Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.10.2019, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.10.2019, Blaðsíða 10
Joshua Bell er staddur í Sviss þegarég slæ á þráðinn til hans í upphafivikunnar, þar sem hann átti að koma fram á tónleikum áður en hann lagði leið sína til Íslands síðdegis á föstudaginn. Ég byrja á því að óska honum til hamingju en þegar ég var að undirbúa viðtalið rakst ég á frétt í breska tónlistarblaðinu The Strad þess efnis að hann hefði gengið að eiga unnustu sína, óperusöngkonuna Lar- isu Martinez, í byrjun mánaðarins. „Almáttugur,“ segir hann og skellir upp úr. „Það stóð alls ekki til að gera mikið úr brúðkaupinu en þetta spurð- ist út. Og jú, kærar þakkir!“ Talið berst því næst að tónleikunum hér heima í kvöld, sunnudagskvöld, og Bell kveðst hlakka til þeirra. „Ég hef komið til Íslands fimm eða sex sinn- um, fyrst 1987 eða 1988 til að spila með sinfóníuhljómsveitinni ykkar, og hef alltaf haft mikla ánægju af þeim heimsóknum. Tónleikarnir sem ég hélt fyrir tveimur árum með kamm- ersveitinni minni, Academy of St. Martin in the Fields, eru sérstaklega eftirminnilegir. Það var lokahnykk- urinn á tónleikaferð okkar um Evrópu og við stungum við stafni í mörgum af bestu tónleikahöllum álfunnar en Harpa bar af þeim öllum. Við nutum þess til hins ýtrasta að leika þar og þegar ég kom heim til Bandaríkjanna og var spurður um hápunkta í ferðinni þá nefndi ég Hörpu. Hljómburðurinn er frábær og manni líður ótrúlega vel á sviðinu. Ég get ekki beðið eftir að standa þar á ný. Mér er ljóst að þið er- uð fámenn þjóð en þið eigið sann- arlega eitt besta tónleikahús í Evrópu. Mjög tilkomumikið.“ Í minningu Ysayes Á efnisskrá verða verk fyrir fiðlu og píanó eftir Schubert, Franck, Bach og Ysaye. Spurður hvort þau séu í sérstöku uppáhaldi hjá honum svarar Bell játandi. „Ég setti þessa efnisskrá raunar saman fyrir tónleika sem ég var beðinn að halda í Brussel í desem- ber síðastliðnum í minningu hins merka fiðlara Eugènes Ysayes. Hann er mér sérstaklega kær, ekki síst fyr- ir þær sakir að hann var kennari kennarans míns, Josefs Gingolds. Fyrir vikið finnst mér ég tengjast honum órofa böndum. Ysaye var einn fremsti konsertfiðlari heims undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu.“ Um er að ræða einleikssónötu nr. 3 í d-moll, op. 27, „Ballade“, og segir Bell sónötu í A-dúr fyrir fiðlu og píanó eftir César Franck fara einstaklega vel með henni enda hafi hún verið samin fyrir Ysaye – sem brúðkaups- gjöf. „Síðan spila ég fiðlusónötu nr. 4 í c-moll, BWV 1017, eftir Bach en Ysa- ye var undir miklum áhrifum frá meistaranum. Efnisskráin byrjar svo á Rondo Brillante í h-moll, D. 895 eftir Franz Schubert sem mér finnst alltaf passa vel með frönsku hefðinni sem bæði Franck og Ysaye tilheyra, enda þótt þeir hafi báðir verið belgískir. Blæbrigðin og flæðið í verkum Schu- berts hafa í mínum huga alltaf farið betur við frönsku hefðina en þá þýsku, sem er formfastari.“ Píanóleikarinn Alessio Bax kemur fram með Bell á tónleikunum. „Hann er frábær píanisti, samstarfsmaður og vinur. Við kynntumst á tónlistar- hátíð í Sviss fyrir um áratug og byrj- uðum upp frá því að spila saman. Hann er líka mjög upptekinn einleik- ari en okkur hefur eigi að síður tek- ist að finna tíma til að spila saman annað slagið. Fyrir utan tónlistina er frábært að ferðast með Alessio; við erum báðir miklir matgæðingar og vitum fátt skemmtilegra en að fara út að borða. Mælirðu með ein- hverjum góðum stöðum á Íslandi?