Fréttablaðið - 19.09.2015, Blaðsíða 32
„Það var fyrsta ákvörðunin sem
ég tók og hún var mjög góð,“ segir
Jón. Samningurinn var til sex ára og
skítalaun að hans sögn. „Þetta var
týpískur samningur fyrir unga punga.
Þú bara sendir þeim eitthvað,“ rifjar
Jón Arnór upp. Í kjölfarið barst betra
tilboð en Jóni leist ekki á blikuna.
Smærra félag, Trier, falaðist einnig
eftir kröftum Jóns sem samdi við
félagið til eins árs.
„Það var planið. Sanna sig og fara
annað. Liðið var lakara en fyrir vikið
fékk ég miklu meiri spilatíma.“
Missti aldrei svefn yfir NBA
Óhætt er að segja að Jón Arnór hafi
sannað sig á sínu fyrsta ári í atvinnu-
mennsku.
„Þú veist aldrei hver er að horfa,“
segir Jón Arnór. Fulltrúar NBA-liðsins
Dallas Mavericks heilluðust af fram-
göngu Jóns Arnórs og úr varð að hann
hélt til Texas sumarið 2004.
Jón spilaði með Dallas í sumar-
deildinni þar sem leikmenn reyna að
sanna að þeir séu verðugir fyrir aðal-
deildina um veturinn. Í framhaldinu
fór á annan tug leikmanna í prufur
þar sem niðurskurðurinn var ekki
ósvipaður og í keppnum á borð við
American Idol. Hið ótrúlega gerðist,
frá sjónarhorni litla Íslands í það
minnsta. Jón Arnór fékk fimm ára
samning hjá Dallas.
„Þegar maður hugsar aftur þá var
þetta auðvitað svaka mikið. Ég tók
þessu samt með stóískri ró og missti
aldrei svefn. Þetta var eitthvað sem
maður ætlaði sér og sá fyrir sér. Svo
gerðist það.“
Hann viðurkennir þó að honum
hafi fundist aðeins óraunverulegt
þegar hann mætti í klefann með
stjörnunum í liði Dallas.
„Það var ákveðið Bítlamóment.
Vá, þetta eru svakastjörnur. En svo
var það farið.“
Mikil vonbrigði í Dallas
Landsliðsmaðurinn þakkar fyrir að
stjörnurnar í liðinu, Dirk Nowitzki
og Steve Nash, voru jarðbundnir
persónuleikar eins og Jón lýsir þeim.
Jón varði töluverðum tíma með þeim
auk Mexíkóans Eduardo Nájera.
Aðspurður hvort Nowitzki og Nash
hafi verið nálægt því að komast á
boðskortið fyrir brúðkaupið hans
og Lilju Bjarkar Guðmundsdóttur í
sumar hlær Jón.
„Maður verður að heyra í mönnum
allavega síðustu tíu ár til að þeir kom-
ist á listann!“
Annars hafi flest verið frekar
ópersónu legt og um harðan heim að
ræða í Dallas.
„Allir eru að hugsa um rassgatið
á sjálfum sér. Margir búnir að vera í
deildinni í mörg ár,“ segir Jón. Hann
hafi þó lært mjög mikið af því að
umgangast leikmennina. Á æfingum
var hart barist en lítið um hittinga
utan þeirra eins og Jón átti eftir að
venjast síðar í Evrópu. Þrátt fyrir
margt jákvætt voru mikil vonbrigði
að fá aldrei tækifærið með aðalliðinu
um veturinn.
„Mér var samt sagt að ég fengi ekki
að klæðast treyjunni fyrsta árið,“
segir Jón. Engu að síður var tímabilið
langt og minnir landsliðsmaðurinn á
að hann er keppnismaður. „Það var
pirrandi. Alveg sama hvað ég stóð
mig vel á æfingu og átti fullt erindi
á völlinn fékk ég ekki tækifæri. Ég
æfði eins og rotta, lyfti á fullu og var
líklega í mínu besta formi nokkru
sinni.“
Svo varð Jóni ljóst að tækifærið
kæmi aldrei.
Skítakuldi í Rússlandi
Jón Arnór var á fimm ára samningi
hjá Dallas og þurfti vafalítið hug-
rekki til að stíga út úr NBA-deildinni.
Þótt Jón Arnór væri ekki að spila þá
hugsaði Dallas hann til framtíðar.
Þrátt fyrir allt var hann aðeins tví-
tugur fyrsta og eina árið í NBA og
til samanburðar eru nýliðar sem
koma úr háskólaboltanum 22 ára.
Það skipti ekki máli. Jón vildi spila.
