Litli Bergþór - jul 2018, Qupperneq 19
Litli-Bergþór 19
Ég hafði einhvernveginn aldrei verið sáttur við
það, að talað væri um Litla Bergþór í þágufalli
sem: „Litla Berþóri“. Hef alltaf talið eðlilegt að
þetta nafn beygðist eins og Þór: Hér er Þór, um
Þór, frá Þór til Þórs. Ég er þannig, þegar íslenskt
mál er annarsvegar, að ég vil halda mig við það
sem mér finnst rökrétt, en ekki bara einhverja
tilfinningu eða venju.
Þetta mál kom til tals á fundi ritstjórnar og þar
komst ég að því, að ég væri í minnihluta með
þessa skoðun mína. Þar með taldi ég rétt að leita
til Árnastofnunar til að fá úrlausn. Öfugt við
það, sem ég átti von á fékk ég ítarlegt svar við
fyrirspurn minni, þó vissulega hafi það ekki verið
mér að skapi.
Sá sem svaraði var Ari Páll Kristinsson, sonur
Rannveigar Pálsdóttur og Kristins Kristmunds-
sonar, fyrrum skólameistarahjóna á Laugarvatni.
Hér fylgir svar hans:
Helstu heimildum okkar ber öllum saman
um beyginguna Bergþór, Bergþór, Bergþóri,
Bergþórs. Með „heimildum“ á ég hér við
ritið Nöfn Íslendinga og enn fremur Staf-
setningarorðabókina, Málfarsbankann og
Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en
þrjár síðastnefndu heimildirnar koma fram
undir vefgáttinni málið.is.
Beygingin með Bergþóri í þágufalli er einnig
í samræmi við mína máltilfinningu og annarra
sem ég hef borið málið undir.
Það er auðvitað rétt sem þú segir að liðir
nafnsins eru Berg- og -þór.
Staðreyndin er samt sú að -þór beygist
öðruvísi sem seinni liður tveggja atkvæða
samsettra karlmannsnafna heldur en sem
sjálfstæða eigin-nafnið Þór.
Þar má t.d. benda á að algenga nafnið
Steinþór er í þágufalli Steinþóri.
Sambærilegt er svo reyndar líka þgf. Halldóri
enda er -dór sögulega til orðið úr sama efni og
-þór.
Á hinn bóginn er bæði til í dæminu -i og ekki
-i í þágufalli samsettra karlmannsnafna með
-þór ef nafnið er fleiri en tvö atkvæði. Þannig
er nafnið Sigurþór til dæmis í heimildum ýmist
Sigurþór eða Sigurþóri í þágufalli.
En reglan er sem sagt skýrari a.m.k. í þessum
tveggja atkvæða nöfnum; þágufallið er:
Bergþóri, Steinþóri o.fl.
Það er alls ekki einsdæmi í nöfnunum með
-þór að tilteknir nafnliðir hegði sér öðruvísi
í tvíkvæðum samsetningum en sem sjálfstæð
nöfn eða sjálfstæð orð. Sambærilegt er t.d. að
finna í liðnum -geir og nafninu Geir. Nafnið
Ásgeir (og fleiri slík) er alltaf í þágufalli Ásgeiri
enda þótt Geir sé í þágufalli endingarlaust
(landsdómur réttaði yfir Geir).
Skylt þessu, en ekki alveg sambærilegt, er að
það er ekki svo sjaldan í íslensku að orð hafi
tiltekna beygingu í almenna orðaforðanum
(t.d. björg, fá enga björg sér veitt ) en aðra
sem eiginnöfn (Björg, hjá henni Björgu).
Þótt það skipti ekki máli í sambandi
við spurninguna þá má nefna til gamans
varðandi Þór í þágufalli (hjá Þór Jónssyni)
að endingarleysið í kerfinu fær þarna líklega
frekari stuðning af því að til er nafnið Þórir
(hjá Þóri Jónssyni) og þannig má greina milli
manna þegar rætt er um hann Þór en ekki
hann Þóri.
Svarið er sannarlega þakkarvert og þarft að
fá þetta mál einhvernveginn á hreint. Hvað mig
varðar breytir það hinsvegar litlu, þar sem ég er
ráðinn í því, hér eftir sem hingað til að tala um
Bergþór í þágufalli. Ég verð ef til vill eitthvað
mýkri gagnvart fólki sem vill bæta i-inu við.
Páll M. Skúlason:
Frá Litla Bergþór -i