Morgunblaðið - 20.12.2019, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 20.12.2019, Blaðsíða 8
8 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. DESEMBER 2019 Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Á ætlað er að rækta megi um 150.000 tonn af laxi í sjókvíum í íslenskum fjörðum. Laxeldið er núna í mikilli sókn og stefnir í að framleiðslan á þessu ári verði á bilinu 25 til 30.000 tonn, en til að sýna lesendum hve ör vöxturinn er í greininni þá tókst laxeldisstöðvunum að rjúfa 10.000 tonna múrinn árið 2017. Ef sami taktur verður í vexti íslensks laxeldis á kom- andi árum og áratugum er ljóst að búið verður að fullnýta öll leyfileg eldissvæði áður en langt um líður – og hvað gerist þá? Friðrik Sigurðsson er ráðgjafi á sviði fisk- eldis og sjávarútvegs hjá norska fyrirtækinu INAQ. Hann lærði sjáv- arlíffræði við NTNU í Þrándheimi í Noregi og var fyrsti framkvæmdastjóri Landssambands fiskeld- isstöðva á árunum 1986 til 1990. Hann hefur komið við hér og þar í greininni, bæði á Íslandi og erlendis. Til viðbótar við ráðgjafar- störfin er hann núna stjórn- armaður hjá Erik Havfiske AS sem er stærsta línu- bátaútgerð heims. Að mati Friðriks gæti næsta skrefið í ís- lensku laxeldi verið að stunda úthafseldi í risa- vöxnum kvíum sem þola mikla ölduhæð og rúma langtum meira magn af fiski en hefð- bundnar flotkvíar. Í Noregi eru þannig kvíar þegar komnar í notkun og lofa góðu. Hann segir það hafa hvatt eldisfyrirtækin þar í landi til að leita út á haf að í dag þarf að greiða tugi milljóna norskra króna til að fá leyfi til að hefja laxeldi inni í fjörðum á meðan leyfi til að stunda úthafseldi eru veitt án endurgjalds. Þá er miklu minni hætta á laxalús og erfðameng- un úti á opnu hafi og sterkari vatnsstraumar sem bera burtu úrgang en á móti kemur að sjálfar kvíarnar eru mun dýrari enda þurfa þær að þola meira krefjandi aðstæður. „Fram- leiðslugetan er hins vegar gríðarleg og getur ein úthafskví rúmað 5.000 til 10.000 tonn af laxi á meðan hefðbundin flotkví rúmar 750 til 1.000 tonn.“ Verðmæti upp á tugi milljarða króna Friðrik bendir á að ef dæmigerð úthafseldiskví myndi framleiða um 7,500 tonn af laxi á ári þá myndi þurfa um 20 kvíar af þeirri stærð í kringum Ísland til að framleiða 150.000 tonn til viðbótar við þann fisk sem ræktaður væri í fjörðunum. „Ef við miðum við 800 kr. kílóverð og gerum ráð fyrir 100.000 tonna viðbótar- framleiðslu árlega þá myndi það jafngilda 80 milljörðum króna í tekjur en til samanburðar er útflutningsverðmæti allra fiskveiða og fisk- eldis á Íslandi núna um 250 milljarðar árlega. Auk þess skapar þetta fjölda nýrra starfa við fóðurgerð, viðhald búnaðar, skipa og lönd- unarþjónustu, vinnslu og pökkun.“ Vitaskuld þarf margt annað að gerast í milli- tíðinni og þannig nefnir Friðrik að í dag sé seiðaeldi stærsti flöskuhálsinn í íslensku lax- eldi og þörf á að auka framleiðslugetu seiða- eldisstöðva til muna á komandi árum. Eins mun þurfa að bæta ýmsa innviði greinarinnar svo hún ráði vel við stóraukna framleiðslu á laxi og sé á sama tíma samkeppnishæf við lax- eldi í öðrum löndum. „Aðstæður til laxeldis á Íslandi eru svipaðar og í Norður-Noregi og framleiðslukostnaður í sjó ekki ósvipaður og þar. Aftur á móti er kostnaðurinn mun hærri á Íslandi þegar kem- ur að því að taka laxinn úr kvíunum, slátra honum og koma á markað erlendis, en í krafti stærðarhagkvæmni er vinnslu- og flutnings- geta norska laxeldisins allt önnur og kostn- aðurinn lægri.