“ Tja. Hvar á ég að byrja? Snýst ekki síður um heppni Bell tók upp sína fyrstu fiðlu fjög- urra ára gamall og hlaut eldskírn sína í Carnegie Hall aðeins sautján ára. Spurður hvort það hafi verið ör- lög hans í þessu lífi að gerast fiðlari svarar hann: „Það má alveg orða það þannig, geri ég ráð fyrir. Ég veit þó ekki hvort ég trúi endilega á forlög. Okkur eru margir vegir færir í þessu lífi og áhugamál mín voru margvísleg í æsku, eitt af þeim var tónlist. Í mínum huga snýst þetta ekki síður um heppni og ég var svo gæfusamur að fæðast í litlum bæ í Indiana, þar sem einn fremsti fiðlukennari heims og nemandi Ysa- yes, téður Josef Gingold, bjó neðar í sömu götu. Hvað hefði gerst hefði hann búið annars staðar? Ég á tón- elskum foreldrum mínum einnig mikið að þakka, fyrir að trúa á mig, hvetja mig og gefa mér tækifæri til að leggja tónlistina fyrir mig. Þau gáfu mér fyrstu fiðluna þegar ég var fjögurra ára en ekki tólf, eins og hjá flestum, og þá hefði það líklega verið of seint til að eiga möguleika á að hafa atvinnu af spilamennskunni síðar. Er þetta heppni eða örlög? Því verða aðrir að svara. Kjarni málsins er hins vegar sá að ég ann tónlist og hún er líklega það sem ég er bestur í, þannig að ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera hana að lifi- brauði mínu.“ – Þú varst líka efnilegur tennis- leikari í æsku. „Ég var mikill áhugamaður um íþróttir og er enn. Tíu ára gamall var ég á kafi í tennis en æfði aldrei nógu vel til að verða afburðamaður í grein- inni. Áhuginn hefur þó aldrei horfið og nýlega festi ég kaup á sveitasetri rétt fyrir utan New York og þar er tennis- völlur á landareigninni. Ég er því byrjaður að spila aftur og kenna börn- unum mínum tennis.“ Að finna nýjar áskoranir Bell hefur notið mikillar velgengni á sínum ferli og óhætt að kalla hann einn fremsta fiðlara samtímans, sem er jafnvígur á einleik og kammer- tónlist. Spurður hvað hvetji hann áfram eftir alla þessa sigra og allan þennan tíma svarar hann: „Að finna nýjar áskoranir og fara út fyrir þæg- indarammann. Það er lykilatriðið. Ég tók við sem tónlistarstjórnandi Aca- demy of St Martin in the Fields árið 2011 og það hefur verið mikil áskorun. Ég hef líka verið að stjórna í auknum mæli annars staðar; fyrir tveimur vik- um stjórnaði ég Dallassinfóníunni án þess að vera með fiðluna í för. Ég er farinn að gera svolítið meira af því. Þetta breikkar sýn mína á tónlistina og gefur mér heilmikið. Ég gæti auð- veldlega verið að spila Tjajkovskíj- konserta í hverri viku, nú eða Brahms og Beethoven, og haft það notalegt. En þannig þrífst ég ekki; ég verð allt- af að teygja mig eftir nýjum áskor- unum og finna fyrir taugunum. Það heldur mér við efnið.“ – Þú nefnir taugar. Verðurðu ennþá taugaóstyrkur áður en þú ferð á svið? „Heldur betur, í hvert einasta skipti,“ svarar Bell hlæjandi. „Mis- mikið að vísu en ég verð alltaf jafn feg- inn þegar þessi tilfinning hellist yfir mig; það er nefnilega varla hægt að hugsa sér neitt betra í þessum heimi en að verða taugaóstyrkur. Það er eins og lyf, í vissum skilningi. Ég er ekki að tala um hræðslu heldur eftir- væntingu. Og fyrir hana lifi ég. Ég vona innilega að þessi tilfinning hverfi aldrei; að stíga á svið má aldrei verða eins og að ganga inn á skrifstofuna.