Skessuhorn - 31.07.2019, Blaðsíða 11
MIÐVIKUDAGUR 31. júLí 2019 11
Þegar blaðamaður Skessuhorns
renndi í hlað að Runnum í Reyk-
holtsdal á föstudaginn kom Máni
Hilmarsson ríðandi í hlað. „Hann
var eitthvað að villast þessi svo ég
var að sækja hann,“ segir Máni
um leið og hann hoppar af baki
og sleppir brúnum hesti lausum í
gerði við hesthúsið að Runnum.
Við eltum Mána inn í hesthús þar
sem hann býður blaðamanni sæti
á kaffistofunni. Tilefni heimsókn-
arinnar er Heimsmeistaramót ís-
lenska hestsins sem fram fer í Berl-
ín 4.-11. ágúst en þar mun Máni
keppa í fjórgangi og slaktaumatölti
á Lísbetu frá Borgarnesi. Er þetta
í annað skipti sem Máni keppir
á heimsmeistaramóti, en hann
keppti árið 2017 í fimmgangi og
kom þá heim með gullið.
Blendnar tilfinningar
Aðspurður segir Máni blendnar
tilfinningar að fara út til að taka
þátt á heimsmeistaramóti þar sem
hann getur ekki tekið hestinn með
sér heim aftur. „Ég er að fara að
keppa á níu vetra hryssu sem pabbi
ræktaði. Hefur hún því verið í fjöl-
skyldunni frá því hún var folald og
ég hef sjálfur verið að þjálfa síð-
ustu fimm ár. Það verður sérstakt
að koma heim eftir mótið og hún
verður ekki hér. En þetta er stórt
tækifæri fyrir mig sem ég gæti ekki
hafnað og það kostar bara þetta,“
segir Máni. „Þegar ég fór síðast
var ég líka með hest sem við höfð-
um sjálf ræktað og ég þurfti að
skilja eftir, það var erfitt en svona
er þetta. Hann fór á gott heimili í
Bretlandi og hryssan mun líka fara
þangað,“ segir hann.
Gefandi starf
Máni er að verða 22 ára gam-
all Borgfirðingu. Hann kemur af
miklu hestafólki og ólst upp í kring-
um hesta og vinnur í dag við að
þjálfa, temja, rækta og keppa. „Ég
hef bara alltaf verið í þessu, þetta
er í blóðinu,“ segir hann og bros-
ir. „Ég er búin að vinna við þetta
frá því ég var 17 ára og lífið snýst
um hestamennskuna. Ég elska
það sem ég geri, annars hefði ég
örugglega ekki náð að endast þetta
lengi því dagarnir í hesthúsinu eru
mjög langir,“ segir hann. „Ég gæti
ekki séð fyrir mér að fara að vinna
á hefðbundnum skrifstofutíma, þá
hefði ég ekkert að gera á kvöldin,“
bætir hann við og hlær. „Við erum
fjögur sem vinnum hér saman og
erum allt árið með um 32 hesta
á húsi í einu. Það er alltaf nóg að
gera sem er bara frábært því þetta
er gefandi starf. Mér líður alltaf
best í kringum dýr, þau gefa líf-
inu mínu tilgang,“ segir hann ein-
lægur. „Það er líka einstaklega gott
að vera hér í sveitinni því við erum
með góða aðstöðu og í svo mikilli
nálægð við náttúruna. Við getum
líka haft hestana mikið úti og ver-
ið sjálf mikið úti. Ég er mikið nátt-
úrubarn,“ segir hann.
Strangar reglur um
sóttvarnir
En snúum okkur að heimsmeist-
aramótinu, hvernig háttar hann
undirbúningi fyrir svo stórt mót?
„Það þarf fyrst og fremst að skoða
vel heilsufar hryssunnar og fylgj-
ast með því. Svo þarf að halda
áfram að þjálfa hana, en bara ró-
lega samt því hún þarf mikla hvíld
fyrir bæði mótið og ekki síst ferða-
lagið. Þetta er langt ferðalag fyr-
ir hrossin og það er ekki gott að
þau séu þreytt,“ svarar Máni. „Það
verða mikil viðbrigði fyrir íslensku
hrossin að koma út. Það er mikið
heitara en hér og bara allt öðru-
vísi loftslag. Sum hross eiga mjög
erfitt fyrst eftir komuna út,“ seg-
ir hann.
Aðspurður segir Máni það mjög
frábrugðið að keppa á móti er-
lendis og hér heima. „Venjulega
þegar ég keppi hér heima er ég
að hugsa um svona 30 hesta en úti
er ég bara að hugsa um einn, það
er frekar sérstakt. Sóttvarnirnar í
kringum okkur úti gerir það líka
mjög sérstakt að keppa þar. Um-
gjörðin er bara allt önnur. Það eru
mjög strangar reglur um alla um-
gengni við íslensku hestana og í
kringum allan okkar búnað, bæði
svo hestarnir okkar verði ekki
veikir á mótinu og svo við ber-
um ekki smit heim eftir mót. Við
megum ekki ríða á sömu reiðleið-
um og aðrir hestar og sjálf meg-
um við sem erum í kringum ís-
lensku hestana ekki koma nálægt
neinum öðrum hestum,“ útskýrir
Máni. „Hestarnir okkar eru svo
einangraðir hér og ekki búnir að
byggja upp ónæmi fyrir ýmsum
bakteríum þarna úti. Það er því
mjög mikilvægt að gæta vel að öllu
hreinlæti til að bera ekki sýkingar
í hestana. Allur búnaður sem við
notum úti verður líka að vera eftir
þar, nema það sem hægt er að sótt-
hreinsa,“ bætir ann við.
Kíkir á hryssuna í vetur
Aðspurður segir hann mótið leggj-
ast vel í sig. „Það er mikill heiður
að fá að taka þátt á heimsmeistara-
móti. En ég er heppin og hef ótrú-
lega gott fólk í kringum mig sem
sér til þess að ég geti gert þetta,
ég kæmist ekki langt einn,“ seg-
ir Máni og brosir. „En eins og ég
segi eru þetta blendnar tilfinning-
ar en það er samt gott að vita af
því að hryssan fer á gott heimili og
ég ætla einmitt að kíkja þangað til
þeirra í vetur.“ arg
Máni ásamt Landsliði Íslands í hestaíþróttum. Ljósm. úr safni.
Máni og Lísbet halda til Berlínar á heimsmeistaramót
Máni Hilmarsson og Lísbet frá Borgarnesi eru á leiðinni á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín. Ljósm. úr einkasafni.
Máni keppti einnig á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins fyrir tveimur árum og hreppti þá gullið. Hér er hann á verðlauna-
pallinum. Ljósm. úr safni/ Gísli Einarsson.