“ Með betri markaðssýn Friðrik bendir á að með tíð og tíma muni ís- lenskt laxeldi styrkjast og stækka, og með því aukist stærðarhagkvæmnin. Þá hafi íslenskir framleiðendur á margan hátt betri markaðs- sýn en kollegar þeirra í Noregi: „Laxeldi í Noregi byggist að mestu á því að framleiða mikið magn af lítið unninni afurð en Ísland hefur tækifæri til að vera framar í vöruþróun og menn verða að gæta þess að vera ekki að flytja út hausa, roð og bein sem lítið fæst fyrir heldur nýta tæknina til að flaka og snyrta lax- inn vel áður en hann er sendur rakleiðis á markað,“ segir hann og spáir því að staða Ís- lands gæti orðið svipuð og staða Færeyja sem í dag fá hærra verð en Norðmenn fyrir sinn eld- islax. „Í dag er fiskeldi orðið ein af aðalat- vinnugreinum Færeyinga og á u.þ.b. 15 til 20 árum hefur þeim tekist að ná framleiðslu á eld- islaxi upp í 80 til 90.000 tonn á ári. Færeyskir framleiðendur fá gott verð fyrir fiskinn og eru meðal annars að selja til landa eins og Kína þar sem Noregur hefur ekki haft jafn auðveld- an aðgang.“ Hentug svæði og hentugar leikreglur Ef úthafseldi á laxi á að verða að veruleika í framtíðinni þyrfti strax í dag að fara að búa í haginn fyrir frekari þróun á því sviði. Friðrik segir stjórnvöld þurfa að hafa skynsamlega framtíðarsýn og ekki sofna á verðinum. „Við erum að komast á það stig að umgjörðin fyrir hefðbundið fiskeldi á Íslandi sé jafn langt á veg komin og í Noregi, en því miður hefur kunnáttuleysi íslenskra stjórnvalda litað um- hverfi greinarinnar. Stjórnvöld þurfa líka, fyrr en síðar, að marka stefnu um úthafseldi, með aðkomu hagsmunaaðila og rannsóknarstofn- ana þar sem m.a. væri gætt vandlega að líf- fræðilegum og umhverfislegum þáttum og þess freistað að greina hvaða svæði myndu henta best til að stunda úthafseldi s.s. með til- liti til hrygningarsvæða verðmætra fiskstofna og áhrifa á viðkvæm haf- og botnsvæði á borð við kóralrif,“ segir Friðrik og bendir á að sennilega myndu úthafskvíarnar þurfa að vera sunnan og austan við landið svo að lítil sem engin hætta yrði á skemmdum af völdum haf- íss. „Eins þarf að taka með í reikninginn að út- hafseldið falli vel að umferð bæði fiskiskipa og vöruflutningaskipa, svara ýmsum hafréttar- legum spurningum og greina hvort úthafseldið gæti haft áhrif á fiskveiðar.“ Friðrik gagnrýnir hve langan tíma það tók stjórnvöld að koma á skýrri og vandaðri um- gjörð fyrir hefðbundið fiskeldi. „Það gengur ekki að bíða í önnur 30 ár eftir umgjörð utan um úthafseldið, og að bíða eftir því að lausnin komi til okkar frá Noregi. Að taka af skarið núna og sýna gott frumkvæði er það sem þarf ef á að auka framleiðslugetu íslensks laxeldis í framtíðinni,“ segir hann og bætir við að Norð- menn séu stórhuga þegar kemur að úthafseld- inu: „Stjórnvöld þar í landi hafa lagt til að um 25.000 ferkílómetrar undan ströndum Noregs verði notaðir undir úthafseldi en það er um fjórðungur af flatarmáil alls Íslands.“ Að mati Friðriks gæti næsta skrefið í íslensku laxeldi verið að stunda úthafseldi í risavöxnum kvíum sem þola mikla ölduhæð og rúma langt- um meira magn af fiski en hefð- bundnar flotkvíar. Laxeldið mun sækja út á haf Með nokkrum stórum úthafs- kvíum mætti framleiða lax sem væri margra tugmilljarða króna virði. Í Noregi stendur til að taka frá 25.000 ferkíló- metra svæði undir úthafseldi. Friðrik Sigurðsson Tölvuteikningar af risavöxnu úthafseldisstöð norska fyrirtækisins Nordlax. Stöðin hefur fengið nafnið Havfarm og verður smíðuð í Kína. Á neðri teikningunni má sjá hefðbundin skip til samanburðar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.