„Ég fékk tilboð frá Rússlandi sem
var spennandi svo ég spáði ekk-
ert meira í það,“ segir Jón Arnór
sem samdi við glænýtt rússneskt
félag, Dynamo St. Pétursborg.
Stökkið yfir til Rússlands var hins
vegar risastökk.
„Þetta var algjör U-beygja. Á
meðan allt var til alls hjá Dallas
átti félagið í Rússlandi ekki einu
sinni íþróttasal. En þeir byggðu
hann bara,“ segir Jón Arnór
hlæjandi. Eigandinn
átti sand af seðlum en
á meðan salurinn var
í byggingu flökkuðu
Pétursborgarliðar
um Evrópu, æfðu og
spiluðu æfingaleiki. Við tók rúss-
neskur vetur sem var ískaldur og
harður. Jón segir þetta eina ár í Rúss-
landi hafa kennt sér mikið. Hann
lenti hjá færum þjálfara og spilaði
stórt hlutverk með hörkuliði. Það
hafi hjálpað honum í gegnum allt
það sem upp á vantaði utan vallar.
Liðið vann Evrópudeildina og komst
Það er vandræðalegt
hvað ég á lítið eftir
af stúdentsprófinu.
ég ætla mér að klára
Þetta og halda massa
stúdentsveislu, með
húfu og allt.
Jón Arnór klæddist treyju Dallas á
sumrin en fékk aldrei stóra tækifærið.
Jón vann Evrópudeildina með Dynamo
St. Pétursborg.
Mættur til Dallas með Benedikt Guðmundssyni, þjálfara sínum. Með þeim á
myndinni eru Mavericks-feðgarnir Don og Donnie Nelson.
Ökklameiðslin með landsliðinu 2006.
Mynd/Gunnar Freyr Steinsson
Atvinnumannsferillinn
2002-2003 TBB Trier Þýskaland
2003-2004 Dallas Mavericks
Bandaríkin
2004-2005 Dynamo Saint Pet-
ersburg Rússland
2005-2006 Carpisa Napoli Ítalía
2006-2007 Pamesa Valencia
Spánn
2007-2008 Lottomatica Roma
Ítalía
2008-2009 KR Ísland
2009 Benetton Treviso Ítalía
2009-2011 CB Granada
2011-2014 CAI Zaragoza Spánn
2014-2015 Unicaja Spánn
2015- Valencia Basket Spánn
Okkar maður
einbeittur á EM í Berlín.
Leiðtoginn í kunnug-
legum stellingum í Róm.
í úrslit í rússnesku deildinni. Hugur-
inn var samt að miklu leyti bundinn
við Bandaríkin.
„Það var alltaf planið að fara aftur
í NBA,“ segir Jón Arnór og unnu
umboðsmenn hans í því. Honum
bauðst lengri dvöl í Pétursborg en
Jón Arnór gat ekki hugsað sér að
vera annað ár í kuldanum. Gott tilboð
barst frá Napólí.
„Það var svipað og Rússadæmið.
Nýr þjálfari og þeir settu svaka-
legan pening í að búa til hörkulið
sem tókst,“ segir Jón Arnór sem var
í svipuðu og stóru hlutverki. Liðinu
gekk vel og varð meðal annars bikar-
meistari.
Kunni ekki að segja nei
Segja má að ferill Jóns Arnórs í Evr-
ópu hafi verið afar farsæll. Hann lék
stórt hlutverk hjá átta af níu félögum
sem hann var á mála hjá. Einu von-
brigðin voru hálfa árið hjá Valencia
BC, sama félagi og Jón samdi við á
dögunum, en dramatískt augnablik
í leik með landsliði Íslands hafði
mikið um það að segja. Jón Arnór
hafði samið við spænska félagið til
þriggja ára, var á fullu á undirbún-
ingstímabilinu með liðinu en flaug
heim í landsleiki sem voru í gangi yfir
sumarið.
„Þeir voru ekki sáttir við að ég væri
að taka þátt í landsliðinu yfirhöfuð.
Þess vegna var enn verra að ég meidd-
ist,“ segir Jón Arnór sem reif liðband
í vöðva í leik gegn Lúxemborg. „Ég
hefði ekkert átt að vera að taka þátt í
þessu,“ segir Jón Arnór sem langaði að
spila fyrir landsliðið og verja nokkr-
um dögum á Íslandi. Hann sneri því
til Spánar meiddur og í hvert skipti
sem hann sneri aftur til leiks meidd-
ist hann. Í tvígang reif hann vöðva og
auk þess var þjálfarinn sem falaðist
eftir kröftum Jóns rekinn.
