Litli Bergþór - jul. 2018, Síða 27
Litli-Bergþór 27
Vígslubiskupskosningar. Í byrjun apríl var
endurtekin kosning til embættis vígslubiskups í
Skálholti, en fyrri kosning í haust var ógild. Kosið
var aftur á milli sr. Axels Árnasonar (89 atkv.), sr.
Eiríks Jóhannssonar (246 atkv.) og sr. Kristjáns
Björnssonar (305 atkv.). Þar sem enginn hlaut
meirihluta greiddra atkvæða, þurfti að kjósa aftur
milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði hlutu, þ.e.
sr. Eiríks og sr. Kristjáns og lauk þeirri kosningu
14. maí. Úrslit urðu þau að Kristján Björnsson
var kjörinn vígslubiskup í Skálholti með 371
atkvæðum eða 54%. Eiríkur hlaut 301 atkvæði
eða 44%. Á kjörskrá voru 939 og kjörsókn 72%.
Hundur finnst dauður. Tíkin Kókó fannst dauð
í skurði í Laugarási 25. apríl eftir að hafa verið
saknað í nokkra daga. Þetta er ekki í fyrsta skipti
sem hundar drepast í skurðum þar. Nýlega þurfti
að aflífa tíkina Töru eftir að hún brann illilega
í heitu afrennsli þar. Íbúar þorpsins eru orðnir
langþreyttir á opnum skurðum og vilja úrbætur.
Regína Rósa leikskólastjóri hefur sagt upp
störfum og mun hætta í vor. Hún hyggst halda á
heimaslóðir í Reykjanesbæ og eru henni þökkuð
góð störf.
Ónýt klæðning á vegum. Vegir hér í
Bláskógabyggð hafa verið ákaflega lélegir í vetur
og hafa alls ekki þolað mikla vetrarumferð, en
hún hefuraukist ár frá ári undanfarið. Undirlagið
þolir ekki álagið þegar frost, snjór, þýða og
rigningar skiptast á. Umferðin veldur því að smátt
og smátt myndast göt í efsta lag klæðningarinnar.
Það veldur grjótkasti og framrúðutjóni og algengt
er að dekk springi og felgur eyðileggist. Óvíst
er um að tryggingar greiði slíkt tjón. Við lá að
vegurinn frá Múla suður fyrir Holtakot breyttist í
malarveg og aðrir vegir voru missignir og brotið
úr köntum. Í blaðaviðtali líkti oddvitinn ástandinu
við rússneska rúllettu þegar ekið væri á helstu
stofnbrautum sveitarfélagsins í vetur og kallaði
eftir stórátaki í samgöngumálum og vegaviðhaldi,
t.d. í formi þjóðargjafar í tilefni 100 ára fullveldis
Íslands í sumar.
Fingralangir leiðsögumenn. Margeir Ingólfs-
son hefur sett upp hestagerði og bílaplan við
þjóðveginn neðan við bæinn Brú, til þess að
ferðamenn geti komist í návígi við íslenska
hestinn án þess að stofna öðrum vegfarendum
í hættu með því að nauðhemla í hvert sinn sem
þeir sjá hesta við veginn. Setti hann einnig upp
sjálfsafgreiðslu fyrir hestaköggla svo ferðamenn
geti gefið hestum. Hann kvartar hinsvegar undan
þjófóttum leiðsögumönnum og bílstjórum, sem
hann segir taka ófrjálsri hendi mikið magn köggla
og deila til ferðamanna á sínum vegum. Kveður
svo rammt að þessu að sölunni kann að verða
hætt.
Hrútaheimtur. Síðast liðið haust hurfu þrír
kollóttir hrútar úr heimalandi Miðhúsa og fundust
þeir ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Tveir þessarra
hrúta heimtust síðan óvænt þ. 26. apríl s.l. í
sumarbústaðalandinu á Efri-Reykjum. Voru þeir
vel fram gengnir og ekkert á því að láta góma sig.
Afmælishátíð á Espiflöt. Haldið var upp á 70
ára afmæli garðyrkjustöðvarinnar 1. maí ásamt
formlegri opnun viðbyggingar, þar sem pökkun,
vökvunarbúnaður og kælir ásamt öðru verður
staðsettur. Margmenni mætti og gestir fengu
höfðinglegar móttökur.
Boltar, vesti og keilur KSÍ gaf ung-
mennafélögum Biskupstungna og Laugdæla
nýja bolta, vesti og keilur til nota á æfingum hjá
félögunum. Samanlagt eru um 70 börn að æfa
fótbolta með þessum félögum og vakti aukin
þátttaka uppsveitabarna í fótboltanum svo mikla
athygli KSÍ manna að þeir sendu fulltrúa sinn á
staðinn til að afhenda gjöfina og hitta börnin á
æfingu. Þjálfarar ungmennafélaganna hafa unnið
mikið og gott starf á undanförnum árum og haldið
vel utan um krakkana, og eflaust skemmir ekki hve
árangur íslensku karla- og kvennalandsliðanna
síðustu misserin hefur verið góður.
Malbiksskemmd og 2 ónýtar felgur.