Litli Bergþór - Jul 2018, Page 22

Litli Bergþór - Jul 2018, Page 22
22 Litli-Bergþór Kórsöngur í Tungum á 20. öld Sigurður Þorsteinsson. Geirþrúður Sighvatsdóttir: Tungnamenn hafa lengi verið þekktir fyrir góðan söng og mikinn söngáhuga. Söngur bænda og gesta þeirra í Tungnaréttum undir stjórn Vatnsleysumanna er vel þekktur svo eitthvað sé nefnt, þá hefur kórastarf oft staðið með miklum blóma. Söngáhugafólk hér hefur líka verið heppið að hafa öfluga frumkvöðla í söngmálum, eins og Þorstein Sigurðsson á Vatnsleysu (1893- 1974), sem spilaði á orgel og stjórnaði söng í áratugi, og seinna þá miklu snillinga, Dr. Róbert Abraham Ottósson, Glúm Gylfason og Hilmar Örn Agnarsson, sem hver um sig setti sitt mark á söngmálin í héraðinu. Blaðamaður Litla-Bergþórs brá sér á fund Sigurðar Þorsteinssonar á Heiði (f. 1924) til að heyra nánar um það, hvernig kórstarf hófst í Tungunum í byrjun 20. aldar. Sigurður hefur það eftir föðurömmu sinni, Sigríði Þorsteinsdóttur á Vatnsleysu, að fyrsti kór sem vitað er um að stofnaður hafi verið í Biskupstungum, Karlakór Biskupstungna, hafi verið stofnaður á Vatnsleysu haustið 1926 að frumkvæði sonar hennar, Þorsteins Sigurðssonar bónda þar. Boðaði hann menn til fundar heima á Vatnsleysu og byrjaði aðeins að æfa þá um haustið, en hélt síðan æfingum áfram árið eftir. Var Þorsteinn stjórnandi kórsins í þau 30 ár sem hann starfaði. Það var ekkert einfalt mál fyrir bændur að komast á kóræfingar í þá daga, menn urðu að ganga eða ríða, oft um langan veg. Þeir sem voru í karlakórnum voru: Guðmundur í Austurhlíð, Egill í Múla, Lýður og Kristján á Gýgjarhóli, Helgi í Hjarðarlandi, Ingvar á Hvítárbakka, Einar Ingvarsson á Hvítárbakka, Gísli Bjarnason í Lambhúskoti, Guðjón Björnsson á Reykjavöllum, Eiríkar tveir, eldri og yngri, í Fellskoti, Loftur á Felli, Erlendur á Vatnsleysu og seinna Björn Erlendsson, Loftur á Iðu (sambýlismaður Bríetar) og seinna Ingólfur sonur hennar. Ég vona að ég gleymi engum. Þeir Iðumenn þurftu að fá lánaða hesta handan ferjunnar til að komast á æfingar. Í upphafi voru um 10 manns í kórnum og æft til skiptis í sitt hvoru húsinu á Vatnsleysu. Þegar fram liðu stundir stækkaði kórinn en var þó alltaf innan við 20 manns. Við frændurnir, Sigurður Erlendsson og Sigurður, Einar Geir og Bragi Þorsteinssynir komum inn í kórinn um 17-18 ára aldurinn. Æfingar hófust yfirleitt eftir hádegið og stóðu fram til klukkan sex eða svo. Þá þurftu bændur að komast heim í kvöldmjaltir. Sigurður minnist þess að árið 1928, þegar hann var fjögurra ára, söng kórinn á 20 ára afmæli Ungmennafélags Biskupstungna í gamla Vatnsleysuhúsinu. Sama ár dó ársgömul dóttir þeirra Erlendar og Kristínar á Vatnsleysu og söng kórinn við húskveðjuna á Vatnsleysu lagið „Sofðu, sofðu litla barnið blíða“ og er það greypt í minni Sigurðar hvað þetta var fallegt lag. Þegar kistan var borin út spurði hann ömmu sína Sigríði hvert þeir væru að fara með Jóhönnu. „Hún er að fara í ferðalag“ sagði amma hans þá. Enda erfitt að útskýra dauðann fyrir fjögurra ára barni. Kórinn söng víða á samkomum, t.d. söng hann alltaf á jólasamkomu í samkomuhúsinu á Vatnsleysu þriðja í jólum. Sigurður man einnig eftir söng kórsins á árshátíð Framsóknarfélags Árnesinga í Þrastaskógi í ein tvö skipti, á íþróttamóti í Þjórsártúni, á afmælishátíð MBF, og þeir sungu einnig fyrir Búnaðarþingsfulltrúa í Reykjavík. Þá var svokölluð bændavika í útvarpinu og söng kórinn þar. Var söngurinn tekinn upp og gefinn út á plötu.

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.