„Þetta var erfitt tímabil og stöðug
pressa á mig að ná mér af meiðsl-
unum,“ segir Jón. Reynsluleysi í þeim
efnum hafi orðið honum að falli. „Mig
vantaði reynsluna að segja nei,“ segir
Jón sem telur að hann hefði þurft að
fá lengri hvíld til að jafna sig, þó það
væri ekki nema aukavika. Úr varð að
körfuboltaliðið í Róm á Ítalíu óskaði
eftir kröftum Jóns Arnórs sem sneri
aftur í ítalska boltann.
Ætlar að fagna stúdentinum með stæl
Jón lauk tveimur tímabilum á Ítalíu,
sneri heim og varð Íslandsmeistari
með KR vorið 2009, áður en hann
spilaði lokamánuðinn af ítölsku
deildinni með Benetton Treviso.
Hann samdi svo við CB Granada á
Spáni. Þar í landi hefur hann spilað
síðan með fjórum liðum að meðtal-
inni endurkomunni til Valencia. Þar
dvelur hann á hóteli þessa dagana en
hann flaug í gegnum læknisskoðun
í vikunni. Hvort eiginkonan Lilja
Björk flytji út með börnin þeirra
segir Jón alveg óráðið.
„Ég rauk út svo fljótt að við
náðum eiginlega ekki að setjast
niður og tala um þetta,“ segir Jón
Arnór. Lilja er lögfræðimenntuð og
möguleiki er á að hún fari á nám-
skeið til héraðsdómslögmanns úti
í Valencia. Þau þrjú flytji þó örugg-
lega ekki strax.
„Þetta er svo stuttur tími og vesen
að flytja alla út þegar maður veit ekki
með framhaldið. Við þurfum að skoða
þetta betur en vonandi koma þau sem
fyrst í heimsókn.“
Líf atvinnumannsins getur verið
ljúft en sömuleiðis einmanalegt. Frí-
tími utan æfinga og leikja er mikill.
Margir atvinnumenn í íþróttum spila
golf og tölvuleiki. Þannig mætti lýsa
hinum hefðbundna atvinnumanni.
Jón gengst við því fyrra en ekki hinu
síðara.
„Ég eyði núll tímum í tölvuleiki og
hef aldrei verið mikið fyrir þá,“ segir
Jón Arnór. Í ljós kemur að hann er
mikill lestrarhestur og sömuleiðis
mikill áhugamaður um tónlist. Hann
hefur einnig fetað sig stöðugt í átt að
langþráðu markmiði, stúdentspróf-
inu, sem flestir vinir hans luku fyrir
fimmtán árum. Hann hefur verið
utanskóla í Fjölbraut í Ármúla og
tekið þar nokkra kúrsa.
„Það er vandræðalegt hvað ég á
lítið eftir. Ég ætla mér að klára þetta
og halda massa stúdentsveislu, með
húfu og allt,“ segir Jón Arnór og hlær.
Hann segist hafa rætt þetta töluvert
við Pavel Ermolinskij, félaga sinn úr
íslenska landsliðinu, en saman reka
þeir Kjöt og fisk við Bergstaðastræti.
Pavel á sömuleiðis eftir að ljúka stúd-
entinum.
„Við höldum sameiginlega veislu.
Ætli ég verði ekki orðinn fertugur.“
Lilja kletturinn í lífi Jóns
Jón Arnór og Lilja gengu í það heilaga
í sumar. Hann segir líf sitt hafa tekið
miklum breytingum til hins betra
eftir að hann kynntist henni.
„Þegar maður var einn var maður
mikið á klúbbum með strákunum
sem fylgir þessu,“ segir Jón Arnór.
Mikill tími og orka hafi farið í að
stunda skemmtistaðina, fara út að
borða en það hafi minnkað. Hann
sé mun rólegri í tíðinni nú og hafi
þroskast.
„Maður er búinn að gleyma gamla
tímanum, hann skiptir mann engu
máli. Það er fjölskyldan sem gefur líf-
inu gildi,“ segir Jón Arnór sem segir
nærveru konu sinnar og barna veita
sér mikinn styrk og stuðning.
„Lilja er alltaf minn klettur. Ég get
grátið á öxlinni á henni þegar illa
gengur og hún peppar mig upp. Eftir
að við byrjuðum saman hefur þetta
verið lúxuslíf. Það er ástæðan fyrir
því að ég er búinn að gleyma hinu
og sé ekkert annað.“
Með fjögurra ára son og tveggja ára
dóttur er nóg að gera á heimilinu í dag
þegar Jón Arnór er ekki með körfu-
bolta í hendi.
„Nú plana ég daginn í kringum
krakkana og reyni að létta á Lilju því
hún er alltaf með börnin.“
↣
Fréttablaðið/Valli
1 9 . S e P T e M B e R 2 0 1 5 L A U G A R D A G U R32 H e L G I N ∙ F R É T T A B L A ð I ð