“ Virkjum andlegu hliðina Samkeppnin um athygli okkar mann- anna hefur aldrei verið meiri á tækniöldinni sem upp er runnin. Það leiðir hugann að því hvort sígild tón- list eigi alltaf jafn mikið erindi og hvort hún sé undir samkeppnina búin. „Hún á svo sannarlega erindi,“ seg- ir Bell af miklum þunga. „Ef eitthvað er þá þurfum við meira á henni að halda en nokkru sinni. Við lifum á tím- um þar sem tækni er allt í kringum okkur. Láttu mig þekkja það, ég á þrjú börn sem eru háð spjaldtölvunum sínum. Sjálfur er ég raunar tæknifrík og hef reynt þetta á eigin skinni. Ein- mitt þess vegna þurfum við að virkja hina andlegu hlið okkar og hefja okkur upp yfir hversdaginn og hvað er betur til þess fallið en góð tónlist? Þetta á ekki síst við um lifandi tónlistarflutn- ing; við þurfum á þessu að halda og ekki síður börnin okkar. Það hjálpar þeim að einbeita sér og tengjast hvert öðru sem er mjög mikilvægt á tímum þar sem allir eru meira og minna í sín- um sýndarheimi. Einmitt þess vegna ætti skólakerfið að leggja enn meiri áherslu á tónlist og listir almennt en gert hefur verið í stað þess að skera þetta námsefni fyrst niður, eins og því miður er alltof oft gert í Bandaríkj- unum, þegar harðnar á dalnum.“ Að því sögðu segir Bell tækni og tónlist geta unnið vel saman, ekki síst við miðlun tónlistar og annað slíkt. Þannig geti móðir hans fylgst með tón- leikum hans um heim allan, í Þýska- landi, Kína og á Íslandi. Þá noti hann veitur eins og YouTube mikið sjálfur til að kynna sér efni af ýmsum toga. Bell hefur komið víða við á ferl- inum, meðal annars unnið með popp- listamönnum á borð við Josh Groban og Sting. Hann kveðst hafa haft mikið yndi af því samstarfi en það sé þó alls ekki gert til að klæða sígilda tónlist í leður og spandex eða popptónlist í kjólföt. Hvort um sig standi vel fyrir sínu á eigin forsendum. En verði þetta til þess að laða nýja hlustendur að hvoru um sig sé það ánægjulegt. Þekkir Björk og Sigrúnu Talið berst að íslenskum tónlistar- mönnum og tónskáldum og Bell viður- kennir að hann þekki fáa. „Ég þekki Björk að sjálfsögðu og hún er frábær. Ég á líka íslenska vini sem eru tónlist- armenn. Við Sigrún [Eðvaldsdóttir], konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, vorum saman í sumarbúðum í gamla daga. Hún er æðisleg. Ég þekki á hinn bóginn lítið til íslenskra tón- skálda; maður getur ekki sett sig inn í allt. Það eru til dæmis mörg nútíma- tónskáld í Bandaríkjunum sem ég hef aldrei heyrt um. Ég játa mig sekan!“ Hann hlær. Ekki er hægt að sleppa Joshua Bell án þess að spyrja út í hljóðfærið hans, svokallaðan Huberman Stradivarius, sem hann eignaðist í upphafi aldar- innar en gripurinn er frá gullöld Ant- onios Stradivaris, smíðaður 1713. Fiðl- unni var stolið í tvígang frá fyrri eiganda og í annað skiptið gekkst þjóf- urinn við glæpnum á dánarbeðinum. Um þetta er meðal annars fjallað í heimildarmyndinni The Return of the Violin frá árinu 2013. Spurður hvernig tilfinning það sé að vera bókstaflega með söguna í lúkunum svarar Bell: „Sem klassískur tónlistarmaður er ég stöðugt með söguna í fanginu og ber ábyrgð á því að kynna hana fyrir heiminum. Burtséð frá því þá er magnað að halda á þessari einstöku fiðlu, 300 ára gamalli. Það eru mikil forréttindi að eiga og spila á hana og það hefur blásið mér í brjóst; bæði hvetur það mig til að æfa meira og spenna bogann hærra.“ Það var og. Lifi fyrir eftirvæntinguna Einn fremsti fiðlari heims, Bandaríkjamað- urinn Joshua Bell, kem- ur fram á tónleikum í Hörpu í kvöld, sunnu- dagskvöld, ásamt pí- anóleikaranum Alessio Bax. Hann hlakkar til tónleikanna enda segir hann Hörpu eitt besta tónleikahús álfunnar. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Joshua Bell með Stradi- varius-fiðluna góðu sem smíð- uð var á því herrans ári 1713. Ljósmynd/Marc Hom VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20.10. 2019

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.