Feykir


Feykir - 25.10.2017, Blaðsíða 14

Feykir - 25.10.2017, Blaðsíða 14
Það kom engum á óvart sá fjöldi sem fylgdi Jóni Halli vini okkar og vel- gjörðarmanni síðasta spölinn á laugar- daginn. Honum var mikill sómi sýndur með fallegri athöfn, einstaklega inni- haldsríkri ræðu sr. Sigríðar og áhrifa- miklum söng félaga hans og vina. Með okkur geymum við svo margt um hann hvert með sínu sniði. Í því knappa formi sem minningargreinar eru þá reyndi ég að koma fáeinum orðum á blað, en svo margt er þar ósagt. Ískaldur raunveruleikinn hefur vikið í burtu þeirri von sem bærðist svo lengi í brjóstum okkar þegar ljóst var að alvarlegur sjúkdómur hefði búið um sig í vini mínum Jóni Halli Ingólfssyni. Voninni um að svo sterkur og vel gerður maður gæti barist til sigurs, því hvað er eftir þegar vonin er tekin frá okkur? Jón Hallur var óvenjulegur maður að atgervi og hæfileikum. Það er sama hvar hann hefði haslað sér völl, hann hefði alls staðar verið yfirburðamaður. Og þess hefur samfélagið sem hann fæddist og bjó í sannarlega notið. Svo ég vitni í hans eigin orð: „Ég er fæddur undir heilla- stjörnu. Ég er fæddur á Íslandi og ég er fæddur í Skagafirði.“ En heppnin er okkar hinna, að hann skyldi kjósa að rækta sinn garð hér af þeirri ábyrgð og alúð sem öll hans vegferð ber vitni. Jón Hallur í bankanum var landsþekktur maður og til hans bar fólk meira traust en gengur og gerist. Fyrir tíma netbanka var Jón sá sem bjargaði öllu af lipurð og velvilja. Menn hringdu jafnvel af bílasölum um helgar og fengu hann til að ábyrgjast greiðslur eftir helgina svo hægt væri að aka heim á bílnum. Mundi allar kennitölur, hverja bón og brást aldrei nákvæmnin. Og sporin liggja víða. Hvort sem hann var í lögreglubúningi, sjóstakk, björgunar- sveitargallanum eða með smíðasvuntu var hann ósérhlífinn og einstaklega vand- aður bæði til orðs og æðis, vinsæll og vinmargur. Vinátta okkar spannar áratugi allt frá því að hann sem ungur maður fór að venja komur sínar í Hraun, síðar þegar Jóhann og Hulda voru þar í sveit og svo öll þau ár sem við höfum staðið hlið við hlið af ýmsum tilefnum, ekki síst hér á Löngumýri, sungið og sprellað. Á sviði var Jón Hallur eins og fiskur í vatni. Þar nutu söng- og leikhæfileikarnir sín til fullnustu, óvenjulega músíkalskur með glampandi tenórrödd. Þá kastaði hann af sér hinu ábyrga yfirbragði bankamannsins og sögumanninum og æringjanum var sleppt lausum. Gríni og gamanbrögum var fylgt eftir með látbragði, augnagotum og handahreyfingum sem hvaða atvinnu- maður hefði verið fullsæmdur af. Á milli okkar var einhver hulinn strengur, þegar annar hugsaði þá framkvæmdi hinn. Það gat þó brugðist, einkum þegar hann bætti við ófyrirséðum hreyfingum eða leik- munum sem leystu atriðið upp í hláturs- kast okkar beggja. Stóri vinningurinn í lífi Jóns Halls var blessunin hún Aðalbjörg og í framhaldinu þessi dásamlegu börn þeirra Hallgrímur og Kristveig sem bættust við Jóhann og Huldu sem Aðalbjörg opnaði faðm sinn mót. Í hartnær þrjá áratugi réru hjónin samhliða og samtaka, nú síðast í ólgusjó veikindanna. Styrk Aðalbjargar og æðru- leysi Jóns Halls við þær aðstæður lýsa engin orð. Yfirvegunin brást aldrei þar sem umhyggju og ráðum var deilt öðrum til hjálpar. Ævin er stutt, hvert andvarp frá tímanum dregið, hvert augnablik mælt eða vegið hvert tár, sérhver bæn sérhvert bros. Menn spyrna við fast, en enginn fær æmt eða flúið þar aldrei til baka er snúið því dómarinn líður ei los. -En reglurnar samt skilja frekar fáir því Faðir vor hann afsker bæði og sáir. Við lútum í sorg, og látum þær minningar flæða sem líkna og sárin helst græða. og hugarins harmkvæla dyn. Þá eygjum við ljós, sem reka burt reiði og efa, í raununum friða og sefa er kveðjum við kærasta vin. -Og eftir stendur í því stóra skarði, í okkar þágu lífi sínu varði. Guð blessi minningu Jóns Halls og styrki ástvini hans alla. Gunnar Rögnvaldsson M I N N I N G Jón Hallur Ingólfsson fæddur 10. nóvember 1957 – látinn 12. október 2017 Gunni Rögg, Jón Hallur og Íris Olga á skemmtuninni Lífið er núna í sumar. MYND ÓAB 14 40/2017

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.