan og stærri Bald-
ur og stamstarf við flutningsaðila á
sunnanverðum Vestfjörðum.
Síðan sjáum við að ferðaþjónust-
an er að verða mjög öflug í Stykk-
ishólmi. Það krefst mikilla aðfanga.
Við sjáum það alveg á flutningun-
um hvað þeir aukast yfir sumartím-
ann þegar ferðamennirnir eru hvað
flestir í bænum. Svo er Bónus með
verslun í Stykkishólmi og þang-
að kemur fólk víða að bæði af Snæ-
fellsnesi og vestan af fjörðum,“ seg-
ir Böðvar.
Hann bætir svo við að margt
mæli með því að festa sig í sessi fyr-
ir vestan. „Ég leyni því heldur ekki
að ég sé með þessu ákveðna leið til
að flytja heim í Stykkishólm í fram-
tíðinni með mína fjölskyldu. Við
búum í Reykjavík en höfum stefnt
að því að flytja vestur. Konan mín
Guðrún Tinna Ólafsdóttir vinnur
reyndar líka hér hjá B. Sturluson
og er fjármálastjóri. Við stefnum
að því að vera með rekstur bæði í
Stykkishólmi og Reykjavík í fram-
tíðinni. Flutningadeildin verður
þá fyrir vestan en söludeildin hér í
Reykjavík.“ mþh
Böðvar Sturluson framkvæmdastjóri B. Sturluson ehf:
Tekur við flutningum
til og frá Stykkishólmi
Böðvar Sturluson í liðinni viku við fyrirtæki sitt á Vagnhöfða í Reykjavík.
Bílar frá B. Sturlusyni í veiðarfæraflutn-
ingum hjá Hampiðjunni.
Vinnuhesturinn P-210 á vegum úti eitt
sumarkvöld.