Litli Bergþór - jul. 2018, Síða 36
36 Litli-Bergþór
farþegi þurfti maður að hlusta á langar ræður um
þá sem komust framúr honum. Þar komu fram
andstæður hjá föður mínum, að þessi hugmaður
sem þurfti að drífa hlutina áfram þyrfti að vera
svona rólegur undir stýri. Á efri árum var hann
á ferðinni norður í Húnavatnssýslum, Eiríkur
bróðir hans farþegi. Blönduóslöggan lét hann
stöðva bílinn. Það mun líkast til vera óvanalegt að
þeir piltar stöðvi menn fyrir hægan akstur, en því
var þannig varið í þetta sinn. Lögreglumennirnir
fengu sína lesningu frá mínum manni. Má geta
nærri hvernig hún hefur hljóðað.
Framkoma
Pabbi var gestrisinn, sérstaklega ef gestirnir voru
í uppáhaldi hjá honum. Við eldhúsborðið vildi
hann oft eiga síðasta orðið. Hann hafði ekki
mikla þolinmæði fyrir mönnum sem voru honum
ósammála og var langrækinn. Ef svo bar við, gat
eitt tilfelli þar sem menn voru á öðru máli orðið til
þess, að hann tók menn ekki í sátt svo áratugum
skipti. Hann var ekki alltaf mildur í dómum um
aðra. Mér blöskraði oft hversu stóra dóma hann
felldi um búskaparhætti annarra. En hann átti það
líka til að tala mjög fallega um fólk. Einu sinni
gekk hann fram af mér þegar hann rak meinlausan
fóðurbílstjóra út úr eldhúsinu í Helludal. Ég
spurði hverju sætti. ,,Ég þoldi hann ekki, hann hló
svo hátt og þetta er montbelgur“. Ekkert fór eins
illa í minn mann og mont. Lundin var viðkvæm
og hann átti það til að rjúka upp, en var oftast
fljótur niður aftur. Sennilega hefur þarna komið
til óöryggi.
Aldrei hef ég orðið var við annað en að
samferðamenn hans hafi haft á honum mætur.
Sumir hafa þó gert góðlátlegt grín og hermt eftir
honum í mín eyru. Roskinn vegagerðarmaður
sagði mér fyrir nokkrum árum af því að á þeim
vinnustað hefði verið talið vissara að hefilstjórar
sem hefluðu afleggjarann að Helludal fengju
fylgd fullorðinna, geta má sér til um hvers vegna.
Marga hef ég hitt sem voru börn þegar hann gerði
út vörubíl og eiga góðar minningar um hann er
hann leyfði þeim að sitja í bílnum heilu dagana
og gaf sér góðan tíma til spjalls. Honum var lagið
að ná hylli barna.
Afrétturinn og tófan
Pabbi var unnandi náttúrunnar og ekki síst óbyggð-
anna. Væri hann staddur á Tungnamannaafrétti
eða annarsstaðar á fjöllum breytti hann um
persónueinkenni, öll streita hans og þrjóska hvarf
þar. Mjög sótti hann í að fara á afréttinn og var
hann þar manna kunnugastur og var nokkuð góður
með sig hvað það varðaði. Hvergi leið honum
betur. Síðustu árin sem faðir minn lifði reyndi ég
að gera honum dagamun öðru hverju og þá var
Kjalarsvæðið oftast efst á óskalistanum. Síðasta
sumarið sem hann lifði fórum við tveir saman
norður Kjöl í einmuna blíðu og héldum þaðan til
Ólafsfjarðar. Í þeirri ferð gáfum við okkur betri
tíma en áður og tókum marga útúrkróka. Ekkert
hafði skolast út af örnefnum og hlýddi hann mér
vel yfir, rétt eins og hann gerði þegar ég fór fyrst
með honum þessa leið fimm ára gamall.
Á fjöllum stundaði pabbi lengi refaveiðar
á vorin. Lengst af með Kristni vini sínum í
Austurhlíð. Þeir félagarnir höfðu endalausa
þolinmæði, jafnvel heilu vikurnar, við að bíða eftir
að komast í skotfæri við tófuna. Slíka þolinmæði
hafði Tómas Tómasson ekki við bústörfin heima
í Helludal. Ég held, eftir á að hyggja, að allur
tíminn sem hann eyddi í það verkefni í fast að 40
ár, hafi skipt miklu máli fyrir hann. Ég er ekki viss
um að hann hefði lifað svona lengi og verið við
þetta góða heilsu ef sá tími hefði farið í annað. Má
ég til með að geta þess að fáir menn höfðu betri
áhrif á föður minn en Kristinn, alla tíð, hvort sem
var við grenjavinnslu eða annað.
Kostir, gallar og áhugamál
Höfuðkostir föður míns voru mikil vinnusemi
og þar með talin stundvísi. Honum var mikið í
mun að standa við orð sín. Auk þess bjó hann yfir
mikilli gæsku gagnvart börnum og skepnum. Það
áttu þeir sameiginlegt faðir minn og Steinar bróðir
hans. Stelpan okkar Sigrúnar kom í heiminn
hálfu öðru ári áður en pabbi kvaddi og það var
ekki minni gleði sem greip um sig hjá honum, en
foreldrunum.
Pabbi var fróðleiksfús um sumt, svo sem
um landið og þjóðlegan fróðleik. Þar með talið
tungumálið okkar, en nýyrði voru honum ekki
að skapi. Hann bjó yfir frásagnargáfu sem lítið
bar á og býsna góður penni var hann, ef hann
vildi það við hafa. Á efri árum tók hann saman
fróðleik um afréttinn. Hann sagði mér oft frá