Skírnir - 01.10.2009, Blaðsíða 33
SKÍRNIR
LÝÐRÆÐI, RÉTTLÆTI OG HAUSTIÐ 2008
287
ekki um að stjórnskipulag Bandaríkjanna tæki tillit til þeirra, held-
ur að það væri þeirra stjórnskipulag ekki síður en hinna hvítu. Við
getum orðað það svo, að réttindabaráttan snerist ekki um að þræl-
arnir yrðu teknir með í reikninginn, heldur að reikningurinn væri
þeirra ekki síður en húsbændanna. Lokamarkmiðið var vitanlega
að til yrði eiginlegt samfélag sem byggðist á hugsjón um almanna-
heill sem tæki til hinna svörtu með sama hætti og hinna hvítu.
Eg hygg — og ég mun rökstyðja það ítarlegar hér á eftir — að
þær hræringar sem hrun fjármálakerfisins hratt af stað hafi verið
til marks um gliðnun í samfélaginu. Þær voru til marks um að það
félagslega aðhald sem reglur, viðmið og hefðir samfélagsins skapa,
hafði rofnað. Þær eru líka til marks um að fólk leit ekki lengur svo
á að það deildi kjörum með þeim sem fóru með pólitísk og efna-
hagsleg völd í samfélaginu með þeim hætti að líf þess væri líf í
sanngjörnu samfélagi jafningja. Og loks voru þessar hræringar til
marks um að lög samfélagsins voru ekki lengur álitin ásættanleg
umgjörð um líf í samfélagi. Þetta síðasta atriði þýðir að sjálft rétt-
arríkið skorti siðferðilega réttlætingu.8
Þegar þau lögmál réttlætisins, sem einkenna samfélagið, birtast
fólki sem ranglæti — og ekki bara einstökum ógæfumönnum
heldur hópi fólks sem getur ekki kannast við að hafa gert neitt
misjafnt — þá er grundvellinum kippt undan þeirri félagslegu ein-
ingu sem er forsenda samfélagsins. Þá birtast þær kvaðir, sem sam-
félagið leggur á borgarana, ekki sem sanngjarnar kvaðir sem fólk
deilir með öðrum, heldur sem ósanngjarnar og jafnvel þrúgandi.
Byrðar samfélagsins, sem áður virtist sjálfsagt að bera sem hluta af
því að búa í samfélagi við annað fólk, birtast sem ranglæti, jafnvel
þrældómur.9 Þá getur stjórn ríkisins naumast birst fólki sem
annað en ofbeldi og þá er tómt mál að tala um réttlæti og lýðræði.
8 Ég held því fram að réttarríkið þurfi á siðferðilegri réttlætingu að halda. Sú hug-
mynd er ekki óumdeild en verður að teljast ríkjandi. Meðal talsmanna þess að
réttarríkið þurfi á slíkri réttlætingu að halda má nefna Platon og Aristóteles úr
fornöld Grikklands, Tómas af Aquino frá 13. öld, seinni tíma heimspekinga eins
og Immanuel Kant og John Stuart Mill, og loks ýmsa sem telja má samtíma-
heimspekinga, allt frá Hönnuh Arendt til Johns Rawls. Sömu sögu er raunar að
segja um frjálshyggjumenn eins og Robert Nozick og Friedrich Hayek.
9 Þetta er kjarninn í grein minni „Alveg glymjandi þrælahald".